Kennslustefna

Stefna Háskólans í Reykjavík (HR) er að bjóða nemendum framúrskarandi menntun sem skilar víðtækri þekkingu á fagsviði, djúpum skilningi á einstökum þáttum, hugtökum og kenningum, leikni í að beita aðferðum fagsviðs og hæfni til að nýta þekkingu í námi og starfi. Nám við HR skal fela í sér fjölbreyttar kennslu- og námsmatsaðferðir, raunhæf verkefni, virka þátttöku nemenda, tengsl námsins við atvinnulíf og samfélag og þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, sköpunarhæfni og sjálfstæðum og heiðarlegum vinnubrögðum.

Almennt

Alþjóðlegar og íslenskar kröfur til náms og kennslu séu uppfylltar á þeim fagsviðum sem HR hefur viðurkenningu á.

 • Áhersla sé lögð á kennslu í litlum hópum, virka þátttöku nemenda, raunhæf verkefni og verklega kennslu.
 • Námsframboð skólans og uppbygging námsbrauta séu endurskoðuð reglulega, með það að leiðarljósi að viðhalda og efla styrk námsins, sinna sem best þörfum atvinnulífs og samfélags og tryggja nemendum góða undirstöðu fyrir þátttöku í atvinnulífi eða frekara nám.

Gæði náms og kennslu

 • HR bjóði krefjandi nám þar sem nemendur öðlist traustan fræðilegan bakgrunn, fái markvissa þjálfun og öðlist leikni og hæfni í beitingu þekkingar.
 • Kennsla við HR byggi á framúrskarandi þekkingu kennara og vel skipulögðum undirbúningi kennslu, sem felur í sér hæfni og leikni kennara til að miðla þekkingu.
 • Kennarar við HR sýni frumkvæði í uppbyggingu, endurbótum og þróun á kennsluaðferðum, nýsköpun í kennslu og hvetji nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða.
 • Nemendur taki ábyrgð á eigin námi með virkri þátttöku.
 • Lærdómsviðmið námsbrauta og einstakra námskeiða séu endurskoðuð reglulega í því skyni að tryggja að samræmi sé á milli lærdómsviðmiða, kennsluaðferða og námsmats, þannig að reynt sé á þekkingu, hæfni og leikni nemenda.
 • Kennarar þekki og fylgi gæðahandbók kennara.
 • Beitt sé fjölbreyttum kennsluháttum og námsmati.
 • Inntökuskilyrði til náms við HR séu í samræmi við áherslur skólans um inntak og gæði menntunar.
 • Fjöldi nemenda á móti hverjum akademískum starfsmanni sé í samræmi við það sem tíðkast í leiðandi háskólum.
 • Kennarar og nemendur þekki og virði siðareglur skólans.

Tengsl rannsókna og kennslu

 • Nemendur hljóti þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum.
 • Nemendur fái tækifæri til þátttöku í vísindarannsóknum.
 • Kennarar tengi rannsóknir fræðasviðs við kennslu.

Þverfaglegt nám og kennsla

 • Í boði séu þverfaglegar námsbrautir og þverfaglegar áherslur í námi til þess að gera nemendur hæfari til að takast á við fjölbreytt verkefni í samfélagi og atvinnulífi.
 • Kennarar fái stuðning og hvatningu til að þróa þverfagleg námskeið í samstarfi við aðra kennara, innan sem utan deildar.

Tengsl kennslu við atvinnulíf og samfélag 

 • Í boði sé verkleg kennsla, starfsnám og lausnamiðað nám og áhersla lögð á tengingu raunhæfra verkefna úr atvinnulífi og samfélagi við námið.
 • Kennsla sé styrkt með aðkomu kennara úr atvinnulífinu.

Alþjóðlegt umhverfi náms og kennslu

 • HR noti alþjóðleg viðmið í kennslu, starfi markvisst með leiðandi erlendum háskólum og leggi áherslu á að þjálfa nemendur í alþjóðlegum samskiptum.
 • Nemendur og kennarar HR hafi tækifæri til að læra og starfa í alþjóðlegu umhverfi.

Aðbúnaður náms og kennslu

 • Húsnæði HR, þjónusta, kennslukerfi skólans og annað námsumhverfi veiti góða umgjörð og styðji vel við nám og kennslu.
 • HR stuðli að því að kennarar fái og noti tækifæri til símenntunar og þjálfunar á sínu fagsviði.
 • Kennarar sæki sér ráðgjöf um kennslutækni, kennslufræði og matsaðferðir.

Eftirfylgni með gæðum náms og kennslu

 • Gæði kennslu séu metin reglubundið með fjölbreyttum mælikvörðum á kennslu, kennsluaðferðum og

námsmati og niðurstöður nýttar til að viðhalda og auka gæði kennslu.

 • Tillit sé tekið til árangurs í kennslu, endurmenntunar kennara og nýsköpunar í kennslu við mat á framgangi kennara.
 • Nám við HR sé reglulega endurskoðað innan viðkomandi deildar og metið af alþjóðlegum matsnefndum.

Framkvæmd kennslustefnunnar:

Námsráð HR, kennslusvið skólans og námsráð deilda skulu stuðla að framgangi kennslustefnu HR.
Árlega tekur kennslusvið í samráði við námsráð HR saman skýrslu um nám og kennslu við HR þar sem kynntar eru helstu kennitölur náms og kennslu við skólann.

Samþykkt í námsráði HR 23. janúar 2012 og í framkvæmdastjórn HR 31. janúar 2012.


Var efnið hjálplegt? Nei