Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Ragnhildur Helgadóttir

Fyrsti desember 2018

Dr. Ragnhildur Helgadóttir forseti lagadeildar

Merking hugtaka og innbyrðis samband þeirra breytist með tímanum. Orðið „fullveldi“ kom ekki inn í íslenska pólitíska umræðu sem markmið fyrir Ísland fyrr en árið 1906. Þangað til hafði það verið notað abstrakt, en ekki um markmið sjálfstæðisbaráttunnar. Upp úr 1906 gerðist hins vegar tvennt samtímis: kröfur Íslendinga, sem höfðu verið fremur óljósar, urðu nokkuð skýrar og fóru að snúast um aukna eða fulla sjálfsstjórn í eigin málum – og orðið „fullveldi“ kom fram og fór að tákna þessar kröfur.

„Fullvalda ríki“ þótti sterkara orðalag en „sjálfstætt land“

Í 1. grein frumvarps til laga um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands frá 1907, sem venjulega er kallað „Uppkastið“, stóð að Ísland væri „frjálst og sjálfstætt land“ í sambandi við Danmörku. Andstæðingar Uppkastsins unnu hins vegar sigur í alþingiskosningum árið 1908, vegna þess að það þótti ekki ganga nógu langt í átt að sjálfstjórn fyrir Íslendinga. Árið 1909 gerði Alþingi tillögu um að í staðinn skyldi standa að Ísland væri „frjálst og fullvalda ríki“ en tillagan var ekki einu sinni lögð fyrir danska þingið, það var talið svo ósennilegt að hún skilaði nokkru. „Fullveldi“ virðist þannig hafa verið talið ganga lengra í átt til sjálfstjórnar en „sjálfstæði“ þó þarna hafi líka komið inn spurningin um það hvort Ísland væri ríki samkvæmt uppkastinu.

Íslenska samninganefndin krafðist fullveldis

Í samningaviðræðunum um sambandslögin árið 1918 kemur þessi staða hugtakanna enn skýrar fram. Þá vildi danska samninganefndin að í 1. grein þeirra yrði kveðið á um „frjáls og sjálfstæð ríki“ (á dönsku „frie og selvstændige stater“). Með þessu hefðu Ísland og Danmörk verið lögð að jöfnu og bæði verið skilgreind sem ríki. Engu að síður krafðist íslenska nefndin þess að greinin yrði orðuð „frjáls og fullvalda ríki“ (á dönsku „frie og suveræne stater“). Sama umræða átti sér stað um greinina sem síðar varð 19. grein laganna. Danska nefndin vildi að Danir tilkynntu öðrum þjóðum viðurkenningu Íslands sem sjálfstæðs ríkis en íslenska nefndin hélt fast við að orðið yrði „fullvalda“ og gekk það eftir. Úr því greinarnar voru samhljóða að öðru leyti hlýtur niðurstaðan að vera sú að íslensku samninganefndinni hafi fundist fullveldi vera æskilegra hugtak, sennilega ganga lengra; hugsanlega vera lögfræðilega „handfastara“ en í öllu falli vera í betra samræmi við það sem á undan var gengið í sjálfstæðisbaráttunni: Höfnunina á Uppkastinu og þingsályktun frá 1917 þar sem skipuð var nefnd til að gera tillögur um hvernig mætti „ná sem fyrst öllum vorum málum í vorar hendur og fá viðurkenningu fullveldis vors.“

„Sjálfstæði“ ekki notað sem heiti yfir fullan aðskilnað fyrr en undir 1940

Þegar kemur fram undir 1940 hafði innbyrðis samband þessara hugtaka breyst og jafnvel snúist við; fullveldi Íslands var staðreynd og þá þótti skipta máli að ná sjálfstæði. Grein Bjarna Benediktssonar í Andvara árið 1940 hét beinlínis „Sjálfstæði Íslands og atburðirnir 1940“ en hann tilheyrði yngri kynslóð fræði- og stjórnmálamanna heldur en þeir sem komu að gerð sambandslagasamningsins. Þessi nýja kynslóð skrifaði vissulega um að Ísland hafi hlotið fullveldi árið 1918 en lagði mesta áherslu á mikilvægi sjálfstæðis eða „algers sjálfstæðis“ og hvernig skyldi stefna að því eftir árslok 1943. Tíu árum áður hafði Einar Arnórsson, einn þeirra sem samdi um sambandslögin, skrifað um fullveldið 1918 og að það hefði skipt máli að Ísland væri skilgreint og viðurkennt sem fullvalda en vísaði til „næsta skrefs“ og „skilnaðar“ eftir 25 ár frá sambandslögunum, án þess að nota nokkurn tímann hugtakið „sjálfstæði“ um það skref. Það kom því ekki til sem heiti yfir aðskilnaðinn frá Danmörku fyrr en undir 1940.

Vænlegra að hafa þjóðhátíð í júní

Þessu til viðbótar má nefna að það hefur verið mjög misjafnt eftir tímum hversu mikið er haldið upp á 1. desember. Árið 1918 var erfitt; spænska veikin, Kötlugos og frostavetur sáu til þess, og m.a. þess vegna voru hátíðarhöld hófstillt þá. Þar kom þó líka fleira inn í. Eftir 1944 tók 17. júní smátt og smátt alveg yfir sem hátíðisdagur tengdur sjálfstæðisbaráttunni og 1. desember féll í skuggann. Að hluta til var eðlilegt að tengja þjóðhátíðardaginn lýðveldisstofnuninni, sem sannarlega var lokaskrefið í aðskilnaðinum við Danmörku, en þarna kom líka til hvað er miklu vænlegra að hafa þjóðhátíð á Íslandi í júní en desember!

Hugtakið fullveldi þýddi fulla pólitíska sjálfstjórn

Það sést af þessu að það er ekkert skrýtið að ákveðið hafi verið að halda upp á aldarafmæli „sjálfstæðis og fullveldis“ Íslands 2018. Árið 1918 var – að kröfu Íslendinga – staðhæft að ríkið væri fullvalda í stað þess að það væri sjálfstætt. Hugtakið fullveldi þýddi þá fulla pólitíska sjálfstjórn og það verður ekki séð að það hafi verið rætt af neinni alvöru þá að ganga lengra í átt til aðskilnaðar við Dani en það. Merking hugtakanna fullveldi og sjálfstæði þróaðist svo með tímanum og innbyrðis samband þeirra breyttist. Sjálfstæði fór þá að þýða fullan aðskilnað frá Danmörku og þar með íslenskan þjóðhöfðingja. Sömuleiðis þarf að muna, að kröfur Íslendinga breyttust með tímanum; þær fóru ekki að snúast um fulla sjálfstjórn fyrr en nokkru eftir aldamótin 1900 og ekki um fullan aðskilnað frá Dönum fyrr en nokkru eftir að fullveldið var fengið.

Greinin er stytt útgáfa af kafla í Fullveldi Íslands 1918-2018: Hugsjón og veruleiki, sem kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi í nóvember 2018.