Bergmálslaust herbergi í kjallara HR
Í klefanum hegða rafsegulbylgjur sér eins og í opnu rými en slíkt umhverfi er nauðsynlegt til að mæla geislun á réttan hátt.
Í kjallara háskólabyggingar HR er að finna fyrstu rannsóknaraðstöðu hérlendis sem endurkastar ekki rafsegulbylgjum. Þetta er svokallað bergmálslaust rými (e. anechoic chamber) sem hefur verið sérhannað fyrir þarfir EOMC-rannsóknarsetursins (Engineering Optimization & Modeling Center) innan tækni- og verkfræðideildar HR. Herbergið er sjö metrar sinnum fjórir metrar, sinnum 3 metrar að stærð. Það er skermað fyrir rafsegulbylgjum og þakið með ísogseiningum sem bæla endurvarp rafsegulbylgja inni í rýminu.
Tilgangurinn með slíku rými er að mæla eiginleika loftneta og loftnetsfylkja, sérstaklega, geislunarmynstra þeirra. Þó má nýta aðstöðuna í aðrar mælingar eins og á rafsegulfræðilegri svörun íhluta. Rýmið verður notað af EOMC undir leiðsögn dr. Slawomir Koziel, prófessors við tækni- og verkfræðideild HR. Bygging klefans, ásamt kaupum á nauðsynlegum búnaði og mælitækjum eins og vigur-netgreini, var styrkt af Rannís og tækni- og verkfræðideild en var sett saman af dr. Koziel og meðlimum í rannsóknarhópi hans. Sumir hlutar klefans, sérstaklega mæliturnar og stýringar sem fylgja þeim, voru hannaðir innan HR.
Forsenda rannsókna
Bergmálslaust rými er forsenda þess að hægt sé að gera rannsóknir sem teknar eru gildar í loftnetaverkfræði og þá sérstaklega sökum þess að hægt er að staðfesta rannsóknir á frumgerðum af loftnetum. Slíka klefa er víða að finna í háskólum og rannsóknarstofnunum út um allan heim. „Þar til núna höfum við þurft að útvista þessum staðfestingum á okkar rannsóknum og hönnun á loftnetum. Það að hafa aðstöðu til prófana hér mun auðvelda rannsóknir töluvert,“ segir Slawomir.
Mælingar á tíðnisviði frá 1-20 gígahertz
Í klefanum hegða rafsegulbylgjur sér eins og í opnu rými en slíkt umhverfi er nauðsynlegt til að mæla geislun á réttan hátt. Inni í klefanum eru tveir stöplar, einn með viðmiðunarloftneti og hinn með því loftneti sem á að prófa. Snúningi þessara turna er hægt að stjórna utan frá svo að hægt sé að skannabæði tvívítt og þrívítt geislunarmynstur á fullkominn hátt. Hægt er að gera mælingar á tíðnisviðinu frá 1 gígahertz, en það er stærð herbergisins sem takmarkar hana, að um 20 gígahertz, en sú tíðni er takmörkuð af getu mælibúnaðar. Þessi tíðni nægir í þær prófanir sem rannsóknarhópurinn hyggst gera.