Hlaut gullverðlaun fyrir HR
Það vita það ef til vill ekki margir, en Íslendingar eiga margverðlaunaðan keppanda á alþjóðavettvangi í bardagaíþróttinni taekwondo.
Meisam Rafiei, sem fæddist í Suður-Íran en hefur verið búsettur á Íslandi síðan árið 2010, hefur á keppnisferli sínum unnið til fjölda verðlauna fyrir Ísland í greininni. Meisam er nemandi við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og hefur jafnframt keppt fyrir hönd háskólans á mótum í Evrópu.
Fann strax að þetta átti við mig
Taekwondo á uppruna sinn að rekja til Kóreu. „Þetta er bardagaíþrótt sem kennir sjálfsaga og virðingu,“ útskýrir Meisam. „Henni er skipt í poomsae og sparring eða form og bardaga. Í bardaga, sem ég sérhæfi mig í, keppa tveir aðilar á móti hvor öðrum og reyna að ná stigum með spörkum og keppendur nota rafbrynjur og hjálma.“ Meisam kynntist íþróttinni á barnsaldri, en hann er einn níu systkina. „Eldri bróðir minn var alltaf að æfa og dró mig með á æfingar. Ég fann strax að þetta átti vel við mig.“ Hálf fjölskyldan býr enn í Íran, þar á meðal foreldrar hans, en önnur systkini búa í Lundúnum og Þýskalandi. „Það er mjög öðruvísi umhverfi hér á Íslandi og veður en í Íran. Mér finnst alveg fínt að hafa kulda og snjó en það væri betra ef það væri bara í einn mánuð á ári!“
Nálægt því að komast á Ólympíuleikana
Árangur Meisam í taekwondo hefur verið með ólíkindum. „Ég er búinn að keppa mikið og víða, áður fyrr keppti ég fyrir Íran en núna keppi ég fyrir Ísland.“ Meisam hefur þar að auki keppt fyrir Háskólann í Reykjavík á alþjóðlegum háskólaleikum. Fyrir HR hlaut hann gullverðlaun í European Universities Championships háskólakeppninni í Króatíu árið 2015 og í ár hlaut hann silfurverðlaunin á European Universities Games, þar sem 500 nemendur frá 300 skólum tóku þátt. Meisam var nálægt því að komast á Ólympíuleikana í Ríó en í sínum þyngdarflokki, mínus 58 kílógramma flokki, komast einungis tveir keppendur frá Evrópu þannig að samkeppnin reyndist of hörð.
Leggur stund á nám í íþróttafræði
Meisam hefur starfað við þjálfun í taekwondo síðan hann steig fæti niður hér á landi, enda ekki furða að landsmenn vilji njóta góðs af þeirri miklu kunnáttu og reynslu sem hann býr yfir. Hann hefur nú þriðja árið í grunnnámi í íþróttafræði við tækni- og verkfræðideild HR. „Mig langaði að stunda háskólanám í íþróttafræði og mér fannst brautin hér við HR spennandi.“ Á þriðja ári geta nemendur valið sérhæfingu á íþróttaþjálfunarbraut, íþróttakennarabraut eða lýðheilsubraut. „Ég hef valið að fara á kennarabraut en ég held að það muni nýtast mér best. Það gefur mér mikið að þjálfa, kynnast nýju fólki og hjálpa því að ná markmiðum sínum.“ Meisam er kominn til að vera hér á landi enda búinn að skjóta niður rótum og kominn með fjölskyldu. „Kennslan verður örugglega í fyrsta sæti bráðlega, við sjáum til að með áframhaldið á keppnisferlinum, það verður bara að koma í ljós.“
Helstu verðlaun fyrir Ísland
- 2016 Gullverðlaun á Nordic Championships í Danmörku.
- 2016 Gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu.
- 2016 Silfurverðlaun á European Universties Games í Króatíu.
- 2015 Gullverðlaun á European Universities championships í Króatíu.
- 2015 Gullverðlaun á Bratislava Open í Slóvakíu.
- 2015 Keppti á Evrópuleikunum í Taekwondo í Baku Azerbaijan, fyrstur fyrir Íslands hönd.
- 2014 Gullverðlaun á RIG Reykjavík International Games.
- 2014 Gullverðlaun á Norðurlandamótinu á Íslandi.
- 2014 Bronsverðlaun á Trelleborg Open G1 í Svíþjóð, fyrstur fyrir Íslands hönd.
- 2011 Gullverðlaun á Wonderfull leikunum í Kaupmannahöfn.
- 2011 Bronsverðlaun á Trelleborg Open í Svíþjóð.
- 2011 Gullverðlaun á Norðurlandamótinu í Danmörku.
Fyrir Íran
2002 Gullverðlaun á World Junior Championships í Grikklandi
