Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Anurag Dey talar við gesti á alþjóðadegi HR

Frá Sydney í skiptinám til Lundar, Nepal og Íslands

Anurag Dey er meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Sydney og kom hingað til lands til að stunda skiptinám við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Anurag er einn þeirra rúmlega 200 erlendu nemenda sem hófu nám við HR í haust en það var metfjöldi. Hann ákvað að koma til Íslands því landið heillaði hann.

„Ég gat látið þennan draum rætast af því að HR er með samning við háskólann minn í Ástralíu,“ segir hann. Slíkir tvíhliða samningar gera nemendum HR kleift að stunda nám við háskóla erlendis og nemendum frá þeim skólum að koma til Íslands. Einnig geta nemendur nýtt sér áætlanir eins og Erasmus fyrir evrópska háskóla og Nordplus fyrir skóla á Norðurlöndunum.

Kaldar sturtur að vetri til herða mann

Anurag segir námið hér vera svipað því sem hann þekkir frá sínum háskóla í Ástralíu. „Það er samt alltaf öðruvísi dýnamík í námskeiðum þar sem ekki er kennt á móðurmáli nemendanna,“ en hann situr meistarakúrsa í lögum sem kenndir á ensku. Anurag er vanur því að læra með fólki hvaðanæva að úr heiminum. Hann lauk grunngráðu í stjórnmálafræði í Ástralíu og fór þá í skiptinám til Lundar í Svíþjóð. Hann stundaði einnig skiptinám í lögum í Nepal á síðasta ári, við Kathmandu School of Law. „Það var mjög merkilegt, og bara ótrúlega áhugavert, að læra um mannréttindalög í Nepal,“ segir hann. „Aðstæður voru líka öðruvísi en maður á að venjast en það er líka bara gott. Kaldar sturtur að vetri til herða mann bara!“ Hann segist helst vilja starfa á sviði mannréttinda í framtíðinni en námskeiðin sem Anurag lýkur á önninni við HR fjalla um alþjóða-mannréttindalög og alþjóðaviðskipti. 

Ferskt sjónarhorn mikilvægt

„Maður verður að reyna mismunandi menningu á eigin skinni. Ég get vottað það að þegar maður byrjar er erfitt að hætta!“ segir Anurag en glaður í bragði en það er greinilegt að málið er honum hugleikið. „Þú þarft að fá nýtt sjónarhorn á það sem þú ert að læra. Það er sérstaklega mikilvægt þegar maður er að læra lögfræði. Lögin snúast um að skilja hegðun, umhverfi og menningu. Maður á það á hættu að verða samgróinn sínu umhverfi og það er ekki gott. Við lærum af því að sjá hvernig aðrir gera hlutina. Til dæmis rannsakaði Ruth Bader Ginsburg, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, í þaula lög og meðferð mála í Svíþjóð.“

Stórar og strjálbýlar eyjar, ein heit og hin köld

Okkur leikur forvitni á að vita hvað honum finnist að sé sameiginlegt með Ástralíu og Íslandi, þessum tveimur eyjum, sitt hvorum megin á hnettinum. „Þetta er í raun svipuð lönd sem eru samt mismunandi,“ segir Anurag. „Þetta eru stórar og strjálbýlar eyjar. Ein er heit, hin er köld.“ Íbúar Ástralíu eru um 20 milljónir í landi sem er gríðarstórt, jafnstórt og Bandaríkin. Hingað til hefur Anurag getað ferðast um Suðurlandið, hann hefur farið norður í land og farið Gullna hringinn. „Ég sá norðurljósin úti í sveit rétt hjá Húsavík. Það var ógleymanlegt.“