Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Eydís stendur í stjórnklefa flugumferðarstjórnar

Greinir álag í röddinni

„Markmiðið er að gera mæli sem fylgist með flugumferðarstjórum í starfi sem jafnframt tekur tillit til verkefnanna sem þeir eru að vinna hverju sinni.“

Eydís Huld Magnúsdóttir, doktorsnemi við tækni- og verkfræðideild, vinnur með vísindamönnum Háskólans í Reykjavík ásamt Isavia og Icelandair að gerð mælis sem getur greint álag hjá flugumferðarstjórum.

„Við erum að reyna að greina út frá röddinni hvort flugumferðarstjórar séu undir álagi. Markmiðið er að gera mæli sem fylgist með flugumferðarstjórum í starfi sem jafnframt tekur tillit til verkefnanna sem þeir eru að vinna hverju sinni. Ef við vitum hvernig raunverulegt álag er hjá fólki er hægt að fylgjast með því við störf með rafrænum hætti og grípa inn í ef vinnuálag verður meira en það ræður við.“

Búið er að safna gögnum í stóran gagnagrunn með mælingum á bæði lífeðlisfræðilegum þáttum og hljóðgögnum. „Söfnun gagnanna var tímafrek en við njótum góðs af því núna að geta fengið heildstæða mynd af því sem gerist í líkamanum þegar hann er undir álagi.“ Nú eru Eydís og samstarfsfólk hennar að hefja úrvinnslu á miklu magni gagna og fá fyrstu niðurstöður úr prófunum sem hún mun kynna með fyrstu rannsóknargreininni tengda verkefninu, á ráðstefnu í Póllandi. „ISAVIA hefur stutt verkefnið en bæði ISAVIA og Icelandair styðja mína stöðu þetta árið, en ég byrjaði að vinna í þessu í meistaranáminu árið 2013,“ segir Eydís að lokum. Leiðbeinendur hennar eru þau Jón Guðnason, lektor við tækni- og verkfræðideild, og Kamilla Rún Jóhannsdóttir, lektor og forstöðumaður BSc-náms í sálfræði við viðskiptadeild.