Meistaravarnir við íþróttafræðideild

  • 31.5.2022 - 3.6.2022, 12:00 - 16:00, Háskólinn í Reykjavík

Nemendur í MSc í íþróttavísindum og þjálfun verja meistaraverkefnin sín dagana 31. maí, 2. og 3. júní í stofu M104. Öll velkomin. 

Sjá dagskrá og nánari upplýsingar um verkefni hér að neðan. 

31. maí kl. 12:00-13:00

Arnór Snær Guðmundsson, Anthropometric characteristics, physical attributes, and relative age effect of elite youth soccer players: Comparison between Iceland and Norway. 

Leiðbeinandi: Hjalti Rúnar Oddsson
Prófdómari: Daði Rafnsson

Útdráttur:

Fótbolti er ein af vinsælustu íþróttum heims. Frammistaða í fótbolta er háð líkamlegum, tæknilegum, taktískum og huglægum þáttum. Fyrir yngri iðkendur er lykilatriði að framkvæma líkamlegar mælingar til að fylgjast með framgangi og álagi ásamt því að byggja upp æfingaplan og sjá hver áhrif þess eru. Markmið: Að rannsaka og bera saman líkamssamsetningu og líkamlega eiginleika og fæðingardagsáhrifin (e. relative age effect) ungra afreksleikmanna á Íslandi annars vegar og Noregi hinsvegar. Aðferð: 46 leikmenn úr yngri landsliðum karla á Íslandi ásamt 26 leikmönnum úr norskri akademíu tóku þátt í rannsókninni. Líkamssamsetning (hæð og þyngd) þáttakenda var mæld ásamt því að sjö líkamleg próf voru framkvæmd, 5x30 metra endurtekna spretti, sem innihélt 10 og 30 metra hraðapróf, Bosco jafnfætishoppi, Abalakov hopp, Illinois snerpuprófið og YoYo intermittent recovery prófið, stig 2. Til að greina niðurstöðurnar var notast við t-próf í tveimur hópum. Þegar niðurstöðurnar voru greindar út frá fæðingardegi var notast við kí-kvaðrat próf. Niðurstöður: Það var enginn munur á líkamssamsetningu milli íslenskra og norskra þátttakenda. Íslensku leikmennirnir stóðu sig betur (p<0.05) í: 5x30 metra endurtekna sprettprófinu, Bosco jafnfætishoppi, 10 og 30 metra sprettprófum og Illinois snerpuprófinu. Fæðingardagsáhrifin var ekki að finna í hvorugum hópnum í þessari rannsókn. Ályktanir: Ungir íslenskir og norskir afreksleikmenn hafa sambærilega líkamssamsetningu. Hinsvegar, búa íslenskir leikmenn yfir betri líkamlegum eiginleikum þar sem íslenskir þátttakendur stóðu sig betur í líkamlegum prófum. Þessi rannsókn bendir til þess að fæðingardagsáhrifin sé að finna innan ungra afreksleikmanna á Íslandi.

2. júní kl. 10:00-11:00

Ólafur Snorri Rafnsso, Reference values for physical fitness and ball throwing velocity according to age in Icelandic elite female handball players (HSI). 

Aðalleiðbeinandi: Sveinn Þorgeirsson
Með leiðbeinandi: Jose M. Saavedra
Prófdómari: Elvar smári Sævarsson

Útdráttur: 

Markmið þessarar rannsóknar var að (i) greina líkamlega eiginleika, líkamlega afkastagetu og kasthraða eftir aldri hjá íslenskum handknattleikskonum og (ii) að setja saman viðmiðunargildi fyrir líkamlega afkastagetu og kasthraða eftir aldri hjá íslenskum handknattleikskonum. Alls voru 482 mælingar framkvæmdar á fimmtán mismunandi mælingadögum. Þátttakendur rannsóknarinnar höfðu allir verið valdir til þátttöku af landsliðsþjálfurum fyrir ákveðin æfingatímabil á forvali síns aldursflokks (U-16, U-18, U-20 og fullorðnir). Mælingar voru framkvæmdar á líkamshæð, líkamsþyngd. líkamsþyngdarstuðli, gripstyrk, hraða í 10-m og 30-m spretthlaupi, lóðréttri stökkhæð, 3kg boltakasti, Yo-Yo þolprófi og kasthraða. Lýsandi tölfræði var notuð til að reikna meðaltal og staðalfrávik allra breyta. Einvíð dreifigreining var notuð til að kanna mun á milli hópa ásamt Games-Howell eftirprófun. Viðmiðunargildi fyrir líkamlega afkastagetu og kasthraða voru reiknuð með hundraðshlutum út frá meðaltölum og voru skilgreind sem ágæt (95%), yfir meðallagi (75%), í meðallagi (50%), undir meðallagi (25%) og slök (5%). Niðurstöður sýndu að það var munur á milli allra aldurshópa í líkamlegum eiginleikum hvað varðar líkamshæð og líkamsþyngd. Einnig var munur milli aldurshópa í gripstyrk, stökkkrafti, boltakasti, Yo-Yo þolprófi og kasthraða. Það var ekki munur milli aldurshópa í 10-m og 30-m hraðaprófi. Viðmiðunargildi sýndi að vöðvastyrkur, hraði, kraftur í neðri og efri líkama eykst á árunum 16 – 20 ára. Þol eykst eftir 18 ára aldur og kasthraði eykst á árunum 16 – 20 ára. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þurfa þjálfarar að leggja áherslu á þjálfun sem miðar að því að bæta viðbragðshraða, hraða og loftfirrta getu hjá leikmönnum frá 16 ára aldri.

2. júní kl. 11:00-12:00

Melkorka Rán Hafliðadóttir, NPC Iceland preparation for the 2020 Paralympic Games. A mixed model thesis of the Icelandic Paralympic national team's preparation leading up to the 2020 Paralympic Games in Tokyo.

Aðal leiðbeinandi: Ingi Þór Einarsson
Með leiðbeinandi: Steinn Baugur Gunnarsson
Prófdómari: Kári Jónsson

Útdráttur:

Árið 2020 átti Ólympíumót fatlaðra (Paralympic Games eða PG) að fara fram í Tókýó en var frestað um ár vegna útbreiðslu á Covid-19 veirunni til ársins 2021. Ísland átti sex keppendur sem tóku þátt í þremur mismunandi íþróttagreinum á PG; frjálsum íþróttum, sundi og hjólreiðum. Tilgangur rannsóknarinnar var að fylgjast með og meta loka undirbúning íslenska íþróttafólksins sem keppti á PG. Aðferð: Fimm keppendur sem kepptu á PG samþykktu að taka þátt í þessari rannsókn. Skipulagður undirbúningur á vegum Íþróttasambands fatlaðra byrjaði vorið 2021 fyrir keppendur á PG. Fylgst var með líkamlegum, andlegum og næringarlegum þáttum í undirbúningnum og þessir þættir bornir saman við árangur á mótum fyrir PG og á PG. Eftir PG voru tekin viðtöl við íþróttafólkið til þess að safna upplýsingum um upplifun þeirra á undirbúningnum. Niðurstöður: Líkamlegi þáttur undirbúningsins sýndi að íþróttafólkið bætti sig að meðaltali um 5,19% í sinni íþróttagrein á PG miðað við fyrsta mót þeirra á tímabilinu. Andlegi þáttur undirbúningsins sýndi að skor þeirra á spurningarlistum voru að meðaltali 3,01% betri í júlí miðað við í maí. Næringarlegi þáttur undirbúningsins sýndi að mataræði íþróttafólksins varð að meðaltali 36,66% betri í júlí miðað við í maí. Samantekt: Flest af íþróttafólkinu náði að setja persónulegt met í að minnsta kosti einni keppnisgrein. Íþróttafólkið hafði mismunandi upplifun af undirbúningnum en voru að meirihluta sátt með árangur sinn á PG. Undirbúningurinn studdi við íþróttafólkið og hjálpaði þeim við að hámarka árangur sinn á PG.

2. júní kl. 12:00-13:00

Guðlaug Dís Erlendsdóttir, Health promotion for the elderly: The benefits of physical activity on the aging process.

Aðal leiðbeinandi: Hanna Bedbur
Með leiðbeinandi: Ingi Þór Einarsson
Prófdómari: Arnar Hafsteinsson

Útdráttur:

Lífaldur samfélagsins fer sífellt hækkandi og þarf því að huga vel að heilsu eldra fólks þar sem sá aldurshópur þarf hvað mest á heilbriðisþjónustu að halda. Stór hluti eldra fólks er líkamlega óvirkt og því nauðsynlegt að upplýsa fólk um mikilvægi hreyfingar og þau jákvæðu áhrif sem hreyfing hefur á öldrunarferlið. Góð heilsa á efri árum getur bætt lífsgæði sem og sjálfstæði. Markmið þessarrar rannsóknar er að meta hvort að tveggja ára fjölþætt þjálfunaríhlutun hafi áhrif á líkamlega heilsu eldra fóllks á Íslandi. Einnig verða mögulegar afleiðingar SARS-CoV-2 heimsfaraldursins á niðurstöður rannsóknarinnar kannaðar. Um er að ræða tveggja ára skipulagða æfingaríhlutun fyrir eldra fólk (65+). Í byrjun rannsóknarinnar voru 84 þátttakendur en þeim fækkaði niður í 56 í lok íhlutunarinnar sem gerir 33.3% brottfall. Konur voru í meirihluta í öllum mælingum. Á 6 mánaða fresti fóru þátttakendur í mælingar þar sem framkvæmdar voru mælingar á líkamssamsetningu og heilsufarsbreytum. Eftir tveggja ára æfingaríhlutun jókst dagleg hreyfing úr 17 mínútum í 32 mínútur. Þrátt fyrir aukna hreyfingu þá varð líkamssamsetning ekki fyrir miklum breytingum. Þátttakendur bættu sig meira í heilsufarstengdum prófum (30s armbeygju- og standa úr stól, liðleiki í aftanverðu læri og SPPB prófum), þó var ekki hægt að greina marktækan mun milli allra breyta. Niðurstöður sýna að skipulögð þjálfunaríhlutun getur viðhaldið líkamlegri virkni eldra fólks en ef ráðleggingum um hreyfingu er ekki fylgt má búast við að heilsufarsbreytur skerðist.

2. júní kl. 13:00-14:00

Arna Rún Jónsdóttir, Effects of the fiber supplement Liposan Ultra on cardiorespiratory endurance, fat utilization, lactate production and recovery, and possible relationships between these factors.

Aðal leiðbeinandi: Hanna Bedbur
Með leiðbeinandi: Jose M. Saavedra
Prófdómari: Sveinn Þorgeirsson

Útdráttur:

Markmið: Að meta áhrif trefjabætiefnisins LipoSan Ultra á (1) hjarta- og ndunarþol, (2) fitunýtingu, (3) mjólkursýruframleiðslu og endurheimt hjá íþróttafólki og (4) skoða hugsanlegt samband milli þessara þátta. Aðferð: Þátttakendur voru 60 heilbrigðir einstaklingar á aldrinum 18-50 ára (29 karlar og 31 kona) sem stunduðu reglulega hreyfingu. Þeim var raðað af handahófi í íhlutunarhóp (n=31) eða viðmiðunarhóp (n=29). Íhlutunarhópurinn neytti 2,25g af LipoSan Ultra daglega í 8-15 vikur og viðmiðunarhópurinn tók inn lyfleysuhylki yfir sama tímabil. Hámarkssúrefnisupptöku- og mjólkursýrumælingar voru framkvæmdar fyrir og eftir íhlutun. Notast var við dreifigreiningu með endurteknum mælingum til þess að greina mun milli hópa, en tengsl milli þátta voru prófuð með Pearson fylgni. Niðurstöður: Í ljós kom að hámarkssúrefnisupptaka íhlutunarhópsins lækkaði á milli mælinga og var munurinn á milli hópanna í þessum þætti marktækur. Jákvæð fylgni var á milli eftirfarandi þátta: mjólkursýru eftir próf og mjólkursýruendurheimt (r = .58), hámarkssúrefnisupptöku og öndunarskiptahlutfalls (r = .53), fitunýtingar og öndunarskiptahlutfalls (r = .47), fitunýtingar og hámarkssúrefnisupptöku (r = .35). Neikvæð fylgni var á milli fitunýtingar og mjólkursýruendurheimtar (r = -.36). Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar styðja ekki við fyrri rannsóknir, sem gáfu til kynna að kítósan og trefjabætiefni gætu aukið þrek meðal íþróttafólks. Á meðan rannsóknin fór fram geysaði COVID-19 heimsfaraldurinn, sem hefur hugsanlega haft áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar, ekki er þó hægt að fullyrða um það nema með frekari rannsóknum. Nokkrir þátttakendur í íhlutunarhópnum greindu frá bættri meltingu og voru engar alvarlegar aukaverkanir skráðar. LipoSan Ultra væri samkvæmt þessum niðurstöðum hægt að nota sem fæðubótarefni fyrir einstaklinga og íþróttafólk sem neyta ekki nægjanlega trefjaríkrar fæðu. Leitarorð: Hámarkssúrefnisupptaka, Kítósan.

3. júní kl. 13:00-14:00

Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir, The effect of a fiber supplement intervention with LipoSan Ultra on mental health and athletic performance of Icelandic athletes, compering different length intervention periods: A randomized control trial.

Aðal leiðbeinandi: Jose M. Saavedra
Með leiðbeinandi: Ingi Þór Einarsson
Prófdómari: Sveinn Þorgeirsson

Útdráttur:

Markmið: Kanna áhrif inntöku trefja fæðubótarefnisins LipoSan Ultra® á íþróttaframmistöðu og andlega heilsu hjá íslensku íþróttafólki með tilliti til mismunandi langra inngripstímabila. Einnig voru könnuð tengsl á milli íþróttaframmistöðu og geðheilsu út frá niðurstöðum prófana eftir inngrip. Aðferð: 64 þátttakendur (51,6% karlar, 33,52 ± 10,20 ára) voru teknir með í tölfræðigreiningu rannsóknarinnar; þeim var skipt af handahófi í íhlutunarhóp (n=32) og viðmiðunarhóp (n=32). Þátttakendur stunduðu reglulega langhlaup (n=44) hópíþróttir (n=10) og CrossFit (n=10). Þátttakendur svöruðu bakgrunns- og sálrænum spurningalistum og gerðu þrjú líkamleg frammistöðupróf: þrepaskipt hámarks átakshlaupapróf til að mæla súrefnisupptöku, móthreyfingarstökk til að mæla styrk og kraft í neðri hluta líkamans og 10 metra flugspretti til að mæla hraða. Almennt línulegt líkan með endurteknum mælingum var notað til að meta helstu áhrif forprófunar og eftirprófunarbreytna milli samanburðar- og íhlutunarhóps með trefjainntökutíma sem fylgibreytu. Niðurstöður: Enginn munur fannst á milli íhlutunarhóps og samanburðarhóps í tveimur af

þremur líkamlegu frammistöðuprófunum sem gerð voru eða úr sálrænu spurningalistunum sem var svarað. Hins vegar fannst munur varðandi útkomubreytuna í hámarksátaksprófinnu þar sem sást 2,1% lækkun á VO2max hjá íhlutunarhópnum á milli prófa. Engin tengsl fundust á milli sálrænu og líkamlegu breytanna úr prófunum eftir inngrip. Ályktun: Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að inntaka fæðubótarefnisins LipoSan Ultra® hafi engan hagnað fyrir íslenska íþróttamenn sem vilja bæta íþróttaárangur eða geðheilsu. Hins vegar getur sú lækkun á VO2max sem sást og þær ómarktæku niðurstöður sem fundust líklega stafað af fjölda COVID-19 sýkinga meðal þátttakenda í íhlutunarhópnum á meðan íhlutunartímabili stóð.

3. júní kl. 14:00-15:00

Ingunn Kristjana Þorkelsdóttir, Motivation for physical activity as a function of normal weight, type and frequency of engagement. 

Aðal leiðbeinandi: Hafrún Kristjánsdóttir
Með leiðbeinandi: Jose M. Saavedra
Prófdómari: Ingi Þór Einarsson

Útdráttur:

Markmið rannsóknarinnar var að greina hvata fólks til að stunda hreyfingu sér til hressingar, í íþróttum og frístundum, byggða á tegund og tíðni hennar ásamt upplifun þeirra af eigin líkamsþyngd. 454 tóku þátt í rannsókninni, þar af 347 konur og 107 karlar. PALMS spurningalistinn var notaður til þess að mæla ólíka hvata til að stunda hreyfingu. Listinn innihélt einnig spurningar sem vörðuðu hátterni fólks í tengslum við hreyfingu með tilliti til þriggja breyta; mati á eigin líkamsþyngd út frá líkamsþyngdarstuðli, hvort hreyfingin flokkast sem æfing og tíðni hennar. Einhliða dreifigreining var notuð til að prófa hvernig líkamsþyngd og tíðni ástundunar hefðu áhrif á hvata einstaklinga til að hreyfa sig og t-próf í óháðum hópum var notað til að prófa áhrif tegundar hreyfingarinnar. Helstu niðurstöður voru að þeir sem telja sig innan kjörþyngdar og stunda æfingar upplifa meiri innri og ytri hvata tengdum hreyfingu en þeir sem telja sig utan kjörþyngdar og stunda hreyfingu eingöngu. Álit annarra skipti þá sem telja sig utan kjörþyngdar og stunda hreyfingu eingöngu meira máli en þá sem telja sig innan kjörþyngdar og stunda æfingar. Jákvæð fylgni fannst á milli tíðni hreyfingar og styrks innri og ytri hvata tengdum henni. Niðurstöður sýna fram á að hvatar tengdir líkamlegu heilbrigði séu ólíklegir til ávinnings þegar markmiðið er að auka tíðni hreyfingar meðal einstaklinga sem eru utan kjörþyngdar, en skipulag og festa gætu verið nauðsynlegir þættir fyrir árangur til lengri tíma.

3. júní kl. 15:00-16:00

Wiktoria Marika Borowska, Eating Disorders and Body Image Dissatisfaction: Prevalence and Differences between Exercisers and Non-exercisers. 

Aðal leiðbeinandi: Hafrún Kristjánsdóttir
Með leiðbeinandi: Jose M. Saavedra
Prófdómari: Linda Bára Lýðsdóttir

Útdráttur:

Tíðni átraskana og áhyggja af líkamsmynd er óþekkt meðal líkamsræktariðkenda. Hins vegar benda fyrri rannsóknir til þess að þeir sem stunda líkamsrækt sýna fleiri átröskunareinkenni en þeir sem stunda ekki líkamsrækt. Samband á milli líkamsræktar og líkamsmyndar virðist vera óskýrt þar sem niðurstöður fyrri rannsókna sýna bæði fram á neikvæð og jákvæð tengsl á milli þessara breyta. Tilgangur rannsóknar var tvískiptur; (i) að áætla tíðni átröskunareinkenna, orthorexíu og áhyggja af líkamsmynd hjá líkamsræktariðkendum og bera hana síðan saman við tíðni átröskunareinkenna og áhyggja af líkamsmynd hjá einstaklingum sem stunda ekki líkamsrækt og (ii) að kanna mun á einkennum átraskana og áhyggja af líkamsmynd eftir æfingatíðni. Lýsandi þversniðsrannsókn var framkvæmd þar sem snjóboltaúrtakið var notað. 312 sjálfboðaliðar eldri en 18 ára tóku þátt í rannsókninni: 49 karlar og 263 konur. Þátttakendur voru beðnir um að svara nokkrum bakgrunnsspurningum og fjórum stöðluðum spurningalistum. Niðurstöðurnar sýndu að 25% líkamsræktariðkenda hafði áhyggjur af líkamsmynd.  Auk þess sýndu niðurstöður kí-kvaðratprófs að enginn munur sé á alvarleika áhyggja af líkamsmynd eftir því hvort þátttakendur stunduðu líkamsrækt eða ekki. Ennfremur náðu um það bil 62% líkamsræktariðkenda viðmiðunarmörkum fyrir orthorexíu og 18% náðu viðmiðunarmörkum fyrir átröskun. Það fannst marktækur munur á meðaltölum líkamsræktariðkenda og þá sem stunda ekki líkamsrækt á spurningalistum sem könnuðu einkenni lotugræðginnar og orthorexíu, þar skoruðu þeir sem stunda ekki líkamsrækt hærra en þeir sem stunda líkamsrækt. Niðurstöður óháðs Kruskal Willis H prófs sýndu að einstaklingar sem stunda líkamsrækt 1-2 sinnum í viku sýna fleiri einkenni orthorexíu en þeir sem stunda líkamsrækt 5+ sinnum í viku. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru ekki í samræmi við fyrri rannsóknir. Í framtíðarrannsóknum ætti að leggja áherslu á leiðir til að draga úr tíðni áhyggja af líkamsmynd og átraskana bæði hjá líkamsræktariðkendum og þeim sem ekki stunda líkamsrækt.

 

 Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@ru.is
//
Please note that at events hosted at Reykjavik University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on our ru.is or send an e-mail: personuvernd@ru.is