Frá byggðum Inúíta til kosningafundar hjá Trump
Rannsóknir leiddu fræðimann við lagadeild HR Frá byggðum Inúíta til Smithsonian-safnsins á kosningafund hjá Donald Trump
Bjarni Már Magnússon er dósent við lagadeild HR og sérfræðingur í hafrétti. Fyrir stuttu lauk hann 18 mánaða rannsóknarsamstarfi með 17 öðrum vísindamönnum frá aðildarríkjum Norðurskautsráðsins í verkefni sem heitir Fulbright Arctic Initiative. Hugmyndin á bak við rannsóknarsamstarfið er að leiða saman þverfaglegan hóp sérfræðinga til rannsóknarstarfa á sviðum vatns, orku, heilsu og innviða.
Fulbright Arctic Initiative-verkefnið kallaði á samráð og samvinnu rannsóknarteymisins allan tímann sem það stóð yfir. Vísindamennirnir sóttu á þessum tíma þrjá fundi, í Iqaluit í Baffinlandi í Kanada, Oulu í Finnlandi og Washington DC í Bandaríkjunum. Þar að auki hittist undirhópurinn sem Bjarni tilheyrði í Fairbanks í Alaska og í Saskatoon í Saskatchewan í Kanada, og því óhætt að segja að Bjarni Már hafi heimsótt staði sem hann annars hefði sennilega ekki fengið tækifæri til að kynnast.
Lærdómsríkt ferðalag
„Það var merkilegt að koma til Iqaliut sérstaklega. Þetta var eins og að koma í þriðja heiminn en samt var maður í þessu þróaða ríki sem Kanada er. Samfélagið stendur frammi fyrir gríðarlegum félagslegum vandamálum auk þess sem grundvallar innviði vantaði að miklu leyti. Fólkið sem ég hitti var mjög almennilegt og það var mjög lærdómsríkt fyrir mig sem sit á rassinum alla daga, er ekki í rannsóknum „úti á akrinum“ og hef litla sem enga þekkingu á lífsháttum nútíma frumbyggja, að fá dýpri innsýn í líf þeirra og hversu illa hefur verið komið fram við þá.“
Bókasafnsfræðingur sérmenntaður í þjóðarétti
Hver og einn fræðimannanna dvaldi einnig í Bandaríkjunum við rannsóknir. Bjarni Már var í tvo mánuði við lagadeild Duke-háskóla í Norður Karólínu þar sem hann naut framúrskarandi rannsóknarumhverfis. „Ég komst að því að bókasafnið þar átti til að mynda allt efni sem ég hef gefið út á enskri tungu. Auk þess var ég með bókasafnsfræðing mér til aðstoðar sem jafnframt var lögfræðingur, sérmenntaður í þjóðarétti. Íþróttaaðstaðan fyrir nemendur var ótrúleg, og svo lengi mætti telja. Þetta var skemmtileg reynsla.“ Tímanum við Duke varði Bjarni Már til að vinna rannsókna sína um hvort Bandaríkin geti afmarkað ytri mörk landgrunns síns fyrir utan 200 sjómílur. „Rannsóknin veltir upp ýmsum spurningum þar sem Bandaríkin eru ekki aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.“ Við Duke-háskóla hitti Bjarni marga helstu bandarísku sérfræðingana í málaflokknum í Colorado, Miami og Washington DC.
Fræddi skólabörn um Norðurskautið
Leið Bjarna Más lá svo aftur til Washington DC þar sem hann tók þátt í alls kyns viðburðum tengdum Norðurslóðum, auk þess sem hann kynnti niðurstöð-ur rannsókna sinna. Smithsonian náttúrúvísinda-safnið var með sérstaka sýningu þar sem Bjarni Már kynnti rannsóknir sínar fyrir gestum safnsins. „Já, ég hitti bandaríska skólakrakka og fjölskyldur þeirra og fræddi þau um Norðurskautið.“ Hópurinn fór einnig í bandaríska utanríkisráðuneytið, finnska sendiráðið, National Academy of Sciences og fleiri staði og var greinilega um afar glæsilega dagskrá að ræða. Bjarni tekur undir það. „Bandaríkjamenn eru í forsvari núna í Norðurskautsráðinu og maður verður var við að þeir eru að minna á sig.“
Fór á kosningafundi Sanders, Clinton og Trump
„Eitt það furðulegasta sem ég hef upplifað“
Á meðan Bjarni Már dvaldi í Norður-Karólínu ákvað hann að kynna sér kosningabaráttuna um forsetaembættið í Bandaríkjunum frá fyrstu hendi. Hann fór á kosningafundi, eða rallies, eins og það er kallað, hjá Donald Trump, Bernie Sanders og Hillary Clinton. „Þetta var alveg ógleymanlegt, að sjá þetta umbúðalaust og með eigin augum.“
„Ég mætti of seint á fund Bernie Sanders þannig að röðin inn náði einhverjum kílómetrum held ég. Þá kom karlinn bara út og hélt þrumuræðu yfir okkur öllum sem komumst ekki inn. Þetta var þvílík stund. Stuðningsmennirnir voru alveg trylltir. Sumir klifruðu hátt upp í tré til að sjá hann betur.“ Á Trump-samkomunni fann Bjarni Már fyrir öðru en aðdáun. „Ég var eiginlega smá smeykur og þetta var í raun dálítið ógnvænlegt. Þarna í risastórri íþróttahöll voru 15 þúsund manns. Þetta var eitt það furðulegasta sem ég hef upplifað. Fólkið var bara að kalla og hrópa í takt og að styðja einhverja steypu, ég get ekki lýst því öðruvísi.“ Bjarni vísar í myndband sem hann tók upp á símann. Þar sést Donald Trump halda ræðu þar sem hann virðist tönnlast á væntanlegum sigri sínum, aftur og aftur. „Svona var þetta, win, win, win. Ég hélt hann myndi segja eitthvað af viti en hann gerði það ekki.“
Bikiníklæddar konur við dráttarbíl fyrir kappakstursbíla
Á þessari risastóru samkomu var hægt að kaupa alls kyns skyndibita og aðrar vörur. „Fyrir utan höllina tóku á móti mér bikiníklæddar ungar konur sem stóðu við skærgulan dráttarbíl fyrir kappakstursbíla.“ Þetta var eini fundurinn þar sem mótmælt var fyrir utan, að sögn Bjarna Más. Fundur Hillary Clinton var „eiginlega frekar litlaus miðað við hina tvo. Þetta var dæmigerður kosningafundur. Hann var haldinn í grunnskóla og var með atriði og þeir voru hressir en annars var þetta allt mjög virðulegt. Það var greinilegt að hér var forsetaefni á ferð og engin vitleysa í gangi.“
Fyrir utan kosningafund hjá Donald Trump