Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Ari Kristinn Jónsson

Háskólastarf er forsenda velsældar

Ísland hefur valkost

Grein eftir Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Í Bandaríkjunum hafa háskólar verið uppspretta nýrrar tækni og nýrra tækifæra í marga áratugi og nægir að horfa  til Boston eða Kísildals til að sjá hversu mikil verðmæti verða þannig til. Í Kína er unnið ákaft að því að efla efnahagslíf þar sem kínversk fyrirtæki leiða þróun og nýjungar í stað þess að vera að mestu framleiðsluland fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Grunnurinn að þessu er hröð og mikil uppbygging háskóla þar í landi sem menntastofnana og uppspretta nýrrar þekkingar.

Háskólar fá lítið rými í umræðunni

Við Íslendingar vitum þetta auðvitað líka, þó háskólar fái furðulega lítið rými í daglegri umræðu um efnahagsmál og framtíð landsins. Það er engu að síður staðreynd að sú menntun sem háskólar veita og sú þekking sem þeir skapa eru alger undirstaða þeirra lífskjara sem við njótum. Á síðustu áratugum hefur útflutningur verðmæta aukist langt umfram það sem tengja má beint við aukna nýtingu auðlinda. Þetta byggist á nýtingu menntunar til að auka afrakstur auðlindanna og til að skapa ný verðmæti sem byggjast á hugviti og sköpun.  Við það bætist að næstum öll sú þjónusta sem samfélagið veitir er byggð á menntun og þekkingu og gildir þar einu hvort horft er til réttarkerfis, menntakerfis, heilbrigðiskerfis eða annars.

50% vöxtur þjóðarframleiðslu

Það er ansi áhugavert að horfa til þess hversu sterk tengsl eru um allan heim milli háskólastarfs og hagsældar, en þetta er líka greinilegt þegar horft er til Íslands. Á síðustu áratugum hefur hagsæld á Íslandi vaxið gríðarlega og hefur þjóðarframleiðsla á mann, á föstu verðlagi, vaxið úr um 28 þúsund dollurum árið 1995 í um 42 þúsund dollara í dag. Það er 50% vöxtur. Rétt fyrir aldamótin var hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi um 24% af vinnuafli en var komið upp í um 36% árið 2013. Það er líka 50% vöxtur.

Viðhorf hættulegt framtíð Íslands

Þrátt fyrir þetta virðist það teljast ásættanlegt að háskólar á Íslandi séu hálfdrættingar í fjármögnun, borið saman við háskóla á Norðurlöndum. Og það sem verra er, að á meðan Norðurlöndin hafa aukið fjármagn á hvern nema í sínum löndum, þá hefur verið dregið úr framlögum á hvern nemanda á Íslandi. Verst af öllu er þó að stjórnvöld virðast ekki hafa raunverulegan vilja til að breyta þessu, því samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára, þá á litlu sem engu að bæta við fjármögnun háskólanna. Þetta hlýtur að endurspegla það viðhorf meðal þeirra sem stýra málum að háskólastarf hafi ekki jákvæð áhrif á hagsæld eða velsæld á landinu. Í ljósi sögunnar og í ljósi reynslu annarra þróaðra landa, þá er slíkt viðhorf ekki bara ótrúlegt heldur hreinlega hættulegt framtíð Íslands.

80-90% útskriftarnema komnir með vinnu fyrir útskrift

Þá sjaldan að mál háskólanna hér á landi komast í umræðuna, þá er það yfirleitt á grunni þess að draga úr, frekar en að draga fram mikilvægi háskólastarfs. Til dæmis hefur mikið verið rætt um hversu lítill munur er á launum háskólamenntaðra og annarra. Enn fremur hefur ítrekað verið dregið fram að hluti háskólamenntaðra er ekki með atvinnu.  Í þessu er alveg horft fram hjá þeirri staðreynd að óvenju mörg hálaunastörf á Íslandi krefjast ekki háskólamenntunar, svo sem þau störf sem byggja á beinni nýtingu okkar auðlinda. Þar er líka horft fram hjá því að háskólamenntun er ekki einn einfaldur stimpill, heldur bjóða ólíkar námsleiðir upp á ólík tækifæri. Þegar unnið er markvisst að því að tengja háskólamenntun við viðfangsefni og þarfir atvinnulífs og samfélags, þá lætur árangurinn ekki á sér standa. Það er skýr stefna Háskólans í Reykjavík að mennta í samræmi við þarfir samfélagsins og með virku samstarfi við stofnanir og fyrirtæki. Það skilar sér í því að 80-90% þeirra útskriftarnemenda sem ætla á vinnumarkaðinn eru komnir með vinnu fyrir útskrift. Vel þjálfað háskólamenntað fólk á greiða leið í góð og vel launuð störf hjá fyrirtækjum og stofnunum, auk þess að slíkt fólk hefur getuna til að skapa eigin tækifæri og fyrirtæki.

Tölvutæknin mun gjörbylta umhverfinu

Framundan eru gríðarlegar breytingar á öllu okkar umhverfi. Sjálfvirkni, gervigreind, sýndarheimar og fleira mun gerbylta okkar störfum, okkar efnahag, okkar umhverfi og okkar persónulega lífi. Talið er að helmingur þeirra starfa sem til eru í dag muni hverfa á næsta aldarfjórðungi, og ekki er ólíklegt að það sé vanmetið.

Margir horfa þessa dagana til sjálfkeyrandi bifreiða og velta fyrir sér hvenær bílstjórar verða óþarfir. En það er í raunskammsýn hugsun því svipuð tækni mun hafa áhrif á svo miklu fleiri störf - í þjónustu, í verslun, í framleiðslu, í flutningum og í afþreyingu. Þá hugsa margir með sér að það muni ekki eiga við um störf sem krefjast mannlegra samskipta. En aftur er það skammsýn hugsun - það hefur margsýnt sig að ef neytendur eða fyrirtæki geta gert hlutina hagkvæmar með tækni en með manneskju, þá verður hagkvæmari kosturinn fyrir valinu. Störfin sem munu krefjast manna verða þau sem krefjast hugvits, innsæis, og sköpunar. Það er engin spurning að heimurinn okkar og störfin okkar munu breytast gríðarlega á næstu áratugum. Þessi breyting er svo stór að margir tala þar um 4. iðnbyltinguna.

Getum verið leiðandi                           

Ísland hefur valkost þegar kemur að þessari framtíð. Við getum verið leiðandi þátttakendur sem skapa verðmæti fyrir okkar samfélag og annarra í gegnum hugvit, sköpun, innsæi og skilning. Það mun krefjast þess að við getum aðlagað okkur hratt að breytingum heimsins, nýtt tækifæri sem opnast og brugðist hratt við ógnunum. Til þess þurfum við öfluga og vel fjármagnaða háskóla, framsækið atvinnulíf og kvika samfélagsþjónustu. Hinn valkosturinn er að við verðum ódýrt vinnuafl fyrir aðra. Sá valkostur hugnast fæstum og því vekur það enn og aftur furðu að ekki skuli vera hávær krafa í samfélaginu um að að efla háskólastarf á Íslandi.