Viðburðir eftir árum


Verkefni í þágu samfélags: Ráðstefna MPM-námsins í HR

  • 30.4.2015, 16:00 - 19:00

30. apríl 2015 í stofu M101 kl. 16-19

Verkefni sem nemendahópar unnu vorið 2015 verða kynnt á ráðstefnu MPM námsins. Ráðstefnan stendur yfir kl. 16-19 og er öllum opin. Fundarstjóri er Tryggvi Sigurbjarnarson ráðgjafarverkfræðingur og einn af þeim sem lögðu grunn að MPM-náminu.

Á öðru misseri í MPM-námi vinna nemendur verkefni sem eiga að þjóna samfélaginu á einhvern hátt. Nemendur hafa sjálfir fundið upp á Verkefnum í þágu samfélags og fylgja verkefnum sínum frá hugmyndastigi til framkvæmdar. Verkefnin sem urðu til að þessu sinni eru afar fjölbreytt og uppfylla vítt svið samfélagslegra þarfa. Meðal verkefna má nefna Matarbankann, sem tengir saman matvælabirgja og hjálparsamtök, kynningarátak fyrir Annað líf, sem miðar að vitundavakningu um mikilvægi líffæragjafa og Orðaleikana sem fóru fram laugardaginn 11. apríl í Háskólanum í Reykjavík, en Ólafur Stefánsson, handboltakappi og Ævar vísindamaður heimsóttu meðal annarra Orðaleikana.

Dagskrá:

16:00  Setning ráðstefnu

16:05  Annað líf: Taktu afstöðu til líffæragjafar!

Verkefnið Annað líf er kynningarátak sem miðar að vitundavakningu um mikilvægi líffæragjafa. Verkefniseigandi er félagið Annað líf sem er áhugafélag um líffæragjafir og var stofnað í byrjun árs 2014 af Kjartani Birgissyni hjartaþega. Átakinu er ætlað að hvetja fólk til þess að ræða líffæragjöf, taka afstöðu, koma vilja sínum á framfæri við sína nánustu og skrá sig sem líffæragjafa í gagnagrunn Landlæknis. Einnig var sérstök áhersla lögð á að kynna starfsemi félagsins, styrkja innviði þess og styðja það til frekari starfa í framtíðinni. Kynningarstarfið fór fram á vefnum, á samfélagsmiðlum, með auglýsingum og með umfjöllun í fjölmiðlum.

Tengiliður: Birna Dís Benjamínsdóttir

16:30  Verkvitund: Námsefni í verkefnastjórnun fyrir unglinga

Verkvitund er framsækið námsefni í verkefnastjórnun á opinni vefsíðu fyrir unglingastig grunnskóla. Námsefninu er ætlað auka þekkingu unglinga á verkefnastjórnun með því að veita þeim aðgang að kennsluefni sem nýst getur þeim í verkefnavinnu, í einkalífi þeirra og til nýsköpunar í framtíðinni. Námsefnið á að virkja ungt fólk til gagnrýnnar hugsunar, betri leiðtoga-, samskipta- og skipulagsfærni og auka þannig á getu þeirra til að ná árangri. Námsefninu fylgir ítarefni fyrir grunnskólakennara ásamt verkefnum og hópæfingum til að æfa hagnýtar aðferðir. Námsefnið má finna á vefsíðunni www.verkvitund.is. Samstarfsaðili verkefnishópsins er Háteigsskóli í Reykjavík.

Tengiliður: Karen Emilia Barrysdóttir Woodrow

16:55  Hækkun kosningaaldurs í 25 ár! Málþing um mikilvægi kosningaréttar.

Málþing um mikilvægi kosningarréttar - Hækkun kosningaaldurs í 25 ár var haldið þann 21. mars þar sem markmiðið var að auka kosningavitund ungs fólks með því að benda á mikilvægi þess að kjósa og vera þannig virkur í lýðræðissamfélagi. Unnið var myndband frá málþinginu þar sem niðurstöðurnar eru teknar saman og nýtist það sem innlegg í umræðuna “hvað á að gera til þess að auka kosningaþátttöku ungs fólks”. Kannanir sýna að kosningaþátttaka ungs fólks er lítil og féll um 20% á milli síðustu kosninga. Verkefnið er styrkt af sjóði 100 ára kosningaafmælis kvenna. Helstu samstarfsaðilar eru Kvenfélagssamband Íslands (KÍ), Landssamband æskulýðsfélaga (LÆF), samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum (WIFT), Sambandi íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og viðburðafyrirtækið KVIS.

Tengliður:Ágústa Kristín Grétarsdóttir                              

17:20  Hlé

17:45  Matarbankinn: Vefsíða fyrir matarbirgja og hjálparstofnanir

Verkefnið Matarbankinn snýst um að minnka matarsóun hjá matvælabirgjum í íslensku samfélagi og stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla. Eigandi verkefnisins eru samtökin Vakandi en samtökin hafa það að markmiði að sporna við matarsóun á Íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við bæði matvælabirgja, sem þurfa að losna við matvæli, og hjálparsamtök sem leita eftir matargjöfum. Verkefnið snýst um að koma á samskiptum milli þessara aðila í gegnum aðgangsstýrða vefsíðu þar sem matvælabirgjar skrá inn matargjafir sem hjálparsamtökin geta þegið og komið áfram til sinna skjólstæðinga.

TengiliðurÞórdís Anna Gylfadóttir 

18:10  Orðaleikarnir - lestur í gegnum hreyfingu, leik og gleði.

Orðaleikarnir fóru fram laugardaginn 11. apríl í Háskólanum í Reykjavík. Markmið þeirra var að auka áhuga 8-11 ára krakka á lestri og kynna fjölbreyttar lestrarkennsluaðferðir. Á Orðaleikunum var boðið upp á fjölbreyttar smiðjur sem gestir tóku þátt í. Leikur að læra stóð fyrir smiðjum þar sem lestur og hreyfing voru samþætt, Fágæti og furðuverk samtvinnaði leik og lestur, Edda útgáfa stóð fyrir Andrésar Andar myndasögukeppni og Bókabíllinn Höfðingi stóð vaktina fyrir utan háskólann. Valinkunnir menn heimsóttu einnig Orðaleikana, m.a. Ólafur Stefánsson, handboltakappi, og Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður. Styrktaraðilar verkefnisins voru Penninn Eymundsson, Ölgerðin og Advania.

Tengiliður: Eva Krístín Dal

18:35  Sókn til forvarna: Börn og unglingar í Mosfellsbæ

Verkefnið Sókn til forvarna er unnið fyrir Mosfellsbæ og felst í stefnumótun og gerð aðgerðaráætlunar á sviði forvarna barna og unglinga. Afurð verkefnisins er nákvæm aðgerðaráætlun sem Mosfellsbær mun taka til umfjöllunar. Markmið verkefnisins er að samþætta forvarnarstarf í Mosfellsbæ og bæta með því lífsaðstæður barna og unglinga í bæjarfélaginu. Verkefnishópurinn kortleggur alla sem geta komið að forvörnum barna og unglinga í Mosfellsbæ og gerir aðgerðaráætlun þar sem kraftar allra þessara aðila eru nýttir.

Tengiliður: Bjarni Sv. Guðmundsson

19:00  Endir

Allir þeir sem hafa áhuga á verkefnastjórnun, áætlanagerð og eftirfylgni verkefna og beitingu aðferðafræði verkefnastjórnunar í ólíkum tegundum verkefna ættu að nýta tækifærið og taka þátt í ráðstefnunni. Ráðstefnan er einnig gott tækifæri til að fá innsýn inn í viðfangsefni nemenda á fyrra námsári í MPM námi við Háskólann í Reykjavík.

Gagnlegir tenglar um námið:

Háskólinn í Reykjavík: http://www.ru.is

MPM námið við Háskólann í Reykjavík: http://www.ru.is/mpm

Verkefni í þágu samfélagsins: http://www.ru.is/mpm/af-hverju-mpm/verkefni-i-thagu-samfelags/

Gagnlegir tenglar vegna verkefna ráðstefnunnar:

Annað líf: Taktu afstöðu til líffæragjafar! - www.facebook.com/annadlif  

Verkvitund: Námsefni í verkefnastjórnun fyrir unglinga - www.verkvitund.is

Hækkun kosningaaldurs í 25 ár! Málþing um mikilvægi kosningaréttar - www.facebook.com/kjosandinn

Matarbankinn: Vefsíða fyrir matarbirgja og hjálparstofnanir - www.matarbankinn.is

Orðaleikarnir - lestur í gegnum hreyfingu, leik og gleði - www.facebook.com/ordaleikarnir

Meistaranám í verkefnastjórnun (MPM) við Háskólann í Reykjavík er alhliða stjórnendanám sem miðar að því að koma hlutum í verk með skilvirkum hætti á öllum stigum og sviðum samfélagsins. Mikið er lagt upp úr því að nemendur geti samhæft teymi ólíkra einstaklinga til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni, ná tilætluðum árangri og stuðla að uppbyggingu og þróun. Verkfæri verkefnastjórnunar nýtast ekki aðeins til að halda utan um verkefni innan fyrirtækja og stjórnsýslu heldur einnig til að halda utan um stóra viðburði, reka fyrirtæki og sem aðferðafræði í nýsköpun.  Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@ru.is
//
Please note that at events hosted at Reykjavik University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on our ru.is or send an e-mail: personuvernd@ru.is