HR hlaðvarpið
HR hlaðvarpið er mikilvægur hluti af vísindamiðlun Háskólans í Reykjavík til samfélagsins; allt frá nemendum og starfsfólki til kollega og almennings. Í hlaðvarpinu fjallar vísindafólk, kennarar og aðrir sérfræðingar háskólans um verkefni sín, sérsvið og rannsóknir, ásamt því sem við tökum mannauðinn í skólanum og nemendur tali og skyggnumst að tjaldabaki.
Megnið af hlaðvarpsþáttunum er skipulagt í syrpur og þar eru til dæmis Vísindavagninn, Sprotasólin, Íþróttarabbið, Verkfræðivarpið, Viðskiptavarpið, MBA-varpið og Fólkið okkar komnar í loftið. HR hlaðvarpinu er ætlað að næra starfsemi háskólans og miðla í leiðinni fjölbreyttri þekkingu út fyrir veggi hans. Samhliða er skyggnst inn í veröld nemenda og fróðleik miðlað um margvíslega starfsemi í skólanum.
Það er samskiptateymi HR sem er umsjónaraðili hlaðvarpsins (samskipti@ru.is). Framleiðendur HR hlaðvarpsins eru þeir Skúli Andrésson og Vilhjálmur Siggeirsson. Þættirnir eru aðgengilegir í öllum helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify, Apple Podcasts, Pocket Casts og Podcast Addict. Þeim er jafnframt miðlað til almennings gegnum vefi og samfélagsmiðla HR.
ÞÁTTUR | HVAÐ VAR RÆTT UM |
---|---|
Íþróttarabb HR // 2. þáttur: Peter O´Donoghue Apr 12, 2023 |
Gesturinn í þessum þætti af Íþróttarabbi HR er Peter O´Donoghue prófessor við Íþróttafræðideild HR. Peter er þekktur á alþjóðavettvangi fyrir vinnu sína, rannsóknir og kennslu á sviði frammistöðugreininga í íþróttum (sport performance analysis). Margir fyrrum nemenda hans hafa náð langt í íþróttaheiminum og meðal annars starfað fyrir Liverpool FC. Í þættinum er farið yfir feril Peters, sem í grunninn er tölvunarfræðingur, hvernig leið hans lá inn í íþróttaheiminn og rætt um áhugaverðir aðferðir hans við kennslu og rannsóknir. Það er John David Baird, kennsluráðgjafi hjá HR, sem spjallar við Peter.
|
FÓLKIÐ Í HR // 1. ÞÁTTUR: BJÖRN ÞÓR JÓNSSON, DOKTOR OG DÓSENT Í TÖLVUNARFRÆÐIApr 4, 2023 |
Í þessum fyrsta þætti er talað við Björn Þór Jónsson, doktor og dósent í tölvunarfræði við HR. Það er María Ólafsdóttir, blaðakona hjá samskiptateymi HR, sem ræðir við Björn Þór og þar koma meðal annars við sögu gagnasafnsfræði og gervigreind, listin að vera í doktorsnámi og hvernig leið Björns Þórs lá í svissneskan skíðaskála með Ólympíugullverðlaunahafa í snjóbrettasvigi. Fólkið í HR er hlaðvarpssyrpa þar sem við spjöllum við starfsfólk Háskólans í Reykjavík, skyggnumst bak við tjöldin, kynnumst faginu þeirra, hinni hliðinni á viðkomandi og fáum að heyra skemmtilegar sögur tengdar lífi og starfi. |
Viðskiptavarpið //
|
Viðskiptavarpið er hlaðvarp viðskiptadeildar við Háskólann í Reykjavík. Í þessum þætti er rætt við Daníel Thors, þúsundþjalasmið og frumkvöðul sem lauk meistaranámi í stjórnun nýsköpunar frá Viðskiptadeild HR. Hann starfar í dag fyrir hugbúnaðarfyrirtækið CDA og á einnig og rekur Sjóvinnu, ráðgjafafyrirtæki í sjávarútvegi. Daníel útskrifaðist árið 2021 með meistargráðu í stjórnun nýsköpunar (MINN). Hann lætur vel að náminu og segist þar hafa fundið sína hillu. Meistaranám við viðskiptadeild HR er byggt á alþjóðlegum kröfum og þróað í samráði við framsækin íslensk fyrirtæki. Meistaranám í stjórnun nýsköpunar býr nemendur undir að stýra nýsköpunarferlum og frumkvöðlastarfsemi í margvíslegum skipulagsheildum, hvort sem það er í nýjum fyrirtækjum, frumkvöðlafyrirtækjum, stofnunum eða samtökum. Í Viðskiptavarpinu er jöfnum höndum annars vegar spjallað við núverandi og fyrrverandi nemendur og hins vegar við kennara, gestafyrirlesara, fræðifólk og aðra góða gesti. |
Verkfræðivarpið // 6. þáttur: Svana Helen BjörnsdóttirMAR 16, 2023 |
Í sjötta þætti Verkfræðivarpsins ræddu þeir Haukur Ingi og Helgi Þór við Svönu Helen Björnsdóttur formann verkfræðingafélags Íslands og doktorsnema við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Í samtalinu er komið víða við og m.a. rætt um konur og verkfræði, möguleika verkfræðilegarar aðferðar, skuggahliðar verkfræðinnar og um hugsjónir Svönu hvað verkfræðina varðar. Verkfræðivarpið er hugarfóstur Hauks Inga, Helga Þórs Ingasonar og Þórðar Víkings Friðgeirssonar sem eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari hlaðvarpsþáttaröð leitast þeir við að færa hið stórkostlega þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli. |
Íþróttarabb HR // 1. þáttur: Clive BrewerMAR 14, 2023 |
Í fyrsta þætti af Íþróttarabbi HR á Spotify er rætt við Clive Brewer sem er einn þeirra erlendu sérfræðinga sem kemur reglulega hingað til lands að kenna nemendum meistaranáms íþróttafræðinnar í HR. Sérsvið Clive er styrk- og þrekþjálfun og afreksþjálfun. Hann hefur víðtæka reynslu af líkamlegri þjálfun íþróttafólks allt frá börnum til Ólympíufara. Clive hefur skrifað hagnýtar kennslubækur fyrir þjálfara í styrk- og þrekþjálfun með æfingum og góðum ráðum. Undanfarin ár hefur hann mest starfað í Bandaríkjunum í tengslum við hafnabolta og fótbolta, en nú síðast sem stjórnandi afreksíþróttamiðstöðvar Ortho Arizona. Áður hafði hann unnið á Bretlandseyjum með stórum knattspyrnuliðum í úrvalsdeildinni, rúgbýliðum, sérsamböndum og fagfélögum. Íþróttarabb HR er ný þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Það er íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík sem heldur syrpunni úti. Í þáttunum er spjallað um hreyfingu, íþróttir, keppni, kennslu og þjálfun við gesti og gangandi í faginu. Viðmælendur koma víða að; sérfræðingar og fræðifólk, kennarar og gestafyrirlesarar, núverandi og fyrrverandi nemendur. Íþróttaiðkendur, afreksfólk og þjálfarar munu sömuleiðis koma við sögu. Það er Sveinn Þorgeirsson, kennari við íþróttafræðideild HR, sem ræðir við Clive. Sérsvið Sveins er íþróttaþjálfun og nánar tiltekið þjálffræði, afreksþjálfun og handknattleikur. Nám í íþróttafræði við HR er fjölbreytt og krefjandi og undirbýr nemendur fyrir störf á fjölmörgum sviðum íþrótta, líkams- og heilsuræktar er lúta að kennslu, þjálfun og stjórnun. Í grunnnámi í íþróttafræði kynnast nemendur undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu og ljúka einingum í verknámi. Þeir kynnast því jafnframt hvernig nota má niðurstöður rannsókna og nýjustu tækni til að efla þjálfun, afreksíþróttir og heilsu almennings. Í meistaranáminu er lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við samfélag og atvinnulíf. |
MBA-varpið // 1. þáttur: Sigríður Soffía NíelsdóttirMAR 7, 2023 |
Sigridur Soffia Nielsdóttir er fyrsti viðmælandi MBA-varpsins, sem er sjálfstæð syrpa innan HR hlaðvarpsfjölskyldunnar. Sigga Soffía, eins og hún er alltaf kölluð, er menntuð sem dansari frá Listaháskóla Íslands og lauk Executive MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2021. Hún hefur komið víða við og unnið að fjölbreyttum verkefnum, til dæmis stýrt flugeldasýningum sem eru byggðar á danshreyfingum sem þróast út í blómarækt sem verða svo að drykk, en Sigga Soffía rekur fyrirtækið Eldblóm (www.eldblom.com). Við ræddum þetta allt í þættinum, en einnig Íslensku bjartsýnisverðlaunin sem Sigga Soffía hlaut í janúar síðastliðnum og auðvitað líka Executive MBA-námið í HR sem hún lætur mjög vel af. Í MBA-varpinu er jöfnum höndum spjallað við núverandi og fyrrverandi nemendur, ásamt því sem kennarar, gestafyrirlesarar, fræðifólk og aðrir góðir gestir eru tekin tali. Executive MBA-námið í HR er framsækið og nemendur hljóta þar alhliða þjálfun í rekstri og stjórnun auk þess sem persónulegir styrkleikar og leiðtogahæfni eru efld. Mikið er lagt upp úr nýsköpun og að skapa fólki dýrmætt tengslanet í atvinnulífinu. |
Sprotasólin // 2. þáttur: Halldór Snær Kristjánsson, Myrkur GamesMAR 2, 2023 |
Sprotasólin er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Gestur Sprotasólarinnar að þessu sinni er Halldór Snær Kristjánsson sem er forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Myrkur Games. Halldór var bara 11 ára þegar að hann ákvað að hann vildi starfa við það að búa til tölvuleiki. Í dag stýrir hann fjörtíu manna tölvuleikjafyrirtæki. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar að stofnendur þess voru í námi við Háskólann í Reykjavík. Í þættinum kemur meðal annars fram að tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi eru hátt í tuttugu talsins. Rætt er um sprotafyrirtæki, tölvuleiki, stöðu Íslands í tölvuleikjabransanum og vöntun á fólki með menntun sem nýtist í þessum bransa. Í Sprotasólinni er rætt við fulltrúa sprotafyrirtækja sem eiga rætur í HR, en alls hafa liðlega sextíu nýsköpunarfyrirtæki sprottið upp úr lokaverkefnum nemenda og/eða rannsóknum starfsfólks frá stofnun HR árið 1998. Það er einmitt í takti við þá stefnu skólans að vera öflugur nýsköpunarháskóli. Þáttastjórnendur Sprotasólarinnar eru Lilja Björk Hauksdóttir og María Ólafsdóttir. |
Verkfræðivarpið // 5. þáttur: Erna Sif ArnardóttirFEB 22, 2023 |
Í fimmta þætti Verkfræðivarpsins ræðir Haukur Ingi Jónasson við Ernu Sif Arnardóttur, dósent við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík, um svefnrannsóknir sem hún stundar með samstarfsfólki sínu. Í samtalinu er meðal annars rætt um rannsóknarsetur í svefnrannsóknum, stóran Evróupustyrk, eðli svefns, svefntruflanir, drauma, og um hlutverk og möguleika verkfræðinnar á þessu sviði. Verkfræðivarpið er hugarfóstur Hauks Inga, Helga Þórs Ingasonar og Þórðar Víkings Friðgeirssonar sem eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari hlaðvarpsþáttaröð leitast þeir við að færa hið stórkostlega þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli. |
Vísindavagninn // 3. þáttur: Ingunn S. Unnsteinsdóttir KristensenJAN 11, 2023 |
Ingunn S. Unnsteinsdóttir Kristensen stökk á Vísindavagninn að þessu sinni. Hún lauk nýverið doktorsprófi við sálfræðideild HR. Hún, ásamt fleiri vísindakonum, gerði viðamikla rannsókn á afleiðingum heilahristings í doktorsverkefninu sínu. Við ræddum aðallega heilahristing en komum einnig inn á öskudag í Grímsey og Vogunum og að sjálfsögðu Opna háskólann þar sem Ingunn hefur forstöðu. Í Vísindavagni HR hlaðvarpsins kynnumst við vísindafólki HR, forvitnumst um það hvaðan það kemur og hvert það er fara. Umsjón með Vísindavagninum hefur Katrín Bessadóttir. |
Sprotasólin // 1. þáttur: Mathieu G. Skúlason, EvolytesDEC 20, 2022 |
Fyrsti gestur Sprotasólarinnar er Mathieu G. Skúlason, framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Evolytes. Evolytes var stofnað árið 2017 en fyrirtækið varð til við þverfaglegar rannsóknir í sálfræði og tölvunarfræði í hugbúnaðarkerfinu Aperio við Háskólann í Reykjavík. Hlutverk fyrirtækisins er að umbylta stærðfræðinámi með skemmtanavæddu, gagnadrifnu og einstaklingsmiðuðu námskerfi sem byggir á leiðandi kenningum og rannsóknum í sálfræði, menntavísindum og tölvunarfræði til að hámarka árangur nemenda í stærðfræði. Sprotasólin er nýjasta þáttasyrpan innan HR hlaðvarpsins. Í þáttunum verður rætt við fulltrúa sprotafyrirtækja sem eiga rætur í HR, en alls voru yfir sextíu nýsköpunarfyrirtæki sett undir sprotasólina vorið 2022. Flest þeirra spretta upp úr lokaverkefnum nemenda og/eða rannsóknum starfsfólks. Það er einmitt í takti við þá stefnu skólans að vera leiðandi í rannsóknum, samhliða því að vera öflugur nýsköpunarháskóli. Þáttastjórnendur Sprotasólarinnar eru Lilja Björk Hauksdóttir og María Ólafsdóttir. |
Vísindavagninn // 2. þáttur: Þóra HallgrímsdóttirDEC 13, 2022 |
Þóra Hallgrímsdóttir, kennari við lagadeild HR, stökk á Vísindavagninn að þessu sinni. Hún ólst upp á Húsavík við Skjálfanda en flutti suður yfir heiðar um miðbik níunnar og hóf laganám. Þóra veit um það bil allt um úrlausn lögfræðilegra álitaefna, bótarétt og miskabætur, svo fátt eitt sé nefnt. Hún er líka fastheldin á jólahefðir, svo mjög að hún gerðist sek um lögbrot eitt árið til að geta haldið í hefðirnar og játar það hér skýlaust - en biðst forláts í leiðinni. Gott spjall við Þóru Hallgríms! Í Vísindavagni HR hlaðvarpsins kynnumst við vísindafólki HR, forvitnumst um það hvaðan það kemur og hvert það er fara. Umsjón með Vísindavagninum hefur Katrín Rut Bessadóttir. |
Stúdentavarpið // 2. þáttur: Spjall við Grétu Matthíasdóttur, forstöðukonu náms- og starfsráðgjafar í HRNOV 28, 2022 |
Í þessum þætti Stúdentavarps SFHR spjalla þær Anna Júlía Magnúsdóttir og María Nína Gunnarsdóttir við Grétu Matthíasdóttur, forstöðumann náms- og starfsráðgjafar í HR. Þær fræðast um ýmislegt, þar á meðal prófkvíða og hvernig best sé að kljást við hann, námstækni og lífið og tilveruna. Stúdentavarpið er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsfjölskyldunnar. Stúdentavarpið er vettvangur Stúdentafélags HR (SFHR) þar sem gestir og sérfræðingar ræða málefni sem tengjast háskólanemum. |
Vísindavagninn // 1. þáttur: Anna Sigríður IslindNOV 21, 2022 Hlusta á Spotify |
Anna Sigríður Íslind er fyrsti farþeginn í Vísindavagni HR hlaðvarpsins. Anna Sigríður er dósent við tölvunarfræðideild HR. Hún sogaðist inn í heim vísindanna nánast alveg óvart og var komin alla leið til Kína að splitta vetni fyrir tvítugt. Allt um það og meira til í þessu góða spjalli.
Í Vísindavagni HR hlaðvarpsins kynnumst við vísindafólki HR, forvitnumst um það hvaðan það kemur og hvert það er fara. Umsjón með Vísindavagninum hefur Katrín Bessadóttir. |
Verkfræðivarpið // 3. þáttur: Rafbílavæðing ÍslandsNOV 21, 2022 |
Rafbílavæðing Íslendinga er lyginni líkust en samkvæmt tölum um heildarinnflutning bíla árið 2021 er næstum annar hver nýr bíll það sem kallast nýorkubíll. Ísland, ásamt Noregi, er á þessu sviði í algjörum sérflokki á heimsvísu. Í Verkfræðivarpinu að þessu sinni verður upphaf þessarar byltingar á Íslandi skoðað með því að rifja upp skemmtilegtog áhugavert frumkvöðlaverkefni frá 2009 þar sem Helgi Þór kemur við sögu ásamt Einar Sigurðarsyni bifvélavirkjameistara. Saga rafbílsins verður sögð og framtíð hans metin. Verkfræðivarpið er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Verkfræðivarpið er hugarfóstur Hauks Inga Jónassonar, Helga Þórs Ingasonar og Þórðar Víkings Friðgeirssonar, en þeir eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari hlaðvarpsþáttaröð leitast þeir við að færa þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli. |
Verkfræðivarpið // 4. þáttur: Árni Sigurður Ingason hjá Grein ResearchNOV 7, 2022 Hlusta á Spotify |
Gestur 4. þáttar Verkfræðivarpsins er Dr. Árni Sigurður Ingason vélaverkfræðingur. Hann er framkvæmdastjóri Grein Research, sprotafyrirtækis á sviði efnistækni, sem sprottið er upp úr rannsóknum Árna Sigurðar og samstarfsfólks. Grein Research hannar og smíðar frumgerðir efna samkvæmt óskum kröfuharðra viðskiptavina, sem yfirleitt eru erlend stórfyrirtæki eða rannsóknahópar. Efnin eru búin til með því að byggja upp lög af atómum sem saman mynda þunnar húðir á yfirborði og útkoman eru efni með sértæka eiginleika, til dæmis varðandi tæringarþol, rafleiðni, varmaleiðni og fleira. Verkfræðivarpið er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Umsjónarmenn syrpunnar eru þeir Haukur Ingi Jónasson, Helgi Þór Ingason og Þórður Víkingur Friðgeirsson, sem eru kennarar og fræðimenn við verkfræðideild HR. |
Stúdentavarpið // 1. þáttur: Að hefja háskólanám, loddaralíðan og ýmis heilræðiOCT 26, 2022 Hlusta á Spotify |
Stúdentavarpið á vegum SFHR er vettvangur þar sem gestir og sérfræðingar ræða málefni sem tengjast háskólanemum. Í fyrsta þætti Stúdentavarpsins ræddu þau Emil Trausti Smyrilsson og Svanfríður Júlía Steingrímsdóttir ýmislegt sem tengist því að vera háskólanemi. Meðal annars ræddu þau þá upplifun að hefja háskólanám og þá líðan að finnast þau ekki vera með allt á hreinu. Sérstaklega var komið inn á loddaralíðan eða imposter syndrome sem er hugtak sem flestir háskólanemar kannast við. Auk þess ræddu þau ýmis góð ráð sem hafa komið þeim í gegnum skólagönguna. |
Verkfræðivarpið // 2. þáttur: IMaR-ráðstefnan og verkefnastjórnun sem fagOCT 12, 2022 |
Í öðrum þætti Verkfræðivarpsins víkja þeir Haukur Ingi, Helgi Þór og Þóður Víkingur stuttlega að hinni vel heppnuðu IMaR-ráðstefnu, sem fór fram í samstarfi HR og Verkfræðingafélagsins hinn 20. október 2022. Einkum er þó rætt um hvað gerir verkefnastjórnun að fagi og mikilvægi þess út frá greinaflokki þeirra félaga um fagið er birtist í tímariti Verkfræðingafélags fyrir fáeinum árum. Saga fagsins á Íslandi er samofin gríðarlegri uppbyggingu innviða á Íslandi alla 20. öldina. Í dag er samfélagið að stórum hluta verkefnadrifið og um 40% umsvifa í efnahagslífinu tengjast verkefnum þar sem sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir skilgreina sig sem verkefnafyrirtæki. Verkfræðivarpið er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Verkfræðivarpið er hugarfóstur Hauks Inga Jónassonar, Helga Þórs Ingasonar og Þórðar Víkings Friðgeirssonar, en þeir eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari hlaðvarpsþáttaröð leitast þeir við að færa þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli. |
Verkfræðivarpið // 1. þáttur: Staða verkfræðinnar í samfélaginu12. okt 2022 |
Verkfræðivarpið er sjálfstæð þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Verkfræðivarpið er hugarfóstur Hauks Inga Jónassonar, Helga Þórs Ingasonar og Þórðar Víkings Friðgeirssonar, en þeir eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari hlaðvarpsþáttaröð leitast þeir við að færa þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli. Í fyrsta þætti fara þeir m.a. yfir stöðu verkfræðinnar í samfélaginu, fjalla um 110 ára afmæli Verkfræðingafélags Íslands, sem fagnað er um þessar mundir, og ekki síst ráðstefnuna Innovation, Megaprojects and Risk (IMaR). IMaR er haldin í tengslum við Dag verkfræðinnar dagana 20-21 október næstkomandi á Hotel Hilton Nordica. |