Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Eyþór stendur og Jónas situr inni í rannsóknarstofu þar sem sjá má steypubita

Bláþráður: nýtt og spennandi byggingarefni

Basalt er  algengasta bergtegund hér á landi. Daginn út og inn göngum við, hjólum og keyrum á auðlind sem vísindamenn við HR skoða nú hvernig nýta má betur.

Við stöndum inni í rannsóknarsetrinu SEL og út um gluggann má sjá rætur Öskjuhlíðar til suðurs. SEL er stytting á Structural Engineering and Composite Laboratory en eins og nafnið gefur til kynna hýsir setrið nýsköpun fyrir byggingariðnað og þá sérstaklega á sviði burðarþolsfræða. Fyrir utan gluggann má sjá hlíðina, sem að öllum líkindum geymir gnótt basalts. Undir leiðsögn vísindamanna við tækni- og verkfræðideild hafa nemendur í byggingartæknifræði og byggingarverkfræði tekið basaltið inn í kennslustofuna þar sem þeir þróa umhverfisvænar nýjungar fyrir mannvirkjagerð.

„Hér gera nemendur tilraunir þar sem til dæmis er blandað saman basalttrefjum, öðru nafni bláþræði og byggingarefnum eins og steypu og tré.“ Eyþór Þórhallsson, dósent  við  tækni-  og  verkfræðideild er í forsvari fyrir SEL ásamt Jónasi Þór Snæbjörnssyni prófessor. Þeir leiða okkur um rannsóknarstofuna og sýna okkur ýmis verkefni sem nemendur hafa leyst af hendi þar sem bláþráður kemur við sögu.

Létt, sterkt og ryðgar ekki

Við útvegginn má sjá stór kefli með renningum af svörtu neti. „Þetta er net til að styrkja steypu,“ útskýrir Eyþór. En hverjir eru kostir þess að nota basaltið? „Basalt ryðgar ekki og þar af leiðandi er engin tæringarhætta. Það er létt en sterkt, eða tvisvar sinnum sterkara en stál og hefur þar með gríðalega gott togþol. Basaltið hentar því mjög vel til að styrkja önnur efni í mannvirkjagerð.“ Tveir nemendur í byggingartæknifræði fengu síðastliðið vor viðurkenningar fyrir lokaverkefni sín frá Tæknifræðingafélagi Íslands. Guðmundur Úlfar Gíslason þróaði veðurkápu á forsteyptum útveggjaeiningum með basalttrefjabendingu og Stefán Ingi Björnsson gerði fyrstu steyptu útveggjaklæðninguna með basaltbendingu.

Dúkur úr bláþræði styrkir límtré

Bláþráður getur komið í stað efna eins og stáls. Vinnsla basalts, sérstaklega hér á landi, er mun betri fyrir umhverfið en vinnsla járns, enda er það brætt með umhverfisvænni raforku. Jónas útskýrir hvernig nota má bláþráðinn með timbri. „Notkun basalts gerir okkur kleift að nýta timburafurðir betur. Nemendur hér hafa gert tilraunir með að styrkja límtrésbita með dúk úr bláþræði. Þá er þunnur renningur settur á neðri brún bitans. Við þetta eykst styrkur bitans verulega. Með því að nota þennan dúk mætti því mögulega t.d. nota lakari timburflokka í límtré.“ Meðal annarra verkefna innan SEL má nefna tilraunir með að setja stuttar basalttrefjar í steypu til að auka brunaþol og þróun nýrrar tegundar ljósastaura sem styrktir eru með basaltdúk. „Þetta er mjög áhugavert verkefni. Við árekstur myndi slíkur ljósastaur ekki rífa bílinn í sundur, heldur gefa eftir, og gæti þess vegna bjargað mannslífum. Fyrirhugað er að halda áfram með það verkefni og við erum að leita eftir samstarfsaðilum,“ segir Eyþór. Jafnframt er fyrirhugað að gera rannsókn á festingum úr trefjaefnum og að þróa notkun á bláþráðarneti í veðurkápu og burðarhluta útveggja.

Styrkur frá Norrænu ráðherranefndinni

SEL hefur undanfarin misseri unnið að undirbúningi frekari nýtingar á basalti í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands en það er forstjóri stofnunarinnar, Þorsteinn Sigfússon, sem er í forsvari fyrir verkefnið. Aðrir samstarfsaðilar eru ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir), Jarðefnaiðnaður ehf., Sintef, sem er ein stærsta rannsóknarstofnun innan verkfræði í Noregi, og VTT, sem er samsvarandi stofnun í Finnlandi. Verkefnið, sem heitir GREENBAS fékk styrk frá Norrænu ráðherranefndinni til þriggja ára og er markmiðið að leita leiða til að nema og nýta íslenska basaltið til útflutnings og innleiddrar framleiðslu.