Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Gísli Hjálmtýsson

Hvaða færni þarf til að smíða lausnir framtíðarinnar?

Dr. Gísli Hjálmtýsson forseti tölvunarfræðideildar

Frá því að Appolo 11 fór með fyrstu mennina til tunglsins hafa afköst tölva margfaldast meira en tíumilljarð sinnum. Fitbit-úrið á hendinni á mér er margfalt afkastameira en allar tölvur heimsins á þeim tíma og vegur nokkur grömm.

Tími bókasafna, prentmiðla og símaklefa er liðinn

Tölvunarfræði hefur umvarpast á sama tíma. Frá því að vera sérfræðigrein fárra nörda, hefur tölvutækni á einni kynslóð umbylt heiminum svo að nemendur sem hófu nám við tölvunarfræði í haust geta ekki ímyndað sér það samfélag sem foreldrar þeirra ólust upp í. Liðinn er tími bókasafna, prentmiðla og símaklefa. Í sítengdri veröld samfélagsmiðla, hefur áður torsótt aðgengi að upplýsingum breyst í suð falsfrétta og sérsniðinna skilaboða til að stýra hegðun grandalausra notanda. Allir nýnemar mæta með kjöltutölvu og snjallsíma – smábörn nýta sér iPad. Tölvutækni er í dag forsenda framfara á flestum sviðum, hvort sem er í heilbrigðisgreinum, viðskiptum eða vísindarannsóknum.

Breytingar undanfarinna ára eru einungis upphafið

En ef breytingar síðustu áratuga eru miklar, eru þær einungis upphafið að því sem koma skal. Margir telja að framundan séu meiri tæknibreytingar en nokkru sinni fyrr, knúnar áfram af gervigreind, gagnvirkum (sýndar)veruleika internettengdra hluta, og bálkakeðjum. Stjórnvöld, fyrirtæki og hagsmunahópar nýta gagnagnótt Internetsins til að fá skýrari mynd af okkur, skoðunum okkar og áhugamálum, en við sjáum sjálf þegar við horfum í spegillinn. Innan tíðar æða um götur borgarinnar sjálfkeyrandi bílar að sækja börnin á fótboltaæfingu og taka með sér pizzu á leiðinni heim. Í stað snjallsíma, netbanka og fésbókarsíðna hverfur tæknin og netþjónusturnar og fléttast þess í stað inn í veruleikann þar sem raunumhverfi og „sýndarskynjun“ er samofin í nýja upplifun, án meðvitaðrar aðkomu notandans. Ef samfélagsmiðlar hafa breytt samfélaginu sem við lifum í, mun þessi samofni (sýndar)veruleiki endurskilgreina hvað samfélag er.

Falleg stærðfræði í forritunarmálum

Stór hluti af velgengni og vaxtarhraða tölvutækni og tölvunarfræði er að engin grein nýtir tölvutækni betur en einmitt tölvutækni. Einhver fallegasta stærðfræði mannkynsins liggur að baki þýðendum forritunarmála. Eitt fyrsta forritunarmálið grunnað á þessari stærðfræði, C, er þýtt með þýðendum sem skrifuð eru í: C. Nútíma hugbúnaðarþróun fer fram í þróunarumhverfi sem væri óhugsandi að smíða nema nýta tölvunarfræði til hins ítrasta. Þegar System 370 stýrikerfið var kynnt af IBM 1970, var því slegið fram að í því fælist meira hugverk (e. intellectual property) en allt annað sem mannkynið hefði gert samanlagt frá upphafi. Í dag geyma lokaverkefni nemenda í tölvunarfræði umtalsvert meira hugverk.

Tölvunarfræðin að breytast úr stærðfræði í verkfræði

En um leið og tölvutækni mótar framtíð allra þátta samfélagins, verður greinin að taka tillit til þarfa og takmarkana sem ekki er hægt að mæla eða meta með stærðfræðilegum aðferðum. Á meðan Appolo 11 hafði það eina markmið að komast til tunglsins og til baka, þurfa sjálfkeyrandi bílar morgundagsins að mæta mismunandi þörfum notenda og virka við breytilegar og að hluta til ófyrirsjáanlegar aðstæður í óþekktu umhverfi. Hver þorir að láta sjálfkeyrandi Tesluna skutla dóttur sinni á fótboltaæfingu? Með sama hætti þarf heimilishjálp framtíðarinnar (sem augljóslega verður vélmenni) að vera þægileg í umgengni og skilningsrík við aldraða. Tölvunarfræði er að breytast úr hreinni vísindagrein þar sem strjál stærðfræði, forritunarmál og reiknanleiki ríkja, yfir í hagnýta verkfræðigrein þar sem sýndarbreytt (e. augmented) upplifun okkar vegur þyngra en nýtni og bestun. Í ljósi þessa er það mikil áskorun að kenna næstu kynslóð tölvunarfræðinga.

Tölvunarfræðideild HR mætir þessum breytingum

Til að mæta þessum breytingum er tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík að gera viðamiklar breytingar á námskrá og kennsluháttum með það að leiðarljósi að þjálfa nemendur í þeirri færni sem þarf til að smíða lausnir framtíðarinnar. Í öllum greinum háskóla eru prófessorar afreksmenn á sínu sviði og því er freistandi að álykta að það að kenna það sem þeir lærðu, búi til afreksfólk. Í heimi hraðra breytinga er það ekki ljóst. Margt af því sem áður var nauðsynleg undirstaða er í dag þekktar lausnir. Í þriggja ára námi verður að velja og hafna – að kenna eitt námskeið er að hafna öðru. Námskröfurnar endurspegla forgangsröð þeirrar þekkingar sem krafist er af útskrifuðum nemendum. Á sama hátt og námskrá tæknigreina fyrir tuttugu eða þrjátíu árum miðaðist við að smíða lausnir þess tíma, þarf námskrá framsækins háskóla að tryggja færni nemenda til að glíma við nútímann og horfa til framtíðar. Að sama skapi verða fagfélög og lögvernduð starfsheiti að aðlagast eða hætta að öðrum kosti að skipta máli og deyja út.

Forritun er undirstaða tölvunarfræði

Í tölvunarfræði við HR hefur ávallt verið lögð áhersla á verkefnamiðað nám, þar sem fræðin eru hagnýtt til að smíða lausnir, gera tilraunir og læra af mistökum. Forritun er táknmál tölvunarfræðinga – hvort sem nemendur síðar leggja áherslu á hönnun, viðmót notenda eða jafnvel vellíðan, er forritun undirstöðugrein tölvunarfræði. Í dag er fyrsta forritunarnámskeiðið kennt með nýjum hætti, þar sem hópur kennara leiðbeinir nemendum í verklegum tímum í stað fyrirlestra (e. flipped classroom). Á sama tíma býðst nemendum nú að taka áherslusvið utan tölvunarfræðinnar, s.s. á sviði íþróttafræði, sálfræði, lögfræði eða heilbrigðisfræði, auk aukagreinar í viðskiptafræði. Vænta má að þessum sviðum fjölgi. Þessi áherslusvið bætast við þá sérhæfingu sem í boði er innan tölvunarfræðinnar, svo sem á sviði leikjasmíði, gervigreindar og máltækni. Námið breytist til að mæta breyttum þörfum atvinnulífsins, bæði þess sem er, en ekki síður þess sem koma skal. Við tölvunarfræðingar eigum stefnumót við framtíðina, sem byrjar á morgun. Í ólgusjó breytinganna sitjum við við stýrið. Því fylgir mikil ábyrgð. Því fylgir mikil spenna. En helst af öllu, því fylgir mikið stuð!