Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Tómas Arnar heldur ræðu á útskrift HR

Féll í menntaskóla en stundar nú nám við Harvard

Tómas Arnar Guðmundssson var dúx Háskólans í Reykjavík vorið 2016 með meðaleinkunnina 9,85. Hann féll í fjórum kúrsum í menntaskóla en stundar nú nám við einn besta háskóla í heimi og er strax farinn að hugsa um að hvernig sprotafyrirtæki hann eigi að stofna ásamt samnemendum sínum. Hann segir nauðsynlegt að læra af mistökum. 

Tómas Arnar hóf nám við HR í rekstrarverkfræði en skipti um braut og lærði hugbúnaðarverkfræði. Það fór svo að lokum að hann útskrifaðist með tvær BSc-gráður frá HR, bæði í rekstarverkfræði og hugbúnaðarverkfræði. Við settumst niður með Tómasi í byrjun sumars til að ræða við hann um námið við HR. Þá var hann að skipuleggja flutninga til Bandaríkjanna en hann fékk inngöngu í Harvard-háskóla og situr nú þar á skólabekk. Næsta árið mun hann stunda meistaranám í í tölvunarfræði og verkfræði, eða CSE (Computational Science and Engineering).

Nám í samstarfi við atvinnulífið

„Þetta er nám þar sem verið er að spá í virkni og bestun reiknirita, meðal annars,“ útskýrir Tómas. „Námið var sett á stofn fyrir aðeins um fjórum árum og var byggt upp í samráði við stjórnendur í atvinnulífinu í Bandaríkjunum sem lögðu fram óskir um hvað þeir vildu sjá í útskrifuðum nemendum. Námið er því mjög hagnýtt. Ég stefni á að starfa á vinnumarkaði vestan hafs í einhvern tíma eftir útskrift en það væri frábær reynsla og gott veganesti út í lífið.“ Tómas býst ekki við því að eiga mikinn frítíma í Boston næstu mánuðina. „Í Harvard er gert ráð fyrir mikilli vinnu. Það er algengt að vinnuvikan þar sé á bilinu 60 til 100 klukkustundir. Á móti kemur að hægt er að ljúka náminu á níu mánuðum þó hægt sé að ljúka því á lengri tíma líka. Mér var boðið út til Harvard í mars og þá gat ég hitt aðra nemendur og séð aðstöðuna. Ég fékk smjörþefinn af því hvernig er að vera þarna við nám. En já, þetta er bara Harvard, drulluerfitt!“

Tómas Arnar stendur við styttu í Harvard

Tómas Arnar við styttuna af John Harvard á háskólasvæðinu.

Ætti að kenna forritun fyrr

En af hverju tvær gráður? „Ég byrjaði í rekstrarverkfræðinni og kláraði hana. Í því námi þurftum við að taka nokkra tölvunarfræðikúrsa og ég fann að ég vildi gera meira af því. Í hugbúnaðarverkfræðinni fannst mér allir kúrsarnir skemmtilegir. Ég hugsaði með mér að kannski ætti ég bara að læra það sem mér finnst skemmtilegast. Ég man eftir því að það var einn kúrs í vali í forritun í menntaskóla en ég fékk ekki þennan brennandi áhuga á faginu fyrr en hér í HR.” Hann tekur undir þau sjónarmið sem heyrst hafa undanfarin misseri um mikilvægi þess að krakkar kynnist forritun fyrr, til dæmis í grunnskóla. „Það eru örugglega mjög margir þarna úti, bæði stelpur og strákar, sem einfaldlega komast ekki í tæri við forritun og tölvunarfræði í gegnum sína skólagöngu, krakkar sem ef til vill myndu finna sína réttu hillu ef þau fengju tækifærið.“

Fimm ár í MR

Tómasi hefur ekki alltaf gengið jafn vel í námi og í Háskólanum í Reykjavík. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þar lærði hann dýrmæta lexíu. „Ég kláraði MR á fimm árum í stað fjögurra. Ég þurfti að endurtaka eitt ár þar sem það var ein önn sem fór algjörlega í súginn hjá mér. Ef ég lít til baka þá var þetta sennilega eitthvað sem ég þurfti að reka mig á, að maður þarf að vinna og hafa fyrir hlutunum.“ Hann segir þetta viðhorf um að leggja sig fram og vinna vel hafa hjálpað sér í háskólanáminu. „Svo hjálpar það að í háskóla er maður að læra það sem maður hefur meiri áhuga á og liggur þar af leiðandi betur fyrir manni. “

Eini nemandinn frá Evrópu

Eins og áður kom fram stefndi Tómas þvert yfir Atlantshafið til að hefja nám í Boston í byrjun ágúst. Við höfðum samband við hann aftur fyrir stuttu og hann segist vera kominn á fullt og að námið sé frábært. „Umhverfið hérna er svo hvetjandi og fullkomið til að mennta sig í, það eru allir svo áhugasamir um allt. Ég, ásamt þremur öðrum sem eru með mér í náminu, erum búin að ræða margar hugmyndir og planið er að útfæra eina og búa til nýsköpunarfyrirtæki. Einnig snýst mikið hérna um viðtöl við fulltrúa atvinnulífsins og ég er búinn að skrá mig í viðtöl hjá MIT (Massachusetts Institute of Technology) í september. Síðan koma stóru upplýsingafyrirtækin á háskólasvæðið hér í október fyrir þá sem eru að leita að vinnu næsta sumar. Það er leyfilegt að taka kúrsa í MIT líka svo ég mun taka 2-3 kúrsa þar af 8 kúrsum sem ég tek. “ Hann segir það vera ánægjulegt að vera kominn í draumanámið og ætlar að leggja sig allan fram. Tómas gerir sér grein fyrir því hversu mikil samkeppnin er í þetta nám enda er hann eini nemandinn frá Evrópu í 40 manna nemendahópi. „Eftir að hafa fallið og þurft að endurtaka árið í menntaskóla er stundum svolítið súrrealískt að vera staddur í Harvard en þetta er bara gott dæmi um hvað góðir kennarar, áhugasamir samnemendur og gott umhverfi eins og í HR getur hjálpað manni við að öðlast ótrúleg tækifæri. En maður verður að vinna fyrir því líka, ég er alveg búinn að komast að því.“

Tomas_Arnar2Frá nýnemavikunni í Harvard. Hópurinn sem hefur nám í haust við tækni- og verkfræðideild háskólans. Það glittir í Tómas Arnar hægra megin við miðju.

Tækifærin í mistökunum

Tómas Arnar flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema við útskriftarathöfn Háskólans í Reykjavík í Hörpu í júní síðastliðnum. Þá bjó hann hjá foreldrum sínum en sagði þeim ekki frá því að hann hefði verið beðinn um að halda útskriftarræðuna. „Mig langaði að koma þeim á óvart. Ég fór bara í göngutúra á kvöldin með hundinn á heimilinu og æfði ræðuna fyrir fífla og birkihríslur! Þetta var góð reynsla, smá pressa að halda ræðuna en ég ákvað að nýta þetta tækifæri til að reyna að læra eitthvað nýtt og svo var ég ekkert stressaður þegar á hólminn var komið.“

Úr ræðu Tómasar:

Mig langar að fara með ykkur í  tímaferðalag til ársins 2008. Þá stundaði ég nám við Menntaskólann í Reykjavík og upplifði martröð margra; að falla. Ég féll ekki bara í einum kúrsi, heldur fjórum og þurfti því að taka árið aftur. Það var erfitt að horfa á eftir vinum mínum útskrifast og tengjast árgangi sem var einu ári yngri. Þegar ég útskrifaðist loksins hefði verið auðvelt að segja þetta bara gott og snúa sér að einhverju öðru. Sumir eru hræddir við að mistakast. Ég lít hins vegar á mistök sem tækifæri til að bæta sig, því mistök eru bara mistök ef við lærum ekki af þeim. Þegar við lærum af þeim gera þau okkur sterkari. Átta árum eftir þessa upplifun fékk ég umslag inn um bréfalúguna. Þetta umslag var stútfullt af bæklingum ásamt bréfi sem á stóð: Til hamingju með inngönguna. Við vonum að þú samþykkir boð okkar um skólavist í Harvard haustið 2016. Besta ákvörðunin sem ég tók var að skrá mig í nám við Háskólann í Reykjavík. Það var eitthvað spennandi við að fara í þriggja ára ferðalag með mörg hundruð nemendum. Síðustu ár hafa verið frábær. Við höfum eignast vini sem munu fylgja okkur alla ævi. Við höfum þroskast með hverju verkefninu sem við höfum skilað. Sérhver útskriftarnemi hér hefur lagt sig hart fram síðastliðin ár og loksins í dag er öll þessi vinna búin. Núna er okkar tími til að blómstra.

Tómas Arnar heldur ræðu á útskrift HR