Að hanna sig frá hættu
„Það er mikilvægt að greina áhættu með kerfisbundnum og samræmdum hætti og geta miðlað upplýsingum um áhættu til allra sem málið varðar með þeim hætti að fólk skilji.“
Svana Helen Björnsdóttir er í doktorsnámi við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún hefur undanfarið fengist við að rannsaka aðferðafræði við áhættugreiningu í samstarfi við sex íslensk fyrirtæki: Össur, Landsvirkjun, Landsnet, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, Blóðbankann og Stika.
Svana segir að lífsgæði fólks byggi í æ meiri mæli á hagnýtingu tækni. „Þjónusta byggir á tæknilausnum þar sem samspil fólks og kerfa verður sífellt flóknara. Eldri aðferðir við áhættugreiningu hafa reynst illa við að greina áhættu í því hvernig við sem fólk bregðumst við tækninni. Viðbrögð okkar eru t.d. stundum of sein eða of snögg. Margs konar atburðir geta skapað áhættu fyrir líf fólks um alla jörð, t.d. hefur losun CO2 í einstökum löndum áhrif á hlýnun allrar jarðarinnar en ekki aðeins það nærumhverfi sem losunin verður í. Því er mikilvægt að greina áhættu með kerfisbundnum og samræmdum hætti og geta miðlað upplýsingum um áhættu til allra sem málið varðar með þeim hætti að fólk skilji.“
Skoðar aðferðir við áhættugreiningu
Verkefni Svönu snýst um að finna eina almenna aðferðafræði við að greina áhættu sem nýta má á ólíkum sviðum; í atvinnulífi og í háskólasamfélaginu. Um er að ræða samanburðarrannsókn þar sem aðferðafræði við áhættugreiningu hjá sex ólíkum fyrirtækjum og stofnunum er rannsökuð og gagnsemi metin. „Síðan beiti ég nýrri aðferðafræði sem nefnd er STPA eða Systems-Theoretic Process Analysis og hefur verið þróuð af dr. Nancy Leveson, prófessor hjá MIT. Þessi aðferðafræði er enn í þróun og í minni rannsókn ber ég hana saman við þær aðferðir sem nú eru notaðar, í þeim tilgangi að rannsaka hvort unnt sé að greina áhættu sem ekki hefur verið hægt að greina með eldri aðferðum. Mín meginrannsóknarspurning er hvort STPA getur verið grunnur að almennri aðferðafræði við áhættugreiningu og ef svo er, hversu langt hún nái?“ Rannsókn Svönu er því á sviði stjórnunar- og ákvarðanatökufræða. Við þetta bætist sú staðreynd að fram að þessu hafa orð og hugtök er varða áhættu verið skilgreind með mismunandi hætti innan fagsviða og atvinnugreina. Það skortir að fólk tali um og skilji mikilvæga þætti áhættu með samræmdum hætti. Hluti rannsóknarinnar snýr að þessum þáttum. Svana er nýkomin frá Zürich í Sviss þar sem hún flutti fyrirlestur um rannsóknir sínar á ráðstefnu. Rannsóknarvinnunni er að mestu lokið og hún vinnur nú að nokkrum fræðigreinum um niðurstöður rannsóknarinnar. „Vonandi fæ ég þær birtar á næstu mánuðum og þá styttist í lok doktorsnáms míns,“ segir Svana og brosir.
Eurostar styrkur með Zürich University
Hún segir vinnuna við verkefnið hafa gengið vel. „Mér hefur tekist að gera það að eðlilegum hluta starfs míns hjá Stika. Mestan tíma rannsóknarvinnunnar, eða þrjú ár, var ég starfandi stjórnarformaður Stika og rannsóknarvinnan mín hefur verið hluti af viðskiptaþróun fyrirtækisins. Hugmyndin var frá upphafi að nýta niðurstöður rannsóknarinnar og þróa hugbúnaðarlausn sem auðveldaði fólki að greina áhættu, meta hana og finna mótvægisaðgerðir – eða með öðrum orðum: að hanna sig frá hættu.“ Einnig hefur það verið jákvætt að hennar mati hversu niðurstöður hennar eru skýrar og hversu spennandi það er að hagnýta þær í nýsköpun. „Á ráðstefnunni í Sviss gekk ég frá samstarfssamningi við Zürich University for Applied Sciences um samstarf við þróun á hugbúnaði til að greina áhættu með STPA-aðferð. Stiki og Zürich University fengu nú í haust Eurostars verkefnastyrk til að þróa hugbúnaðinn næstu 2,5 ár. Þessi nýi STPA-hugbúnaður verður felldur inn í áhættumatshugbúnað Stika, RM Studio, og markaðssettur um allan heim. Nú þegar eru notendur RM Studio í 20 löndum svo framundan eru spennandi tímar,“ segir Svana.
Leiðbeinendur frá HR, MIT og Amsterdam University
Aðalleiðbeinandi Svönu er Páll Jensson, verkfræðingur og prófessor við HR. Aðrir leiðbeinendur eru Þorgeir Pálsson prófessor í HR, Nancy Leveson, prófessor við MIT, og Robert Jan de Boer, prófessor við Amsterdam University of Applied Sciences. „Samstarfsmenn mínir hjá Stika hafa tekið þátt í verkefninu og Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við HR, hefur aðstoðað mig með ýmsum hætti. Mikilvægust eru þó fyrirtækin sem mynda rannsóknarefnivið minn. Ég á stjórnendum þessara fyrirtækja og sérfræðingum þeirra í áhættustjórnun mikið að þakka fyrir að vilja taka þátt í rannsókninni og deila þekkingu sinni og reynslu.“