Að hrökkva eða stökkva
Þú ert heima og klukkan er níu um kvöld. Þú færð símtal frá vini sem býður þér ókeypis miða á tónleika sem eiga að hefjast klukkustund síðar. Tónleikarnir eru með tónlistarmanni sem þú hefur hlustað nokkuð á og hefðir áhuga á að sjá með eigin augum. Þrátt fyrir það afþakkar þú boðið og heldur þig heima við. Af hverju?
„Það er á ákveðnum tímapunkti að við ákveðum að sækja í aðstæður eða við ákveðum að forðast þær,“ segir dr. Simon Dymond, dósent í sálfræði við viðskiptadeild HR og Háskólann í Swansea í Wales. Hann er jafnframt forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar Experimental Psychopathology Lab við síðarnefnda háskólann.
„Mér finnst áhugavert að skoða hvað heldur aftur af okkur. Við höfum öll rofa sem við kveikjum á þegar við viljum forðast ákveðnar athafnir, ókunnugt fólk og ýmsa viðburði í stað þess að sækjast eftir þessum hlutum. Eftir því sem líkurnar verða meiri á því að við munum finna til óþæginda kveikjum við frekar á þessum rofa því það er oft betra að halda því sem maður hefur frekar en að eiga á hættu að tapa því.“
Hvað gerist þegar við kveikjum á rofanum?
Simon var í hópi vísindamanna sem gerði rannsókn til að reyna að skilja hvað gerist í heilanum þegar við ákveðum að kveikja á rofanum og þar með forðast aðstæður eða fólk. Þátttakendur í tilrauninni þurftu að ákveða hvort þeir vildu fara um borð í geimfar, það er, sækjast eftir ákveðnum aðstæðum eða forðast þær. Til að gera ákvörðunartökuna auðveldari var notaður svokallaður hættumælir. Á honum sáust líkurnar á því að geimfarið væri fullt af geimverum sem væru líklegar til að stela peningum frá þér og vistum. Takmarkið var að vinna sér inn sem mestan pening og koma í veg fyrir árásir frá geimverum.
Ákveðin mynstur greinileg í heilanum
„Þessi tilraun gerði okkur kleift að fylgjast með virkni í heilanum í gegnum allt ferlið. Aukin áhætta olli fyrirsjáanlegum breytingum í því hvort fólk vildi sækja í aðstæðurnar eða forðast þær. Og það er áhugavert að sjá að því meira sem áhættan jókst, ásamt aukinni hættu á að missa peninga og vistir, óx virkni í í ákveðnum svæðum heilans en minnkaði í öðrum. Ákveðin mynstur komu fram í virkni heilans á svæðum sem vitað er að tengjast mati á áhættu og ávinningi.
Ávinningur þarf að vera greinilegur
Á örskotsstundu berum við saman ávinning og áhættu, jafnvel í hversdagslegum athöfnum eins og þeirri sem lýst var í hér í byrjun greinarinnar. „Það þarf oft að vera ansi greinilegur ávinningur til að við ákveðum að stökkva til. Ef þú sérð fram á 50% líkur á ávinningi ertu líklegri til að hætta við. Þetta nýtist okkur oft mjög vel í daglegu lífi. Til dæmis metum við áhættu af því að ganga í vegkanti og það verður til þess að við stígum í veg frá bíl á ferð.
Eykur skilning á kvíða og aðgerðaleysi
Þetta getur líka hamlað okkur. Samkvæmt Simon auka þessar niðurstöður skilning okkar á því hvað ræður áræðni hjá fólki. Við höfum flest eðlislæg viðbrögð við hættu, sem sé að forða okkur. Það sé eðlilegt að við reynum að vernda það sem við höfum áunnið okkur en fyrir marga geti þetta leitt til aðgerðaleysis og jafnvel aukið kvíða og þunglyndi. „Með því að skilja betur heilastarfsemina að baki þessari ákvörðunartöku getum við haldið áfram að þróa meðferðir sem geta hjálpað fólki. Það er þannig sem ég sé helsta notagildið við þessar nýju upplýsingar. Hér er komin ný þekking sem nýtist í baráttu við kvíða og getur hjálpað fólki sem er sífellt að hætta við eitthvað af hræðslu við einhverja áhættu sem svo er aldrei raunverulega til staðar. Þannig væri hægt að auka sífellt áhættuna sem viðkomandi getur tekist á við. Fyrir suma er áhætta fólgin í því að fara út í búð eða í strætó.“
Það má lesa meira um rannsókn Simons og samstarfsfólks hans í grein sem kom út fyrir stuttu í tímaritinu NeuroImage (136/2016) og heitir The tipping point: Value differencesand parallel dorsal-ventral frontal circuits gating human approach-avoidancebehavior.