Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Hallur og Páll standa við handrið í Sólinni

Enginn er óhultur fyrir nýsköpun

Páll M. Ríkharðsson, forseti viðskiptadeildar og Hallur Þór Sigurðarson, aðjúnkt í nýsköpunarfræði við viðskiptadeild skrifa um nýsköpun:

Til umhugsunar: Allt fram streymir endalaust. Um þetta voru þeir sammál Heraklítus hinni gríski og Kristján fjallaskáld, þó tvö árþúsund skildu þá að. Hvað nýsköpun varðar er áhugavert að hafa þetta grunnstef í huga. Að ef allt streymir fram og er breytingum undirorpið – þú stígur aldrei í sama vatnið – verður fullkominn stöðugleiki og endurtekning ómöguleiki. Í staðin verður nýsköpun nauðsynleg og ófrávíkjanleg, fremur en að vera sjaldgæf undantekning. Að stuðla að breytingum ætti að reynast auðveldara en að skapa stöðugleika.  

Því er stundum haldið fram að áhugi á nýsköpun fylgi helst hagsveiflum, að áhersla á nýsköpun aukist í kjölfar efnahagslegra þrenginga þegar samfélög þarfnast atvinnusköpunar. Slíkar ályktanir eru ekki úr lausu lofti gripnar, eins og Íslendingar hafa upplifað undanfarin ár. Þetta breytir því hins vegar ekki að stöðugur stígandi hefur verið í áherslum og áhuga á nýsköpun undanfarna áratugi. Í alþjóðlegu samhengi hefur skýringanna verið leitað til þeirra samfélagsbreytinga sem átt hafa sér stað í kjölfar eftirstríðsáranna. Hér er átt við viðtækar breytinga í átt til frjálsræðis og lýðræðis, örar tækninýjungar, ásamt byltingu í samgöngum. Allt hefur þetta orðið til þess að auka flæði fólks, fjármagns, upplýsinga og þekkingar í mæli sem á sér ekki sögulega hliðstæðu.

Fjórða iðnbyltingin

Þessi þróun hefur verið kölluð fjórða iðnbyltingin og mun koma til með að hafa mikil áhrif í framtíðinni. Sé í þessu tilliti litið aftur til upphafs níunda áratugarins voru aðeins fáeinir háskólar, fyrst og fremst í Bandaríkjunum, sem buðu upp á kennslu í nýsköpun og þá einkum í tengslum við stofnun lítilla fyrirtækja. Að sama skapi var fræðiritum með áherslu á nýsköpun vart til að dreifa. Í dag aftur á móti, ættum við í erfiðleikum með að finna þann viðskiptaháskóla eða -deild sem ekki kennir nýsköpun í einhverju samhengi.

Hugtakið ekki skorðað við eitt fagsvið

Raunar virðast fá takmörk vera fyrir því hvað hægt er að setja aftan eða framan við orðið nýsköpun og er hugtakið notað langt út fyrir stofnun nýrra fyrirtækja. Eflaust má færa rök fyrir því að áðurnefndur sveigjanleiki hugtaksins nýsköpunar hafi orðið til þess að það þynnist út og merkingin verði óljós. Hins vegar, gefur þessi sveigjanleiki einnig til kynna að hér er á ferðinni hugtak, sem ekki verður skorðað við eitt fagsvið eða gert mælanlegt út frá einu gildi (sbr. fjárhagslegur hagnaður). Til þess að ná utanum nýsköpun þurfum við að hugsa þvert á sérsvið og mælistikur og í átti til samfélags og mannlegrar hæfni í breiðara samhengi en við höfum tilhneigingu til, til að mynda innan hagfræði, verkfræði, tölvunarfræði, lögfræði og stjórnunar.  

Forvitni, sveigjanleiki og kjánaskapur

Í þessu samhengi má horfa til þess að viðskipta- og stjórnunarfræðin hafa nú þegar fjölda tækja og tóla til að fást við áskoranir tengdar framleiðni og hagkvæmni. Þrátt fyrir þetta hefur gengið erfiðlega að skilgreina stjórnunartæki og yfirfæranlega ferla sem framkalla eitthvað umfram stigvaxandi þróun og betrumbætur á vöru og þjónustu sem fyrir er. Raunar bendir margt til þess að það þurfi annað til en aukna stýringu þegar kemur að nýsköpun, að til að færa sér í nyt straum breytinga þurfi forvitni, sveigjanleika og jafnvel komi kjána- og leikaraskapur sér vel til að ná fram nýjum sjónarhornum og skapa tækifæri. Greining aðstæðna og tækifæra út frá stöðluðum og vel þekktum líkönum – að öllum líkindum hinum sömu og samkeppnisaðilarnir nota –  leiðir sjaldan til róttækra breytinga.

Gagnrýnin og skapandi hugsun nauðsynleg

Þýðir þetta þá að nýsköpun sé ekki hægt að kenna eða læra? Er nýsköpun einhverskonar náðargáfa útvalinna? Síður en svo. Raunar má snúa þessum vangaveltum á haus því fátt skilgreinir manninn betur en forvitni og hæfileikarnir til að laga sig að ótrúlegustu aðstæðum með hjálp innsæi og skynsemi. Á sama tíma er á það bent úr mismunandi áttum að viðskiptaháskólar og raunar háskólar almennt, þurfi að auka færni nemenda sinna á nýjum sviðum til að bregðast við breytingum í hinu alþjóðlega umhverfi og þörfum þess. Áfram er vissulega þörf á því að nemendur geti greint og leyst flókin og breytileg vandamál, en á sama tíma þarf hugsunin að vera gagnrýnin og skapandi. Viðteknar lausnir og aðferðir má ekki taka sem gefnar, heldur þarf að hvetja nemendur til þess að koma auga á nýja möguleika og leita nýrra leiða þegar tekist er á við áskoranir. Hvað varðar hæfni til nýsköpunar verða þættir eins og tilraunir, leikur og samkennd (geta sett sig í annarra spor) mikilvægir.

Mótun á nýrri námsbraut í nýsköpun við HR

Með vaxandi áherslum á nýsköpun í kennslu og rannsóknum heldur Háskólinn í Reykjavík áfram að efla stöðu sína sem nýsköpunarháskóli. Nýlega hafa verið stigin skref í átt til aukins samstarfs og samþættingar á milli deilda og sérsviða til að efla nýsköpun, til að mynda með mótun á nýrri þverfaglegri námsbraut á meistarastigi. Með þessu standa vonir til þess að þekkingar- og samstarfsgrundvöllur nemenda eflist og aukist, ásamt fjölbreytileika nýrra tækifæra. En eitt af grundvallarmarkmið skólans með áherslu á nýsköpun er að nemendur hans verði enn betur í stakk búnir til að skapa ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag og sjálfa sig um leið. Háskólinn mun sjálfur einnig halda áfram að efla beina þátttöku sína í nýsköpun í íslensku samfélagi og nú í  haust er HR til að mynda að hrinda af stokkunum stóru tveggja ára samstarfsverkefni (REAP) við MIT í Boston og öfluga aðila í íslensku samfélagi. Markmið verkefnisins er í grunninn að skapa ný störf og efla þjóðarhag.