Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Mynd af Hlyni og James í tröppunum í Sólinni

3000 hakkarar tóku þátt

Hlynur Óskar Guðmundsson stundar BSc-nám í rannsóknamiðaðri tölvunarfræði við HR. Hann er einn þriggja nemenda í tölvunarfræðideild sem sá um IceCTF-hakkarakeppni HR og Syndis í ágúst síðastliðnum.

Keppnin er ein sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hér á landi en meira en 3000 manns í um 1600 liðum víðsvegar að úr heiminum tóku þátt. Markmið hennar er að vekja athygli á tölvuöryggi en hakkarakeppnir snúast oft um að leysa þrautir sem líkjast tölvuinnbrotum. Þannig verða forritarar meðvitaðri en ella um hvernig á að forrita öruggan hugbúnað. 

Áhugi á tölvuöryggi Ými að kenna

IceCTF-keppnin var haldin í samstarfi við Syndis, fyrirtæki sem sérhæfir sig í öryggismálum í upplýsingatækni. Það er dr. Ýmir Vigfússon, lektor við tölvunarfræðideild HR og Emory University í Georgíufylki í Bandaríkjunum, sem er forsprakki keppninnar. Hakkarakeppnin hefur verið haldin í HR um nokkurra ára skeið. Hlynur hefur sjálfur reynslu af því að taka þátt í keppninni. „Ég var nýbyrjaður í Tækniskólanum og tók þátt í Hakkarakeppni HR árið 2013 en þá var ég bara 16 eða 17 ára. Það gekk mjög vel og ég endaði í topp tíu. Þarna fékk ég áhuga á tölvuöryggismálum, það má segja að það sé Ými að kenna!“ Ýmir kennir reglulega námskeið við tölvunafræðideild um tölvuöryggi og glæpi á internetinu.

Mynd af Hlyni og James í tröppunum í SólinniHlynur og James.

MegaByte vann í ár

Tveir aðrir nemendur í grunnnámi í tölvunarfræði, þeir James Elías Sigurðarson og Heiðar Karl Ragnarsson, héldu utan um keppnina ásamt Hlyni. Þeir stóðu í ströngu í þær tvær vikur sem keppnin stóð yfir. „Við vorum að svara spurningum frá öllum heimshornum, halda uppi öllu kerfinu og svo þurftum við að fara yfir lausnir. Þetta var eiginlega alveg svakalegt álag, en jafnframt skemmtilegt og ómetanleg reynsla.“ Hörð barátta var háð um fyrsta sætið en það var liðið MegaByte, sem stóð uppi sem sigurvegari. Þeir Hlynur, James og Heiðar Karl lifa og hrærast í heimi tölvuöryggis því þeir starfa hjá Syndis meðfram námi við að þróa kennsluumhverfi sem gerir forriturum kleift að búa til öruggan hugbúnað.

Lesa um rannsóknarmiðaða tölvunarfræði við HR