Mikilvægt að standa með
sínum gildum
„Markmiðið er að nemendur hugsi ávallt um það þegar út í atvinnulífið er komið hvernig þeir geti bætt samfélagið“
Samfélagsleg ábyrgð er hugtak sem oft heyrist nefnt og þá oft í tengslum við starfsemi fyrirtækja. Samfélagsleg ábyrgð á sér þó fjölmargar hliðar. Í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík er hugtakið samofið kennslu og annarri starfsemi.
„Við viljum að nemendur okkar taki siðferðislega réttar ákvarðanir,“ segir Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, aðjúnkt við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og verkefnastjóri samfélagslegrar ábyrgðar við deildina. Þannig tekur hún saman í örfáum orðum stefnu viðskiptadeildar varðandi menntun ábyrgra viðskiptafræðinga og stjórnenda. Hún segir markmiðið vera að nemendur hugsi ávallt um það þegar út í atvinnulífið er komið hvernig þeir geti bætt samfélagið, þá annaðhvort sitt nærsamfélag eða á heimsvísu. „Það sem við stefnum að númer eitt, tvö og þrjú er að nemendur okkar hugsi út í þessi mál.“
Nemendur í grunnnámi í viðskiptafræði ljúka skyldunámskeiði á öðru ári sem kennt er af Katli Berg Magnússyni, framkvæmdastjóra Festu sem er félag um samfélagslega ábyrgð. Í árlegum skyldukúrsi um nýsköpun og stofnun fyrirtækja eru veitt sérstök verðlaun fyrir hugmynd sem stuðlar að aukinni samfélagslegri ábyrgð. Í vor var það gerð smáforrits sem ætlað er að draga úr snjallsímanotkun við akstur með því að læsa símanum þegar ferðast er á meira en 10 km/klst hraða sem hlaut þá viðurkenningu. „Það er líka afar mikilvægt að nýsköpun taki tillit til þess hvernig hún getur bætt samfélagið eða haft góð áhrif á umhverfið,“ segir Guðrún.
Viljum að kennarar beiti gagnrýnni hugsun
Hún segir samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og einstaklinga tengjast menntun ekki síður en umhverfismálum og jafnrétti. „Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi, eins og segir orðrétt í stefnu háskólans. Við erum því að starfa eftir okkar stefnu sem menntastofnunar og virða gildi okkar með því að halda þessum málum á lofti í kennslu.“ Meðal þess sem Guðrún sinnir er formleg athugun á því hvernig kennarar við deildina fjalla um samfélagsábyrgð í sínum námskeiðum. Þetta gerir hún með viðtölum við kennarana. Deildin hefur jafnframt haldið starfsdag þar sem fenginn var sérfræðingur frá viðskiptaháskólanum CBS í Kaupmannahöfn til að leiðbeina starfsliðinu. En á þetta alltaf við? Hvað með kennslu í stærðfræði? „Það er alltaf hægt að hafa þetta í huga við kennslu!“ segir Guðrún áhugasöm. „Til dæmis, hvernig notarðu gögn á ábyrgan máta? Við viljum að kennarar beiti gagnrýnni hugsun í einu og öllu og það á við í hverju einasta námskeiði.“
Á sérstaklega við á gráum svæðum
Tilgangurinn með því að miðla hugmyndum varðandi ábyrgð gagnvart samfélaginu er ekki síst sá að undirbúa nemendur fyrir ákvörðunartöku. „Þetta á við þegar þau verða stödd á þessum svokölluðu gráu svæðum. Það eru mörg tilvik þar sem þú, bæði sem manneskja, hvort sem þú ert viðskiptafræðingur eða ekki, þarft að taka ákvörðun um mál sem lögin ná ekki yfir.“ En er hægt að kenna gott siðferði? „Þetta er milljón dollara spurningin!“ segir Guðrún hlæjandi, og það er greinilegt að þeirri spurningu hefur hún oft þurft að svara. „Þetta er svo margslungið. Til dæmis, hvernig áhrif hefur yfirmaðurinn? Er ekki erfitt að mæla gegn honum? Þegar allt kemur til alls snýst þetta um að standa með sínum gildum. Við sem háskóli erum að standa með okkar gildum með því að leggja vinnu og tíma í að halda samfélagslegri ábyrgð á lofti í kennslu. Við viljum að fyrrum nemendum hugsi til HR og segi: Ég man að í HR fengum við þjálfun í að taka ábyrgar ákvarðanir. Það gæti aðstoðað þau við að taka réttar ákvarðanir ef þau finna sig í erfiðum aðstæðum.“ Guðrún vísar í orð Clayton M. Christensen sem er vel þekktur fræðimaður á sviði stjórnendamenntunar. „Hann sagði að það væri auðveldara að standa 100% með sínum gildum. Hann sagði að um leið og þú gefur eftir, segjum niður í 98% þá er næsta skref alltaf auðveldara. Margar frægar, rangar ákvarðanir byrja á því að fólk færir línuna aðeins og færir hana svo sífellt lengra.“
Samstarf Sameinuðu þjóðanna um ábyrga stjórnendamenntun
Guðrún heldur jafnframt utan um samstarf viðskiptadeildar við Sameinuðu þjóðirnar sem nefnist PRME en deildin skrifaði undir samninginn árið 2012. PRME stendur fyrir Principles for Responsible Management Education og þar eru sett fram sex grundvallarmarkmið sem viðskiptadeild vinnur markvisst að.