Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Samuel Perkin situr í stjórnstöð Landsnets

Kom til Íslands frá Ástralíu til að læra um endurnýjanlega orkugjafa

Samuel Perkin er frá Adelaide í Ástralíu. Hann kom til Háskólans í Reykjavík til að læra orkuvísindi við Iceland School of Energy en stundar núna doktorsnám í verkfræði við tækni- og verkfræðideild. Hann tekur þátt í stóru verkefni á vegum Evrópusambandsins sem heitir GARPUR, en hann vinnur það í samstarfi við Landsnet.

Reiknilíkön sem auka öryggi raforkukerfisins

Orkukerfi eru flókin og verða sífellt flóknari á sama tíma og við, og samfélagið í heild sinni, krefst þess að fá rafmagn án truflunar og helst að það sé framleitt á umhverfisvænan máta.  Dreifingaraðilar þurfa að stækka kerfið og koma í veg fyrir að það geti orðið rafmagnslaust og á sama tíma taka tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki síst umhverfissjónarmiða. „Áhættugreining er lykilþáttur í að gera mögulegt að hleypa fleiri endurnýjanlegum orkugjöfum inn á raforkukerfin og að geta miðlað upplýsingum um dreifinguna og þróun flutningskerfisins til notenda,“ segir Samuel um verkefni sitt með Landsneti. Markmiðið er að auka öryggi í flutningi á raforku, til dæmis þegar óveður geysa eða bilanir verða. „Nánar tiltekið er ég að rannsaka áhættumat í rauntíma út frá stærðfræðilegu og tæknilegu sjónarhorni. Ég geri líkan af áhættunni sem steðjar af hinu fjölbreytilega íslenska veðufari í þessu nýja áhættumati sem verið er að þróa innan Landsnets.“

Prófanir framundan

Það eru margir sem koma að svona stóru verkefni, til dæmis vísindamenn frá Danmörku og  Finnlandi og Samuel hefur heimsótt Norska tækniháskólann, NTNU, og Háskólann í Liege í Belgíu til að vinna með öðrum vísindamönnum í verkefninu. Fyrir hönd HR koma að því, auk Samuel, Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptadeild og Ewa Ryszarda Lazarczyk Carlson, lektor við sömu deild. Á næstu mánuðum munu Samuel og samstarfsfólk hans gefa út skýrslur um aðferðir til áreiðanleika, eða reliability methods, og hefja prófanir hjá Landsneti. Þá munu þau prófa þessa nýju aðferðafræði í því sem næst raunverulegum aðstæðum til að ganga úr skugga um að tillögur þeirra séu skynsamar.

„Að vinna að svona verkefni er hreint út sagt frábært. Ég næ að setja hagnýtar undirstöður undir alla rannsóknarvinnuna og ég hef lært mikið um flutningskerfi. Ég hef öðlast nýtt sjónarhorn á það hvernig brúa má bilið milli háskólaumhverfisins og atvinnulífsins, sem hefur verið afar nytsamlegt.“