Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Tveir nemendur eru í sjómanni í Sólinni

Nemendur léku hlutverk hagsmunaaðila

Hvernig komast um 30 nemendur frá öllum heimshonrum að því hvort bygging nýrrar vatnsaflsvirkjunar á suðausturhorni Íslands sé arðbær og góð hugmynd?

Nemendur í sumarskóla Iceland School of Energy (ISE) við Háskólann í Reykjavík koma hvaðanæva að til að kynna sér notkun endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi. Í sumar var kynnt fyrir hópnum ný vatnsaflsvirkjun á hálendinu á suðausturhluta landsins, framkvæmd sem var aðeins til á pappírnum. Það var í höndum um 30 nemenda sumarskóla ISE að taka ákvörðun um hvort gefa ætti þessari ímynduðu framkvæmd grænt ljós eða ekki. Farin var nýstárleg leið til að komast að niðurstöðu en kennarar í sumarskólanum létu nemendurna fara í hlutverkaleik. Það var David C. Finger, lektor við tækni- og verkfræðideild HR, sem hafði umsjón með verkefninu og það var unnið í samstarfi við Veðurstofu Íslands and Orkustofnun.

Nemendur við sumarskólann, rétt eins og í meistaranámi við Iceland School of Energy, eru með afar fjölbreyttan bakgrunn. Sumir hafa lært verkfræði, aðrir lög eða stjórnmálafræði svo fátt eitt sé nefnt. Þessum fjölbreytta hópi var skipað í tíu hópa af handahófi. Hverjum hópi var úthlutað ákveðnum málstað og þurftu meðlimir hópsins að kynna sér alla málavöxtu og semja við aðra þátttakendur í leoknum með hagsmuni síns hóps að leiðarljósi. Hóparnir áttu í samræðum og samningaviðræðum sín á milli og að lokum var kosið um framkvæmdina. Hver hópur fékk eins raunhæft vægi í kosningunum og mögulegt þótti, þannig fengu fulltrúar íbúa og stjórnmálamanna meira vægi en erlendrahagsmunaaðila. Markmiðið var að ná niðurstöðu í málið sem flestir gætu sætt sig við. Það fór svo að framkvæmdinni var gefið grænt ljós.

ISE_sumarskoliNemendurnir í sumarskóla ISE árið 2016.

Sauðfjárbændur og erlendir stjórnendur

Eftir því sem nemendurnir kynntu sér málið betur fóru þeir að samsama sig þeim hagsmunaaðilum sem þeir tilheyrðu. Það tókst mjög vel að nota hlutverkaleikinn til að fá nemendur út fyrir þægindarammann og taka að sér hlutverk sauðfjárbónda eða stjórnanda í alþjóðlegu stórfyrirtæki. Með hlutverkaleiknum fengu nemendurnir tækifæri til að kynna sér málin vel, bæði út frá sínu sjónarhorni og annarra. Það eru enda ótal margar hliðar á nýjum framkvæmdum til orkuframleiðslu og mikilvægt að sem mest sátt ríki um slík verkefni.

Hagsmunaaðilarnir voru:

  • Erlendir fjárfestar
  • Orkufyrirtæki
  • Hagsmunahópur alþjóðlegra aðila (European Energy Council)
  • Ferðaþjónustufyrirtæki
  • Útgerð
  • Umhverfisverndarsamtök
  • Stjórnsýslan
  • Íbúar svæðisins
  • Bændur
  • Fulltrúar náttúruferðamennsku (ecotourism)

 

Minnti á kappræður

Laurie Anton kom frá Kanada til Íslands til að læra um endurnýjanlega orkugjafa við ISE og leggur stund á meistaranám í námsbrautinni Sustainable Energy Engineering. Hann var nemandi við sumarskóla ISE og tók þátt í hlutverkaleiknum. „Við þurftum að tala við aðra hópa en þurftum líka að eiga í samningaviðræðum innan okkar hóps og þessar samræður voru mjög áhugaverðar. Ég átti að vera samþykkur framkvæmdinni sem fjárfestir en svo kom ýmislegt í ljós sem fékk mig til að hugsa mig tvisvar um. Fjárfestar áttu að greiða bætur fyrir fækkun ferðamanna en mér fannst það ósanngjarnt.“ Hann segir þetta dæmi sýna hversu góð aðferð hlutverkaleikur sé til að skoða mál frá öllum, og jafnvel óvæntum, sjónarhornum. Allt frá áherslu Djúpavogs á slow living að áhyggjum bænda af áhrifum á nærumhverfið. „Þetta sýnir bara að áður en lagt er í svona fjárfestingu verður að vera búið að gera ráð fyrir öllu.“ Hann segir það hafa verið áhugavert að þurfa að byggja ákvörðun á öðru en tæknilegum atriðum, en Laurie er menntaður í stærðfræðilegri eðlisfræði. „Þetta minnti mig á kappræðuliðin sem eru við kanadíska háskóla þar sem þú berst fyrir ákveðnu efni og þarft að kynna þér það frá a til ö.“

Urðu að horfast í augu við eigin skoðanir og fordóma

Marie Lovise Ve er frá Noregi og leggur eins og Laurie stund á meistaranám í Sustainable Energy Engineering við ISE. Hún er orkuverkfræðingur og vill í framtíðinni sérhæfa sig í vindorku og orkukerfum. Hún var einnig nemandi við sumarskóla ISE. „Við Laurie vorum á öndverðum meiði, hann var fjárfestir og ég umhverfisverndarsinni. Þetta eru aðstæður sem oft skapast þegar svona framkvæmdir eru ræddar. Mér fannst þessi hugmynd afar spennandi þó hún væri bara á blaði. Ég var mjög áhugasöm um allt verkefnið og fannst það áhugavert þó að mér hafi fundist að ákveðnir hlutar framkvæmdarinnar hafi ekki verið nógu vel ígrundaðir. Hlutverkaleikurinn krafðist þess af okkur að við horfðumst í augu við okkar eigin skoðanir og jafnvel fordóma.“ Hún segir eitt og annað hafa komið sér á óvart. „Það fór í gang ákveðinn lobbýismi, bæði milli hópa og jafnvel innan hópanna líka. Það sá ég ekki fyrir! Við eigum samt öll sameiginlegt að vilja stuðla að aukinni notkun á umhverfisvænni orku í okkar heimalöndum. Þá munum við þurfa að eiga í samræðum við ýmsa hópa með mismunandi skoðanir, þetta var því fyrirtaks æfing.“