Nemendahandbók HR

Hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafar sinna ráðgjöf er varðar námstækni, stuðning í námi, almennar upplýsingar um nám í HR, áhugasvið og persónuleg mál. Náms- og starfsráðgjafar eru á 1. hæð í Sólinni, við hliðina á þjónustuborði. 

Viðtalstímar

Opnir viðtalstímar eru í boði alla daga nema föstudaga kl. 13:30 – 15:30 og er ekki þörf á að bóka í þessa tíma. Í viðtalstímum gefst nemendum kostur á að bera upp erindi sín, fá upplýsingar og ræða í trúnaði við náms- og starfsráðgjafa. Einnig er hægt að bóka viðtal á öðrum tímum, senda fyrirspurnir í tölvupósti: namsradgjof@hr.is eða hringja í náms- og starfsráðgjafa í gegnum aðalnúmer HR 599 6200.

Örfyrirlestrar

Náms- og starfsráðgjöf býður nemendum upp á örfyrirlestra sem varða ýmis atriði sem gott er að hafa í huga til að ná sem allra bestum árangri í námi. Fyrirlestrarnir eru í hádeginu og er dagskrá þeirra birt á upplýsingaskjám í HR með góðum fyrirvara.

Bókasafnið

Bókasafnið býður upp á námskeið, kynningar og persónulega aðstoð. Nemendur geta litið við í upplýsingaborði safnsins á auglýstum opnunartíma þess eða bókað tíma með upplýsingafræðingi.

Bókasafnið býður aðgang að fjölbreyttu efni á fræðasviðum HR og er áhersla lögð á rafræn gögn. Auk heimilda er þar að finna ýmsar gagnlegar leiðbeiningar t.d. varðandi heimildavinnu og verkefnaskil.

Skráningar vegna prófa og námskeiða

Nemendabókhald heldur utan um allar upplýsingar nemenda sem tengjast náminu, s.s. námsferil, skráningar í og úr námskeiðum og skráningu einkunna. Hjá nemendabókhaldi geta nemendur fengið upplýsingar um námsframvindu, staðfestingu á skólavist, tilkynnt veikindi í prófi auk annarrar almennrar þjónustu.

Til að skrá sig úr námskeiði eða breyta vali geta nemendur sent beiðni á nemendabokhald@hr.is. Mikilvægt er að tilgreina nafn, kennitölu og heiti námskeiða til að unnt sé að afgreiða beiðni um breytingu á skráningu. Í skólaalmanaki koma fram dagsetningar þar sem nemendur geta breytt skráningu.

Reglur um námið

Nemendur Háskólans í Reykjavík bera ábyrgð á því sjálfir að kynna sér reglur háskólans og hvar þær er að finna.

Kennslukerfið og innranetið

Canvas-kennslukerfið

 • Canvas er kennslukerfi HR og aðal „tækið“ sem nemendur og kennarar nota við nám og kennslu. Slóðin á kerfið er canvas.ru.is.
 • Nemendur fá sent notendanafn og lykilorð áður en kennsla hefst.
 • Nemendur eru hvattir til að sækja Canvas-appið sem er til fyrir snjallsíma með Android og Apple stýrikerfum.
 • Í Canvas sjá nemendur þau námskeið sem þeir eru skráðir í hverju sinni. Þangað setja kennarar kennsluáætlanir, glærur, verkefni, einkunnir, tilkynningar og allt það efni sem tilheyrir námskeiðum. Það er því mjög mikilvægt að nemendur fylgist með því sem þar fer fram.
 • Hér eru leiðbeiningarmyndbönd fyrir notkun kerfisins:

 • Nýnemar í grunnnámi eru skráðir sjálfkrafa í námskeið fyrstu önnina. Nemar þurfa eftir það að skrá sig sjálfir í námskeið næstu annar og er það gert í Myschool kerfinu. Nýnemar í meistaranámi eru að öllu jöfnu skráðir sjálfkrafa í námskeið á fyrstu önn, þó er góð regla að athuga sína skráningu hjá viðkomandi deild.

MySchool innranetið

 • Myschool er innranet skólans og nemendabókhaldskerfi.
 • Nemendur nota sama notendanafn og lykilorð og í Canvas.
 • Í Myschool skrá nemendur sig í námskeið næstu annar.
 • Í Myschool undir flipanum „Gögnin mín“ er hægt að haka við „LÍN umsækjandi“ sem veitir HR umboð til að senda LÍN upplýsingar um námsframvindu ef nemendi er á námslánum.
 • Í Myschool birtast lokaeinkunnir nemenda í lok hverrar annar og nemendur geta séð yfirlit yfir þau námskeið þeim þeir hafa lokið.

Tæknimál

Upplýsingatæknisvið (UTS) sér um rekstur og viðhald á öllum tölvum og tölvutengdum búnaði skólans, ásamt því að veita nemendum og kennurum ráðgjöf og aðstoða þá við tölvutengd vandamál.

Hér að neðan er að finna grunnupplýsingar um aðgengi að kerfum skólans. Nánari leiðbeiningar er að finna á https://help.ru.is.

Þráðlaust net (wi-fi)

Upplýsingar um tengingar við þráðlaust net HR er að finna á vef UTS, https://help.ru.is.

Tölvupóstur

Hver nemandi fær 50 GB pósthólf sem aðgengilegt er á vefslóðinni http://webmail.ru.is.

Einkadrif

Hver nemandi hefur aðgang að 1 TB OneDrive svæði í gegnum http://webmail.ru.is. Nemendur eru hvattir til að nota það svæði til afritunartöku t.d. á verkefnum og ritgerðum.

Prentun

Upplýsingar um uppsetningu prentara, prentkvóta og kostnað við prentun er að finna á vef UTS.

Skólasamningur HR við Microsoft

Allir nemendur HR geta fengið Office-pakkann án endurgjalds á meðan á námi stendur. Bæði fyrir PC og MAC.

Húsnæði og aðstaða

Öll kennsla fer fram í húsnæði skólans við Menntaveg 1, Nauthólsvík. Byggingin er opin frá kl. 7:30 – 19:00 virka daga og frá kl. 8 – 17 um helgar. Eftir þann tíma er hægt að komast inn með aðgangskorti.

Aðgangskort

Nýnemar fá aðgangskort sem veitir aðgang að byggingunni allan sólarhringinn og gildir það meðan á skólavist stendur. Aðgangskort eru afhent á þjónustuborði í Sólinni 1. hæð. Glatist kortið er hægt að kaupa nýtt á þjónustuborði.

Skápar

Nemendur geta leigt skápa fyrir bækur, töskur, hjólreiðahjálma og annan búnað eina önn í senn. Frekari upplýsingar eru á vefnum: https://lockers.ru.is

Útivist og samgöngur

Umhverfið í Nauthólsvík er vel til útivistar fallið og eru nemendur hvattir til að nýta sér það, til dæmis með því að hjóla eða ganga í skólann. Sturtuaðstaða fyrir nemendur er í kjallara.

Strætisvagnar 

Strætisvagnaleið 5 fer reglulega á milli HR og t.d. Hlemms.

Deilibílar

HR er í samstarfi við Zipbíla og er tilgangurinn að auðvelda nemendum og starfsmönnum HR að nota umhverfivænan ferðamáta, taka strætó, hjóla eða ganga til og frá HR. Þá er hægt að leigja Zipbíl sem staðsettur er við HR í stuttan tíma í einu. Nánari upplýsingar: https://zipcar.is/

Bílastæði

Nemendur eru beðnir um að virða merkt bílastæði við lóð skólans. Nemandi getur búist við því að bifreið hans verði dregin á brott án fyrirvara, á sinn kostnað, leggi hann í merkt stæði eða ólöglega. Mikið er af gjaldfríum bílastæðum við háskólann, en næst húsinu eru gjaldskyld stæði í P4 flokki

Matstofan Málið

Matstofa skólans, Málið, er opin frá kl. 8:00–16:00 alla virka daga. Breyting getur orðið á þessum tímum og er afgreiðslutími auglýstur á vefnum malid.ru.is. Auk þess eru á 1. hæð sjálfsalar þar sem hægt er að kaupa mat og drykk.

Kaffihús og verslun

Te & kaffi rekur kaffihús í Sólinni og er það opið á virkum dögum frá kl. 8:00 – 20:00, laugardaga frá kl. 10:00 – 17:00 og sunnudaga frá kl. 11:00 – 17:00. Orðið getur breyting á þessum tímum. Netfang: hr@teogkaffi.is.

Einnig er að finna verslun í Sólinni sem heitir Háskólabúðin. Þar er úrval af nauðsynjavörum.

Umgengni

Mikil áhersla er lögð á að gengið sé vel um húsnæði skólans. Neysla matar og drykkjar er aðeins heimiluð í matstofu HR og í Sólinni. Eingöngu er leyfilegt að vera með vatn í vatnsbrúsum á öðrum stöðum. Mikil áhersla er einnig lögð á endurvinnslu og flokkun sorps, og er það hluti af umhverfisstefnu skólans. Nemendur eru beðnir að gæta þess að fleygja rusli í réttar ruslafötur eða hólf, og á það við bæði á göngum skólans og í matstofunni. Einnig eru nemendur beðnir að setja pappír í endurvinnslutunnur þar sem þær er að finna. Reykingar (sem einnig telja rafsígarettur) eru stranglega bannaðar á skólalóð Háskólans í Reykjavík nema á sérmerktum svæðum og skal sígarettustubbum fleygt í svokölluð stubbahús. Öll meðferð áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum.

Heilsurækt

Nemendur HR hafa gott aðgengi að rými og svæðum til að rækta sál og líkama.

Slökun og hugleiðsla

Slökun og djúp öndun hefur jákvæð áhrif á einbeitingu og minni auk þess að draga úr streitu og getur dregið úr kvíða. Hugleiðslurými HR er við hliðina á bókasafninu en þar býður náms- og starfsráðgjöf upp á ókeypis tíma. Rýmið er auk þess opið alla daga frá kl.07:00 – 24:00 og er búið dýnum, teppum og púðum. Lesa meira: https://www.ru.is/radgjof/slokun-og-hugleidsla/

Líkamsrækt

Líkamsræktarstöð World Class er í kjallara skólans og býðst nemendum að kaupa kort á sérkjörum. Nemendur og starfsfólk HR hafa aðgang að stöðinni allan sólarhringinn.

Útivistarparadísin Nauthólsvík og Öskjuhlíð

Umhverfið í Nauthólsvík er vel til útivistar fallið og eru nemendur hvattir til að nýta sér það. Heyrst hefur að það sé alltaf skjól í Öskjuhlíðinni og því frábært hlaupa- og göngusvæði. Að hlaupa meðfram Nauthólsvíkinni og út á Ægisíðu klikkar aldrei. Sturtuaðstaða er fyrir nemendur í kjallara HR.

Sjósund

Það er stutt að fara niður að strönd frá háskólabyggingunni, dýfa sér í sjóinn og slaka svo á í heita pottinum.

Þjónustuborð

Afgreiðsla og sala til nemenda, til dæmis á aðgangskortum, hugbúnaði, minniskubbum, prentkvóta og heftum með lesefni er á þjónustuborði í Sólinni, 1. hæð. Þjónustuborðið afgreiðir einnig námsferla og vottorð og sér um aðra almenna afgreiðslu.

Stúdentaíbúðir

Byggingafélag námsmanna (BN) annast útleigu herbergja og íbúða til námsmanna. BN rekur um 500 íbúðir víða í Reykjavík og Hafnarfirði. Nánari upplýsingar um íbúðirnar, leiguverð, úthlutunarreglur o.fl. er á vefsvæði BN.

Félagslíf

Í HR er öflugt félagslíf og það er auðvelt að kynnast öðrum nemendum. Stúdentafélagið (SFHR) er hagsmunafélag stúdenta við HR. Allir nemendur eru meðlimir í SFHR og eru félagsgjöld engin.

Lesa meira um félagslífið í HR


Var efnið hjálplegt? Nei