Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Óskar og Rebekka standa við formúlubílinn

Fóru á brautina í fyrstu tilraun

Það var alveg greinilegt að þetta var bíll sem við höfðum smíðað sjálf enda fékk hann viðurnefnið Frankenstein hjá þátttakendum úti.“

Team Sleipnir var stofnað innan Háskólans í Reykjavík í byrjun skólaársins 2015. Í júlí síðastliðnum tók liðið þátt í Formula Student kappaksturskeppni háskólanema sem fór fram á hinni frægu Silverstone-braut í Englandi. Þetta var í fyrsta sinn sem lið frá HR tók þátt í keppninni en alls fóru utan 14 nemendur úr verkfræði og tæknifræði auk tveggja kennara. Nemendurnir sáu alfarið um að smíða og hanna bílinn og var það gert að langstærstum hluta með búnaði sem finna má innan háskólabyggingarinnar. Stefnt var að því að búa til bíl sem kæmist í gegn um allar öryggisprófanir og væri aksturshæfur. Gengi liðsins fór fram úr björtustu vonum. Þau náðu að fara gegnum öll öryggis- og reglupróf á fyrsta degi og tóku síðan þátt í öllum fjórum akstursþáttum keppninnar. Það þykir mjög góður árangur fyrir lið sem er að taka þátt í fyrsta skipti.

Esther Friðriksdóttir lauk BSc-námi í helbrigðisverkfræði síðastliðið vor. Þátttaka hennar í Team Sleipni og Formula Student var því síðasta verkefni hennar við HR. Hún var einn af fimm bílstjórum HR í keppninni. Óskar Kúld var liðsforingi en hann er nemandi í vél- og orkutæknifræði. Þau sögðu frá upplifun sinni af því að taka þátt í keppninni.

Þurftum að vita hvernig allt virkar

„Í það heila vorum við úti í viku,“ segir Óskar. „Aksturshluti keppninnar var á laugardegi og sunnudegi og þá var keppt á brautinni. Á fimmtudegi og föstudegi fyrir keppnina voru öryggisprófanir og hönnunarþáttur. Við þurftum líka að flytja kynningu á bílnum og lýsa hönnuninni og greina frá kostnaði. Þessi kynning heppnaðist vel hjá okkur enda þekktum við bílinn út og inn og gátum rætt alla hluta hans og smíðinnar á honum fram og til baka.“ Liðin þurftu jafnframt að skila inn hönnunarskýrslu. “Já, maður verður að vita hvernig allt virkar. Við fengum afar góða dóma fyrir skýrsluna okkar en þetta eru allt mikilvægir hlutir og tækifæri til að læra hvernig má gera betur, og að sjálfsögðu sjá hvað við erum að gera rétt. Það er mikilvægt bæði í tæknifræði og verkfræði að geta komið ágæti nýrra lausna og hugmynda frá sér á skilmerkilegan máta.“

Miklu stærra en við héldum

Esther segir keppnina hafa verið miklu umfangsmeiri en hún hafði gert sér grein fyrir. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. Sem lið sem er að taka þátt í fyrsta skipti vissum við lítið sem ekkert hvernig keppnin gengur fyrir sig en við sáum fljótlega að hin liðin sem hafa verið að keppa í mörg ár, eru með miklu meiri umgjörð. Sem dæmi má nefna pittinn okkar en við höfðum ekki hugsað út í það að koma með hillusamstæður og kassa til að geyma allt dótið sem fylgir bílnum eins og önnur lið voru með. Þannig að okkar uppsetning var ekki jafn flott og hjá flestum öðrum. Það voru ýmsir hlutir sem við gleymdum alveg að hugsa út í.“ Þau eru sammála um að þegar þau líti til baka sjái þau að liðið hafi verið of fámennt. „En það er bara eitthvað sem maður lærir af líka.“

10.000 vinnustundir að baki

Formula Student er eitt stærsta verkfræðiverkefni í heiminum og það eru haldnar slíkar keppnir í næstum öllum heimsálfum og fleiri en ein í Evrópu. „Hvert einasta smáatriði skiptir máli þegar maður smíðar bíl sem á að geta komist í gegnum öryggisprófanir þar sem farið er yfir tékklista þar sem hver einasti íhlutur verður að standast ákveðnar kröfur,“ segir Esther. „Já, ég held að það séu örugglega um 10.000 vinnustundir að baki þessum bíl!“ segir Óskar. Þau segjast hafa orðið vör við að þau skáru sig úr í keppninni. „Það var alveg greinilegt að þetta var bíll sem við höfðum smíðað sjálf enda fékk hann viðurnefnið Frankenstein hjá þátttakendum úti. Þetta var mikil púsluspil. Og þó að smíðinni hafi lokið hér í HR áður en við fórum út þá þurftum við að vera sívinnandi við hann í keppninni til að laga og bæta.“ Þau voru ánægð með að hafa fengið spurningar frá öðrum liðum um hversu oft þau hefðu keppt. „Það var mikið hrós í sjálfu sér. Það kom til vegna þess að við bjuggum til okkar eigin vélatölvu og mótorinn var eins sílinders með forþjöppu auk þess sem við ókum á etanóli en það er algengara hjá liðum sem keppt hafa oftar en einu sinni, það er, etanólbreytingin. Enda vorum við afar metnaðarfull þegar kom að því að ákveða hvernig vélin ætti að vera,“ segir Óskar að lokum.