Hugvitið
í fyrsta sæti
Markmiðið er að nemendur
kynnist nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi
Nemendur á fyrsta ári við Háskólann í Reykjavík þurfa að reiða sig á hugvitið í þriggja vikna skyldunámskeiði sem heitir Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Námskeiðið er eitt af mörgum þriggja vikna námskeiðum sem haldin eru í HR að loknum prófum á vorönn. Með verklegum námskeiðum gefst nemendum í öllum deildum og á öllum námsstigum í grunnnámi tækifæri til að vinna saman og nýta lærdóminn í raunhæfum verkefnum.
Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskipta- og hagfræði við viðskiptadeild, hefur umsjón með námskeiðinu ásamt starfsmönnum Icelandic Startups nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs. ,,Markmiðið er að nemendur kynnist nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og þrói með sér frumkvöðlaanda. Námskeiðið veitir nemendum þekkingu sem nýtist þegar út í atvinnulífið er komið sem og hæfni sem er til þess fallin að skapa störf í samfélaginu,“ segir Hrefna.
Þurfa að gera frumgerð að nýrri vöru
Nemendur vinna í þverfaglegum hópum og leggja fram vandaða viðskiptaáætlun sem er þróuð eftir að viðskiptahugmynd er fundin. Í einum hópi koma saman nemendur úr mismunandi deildum, þannig vinna til dæmis nemendur úr viðskiptafræði, lögfræði, verkfræði og sálfræði saman í einum og sama hópnum. Mikilvægt er að nemendur nái að gera frumgerð af hugmyndinni og komist eins langt og þau geta með verkefnið. Hóparnir kynna svo hugmyndir sínar og greina frá framgangi verkefnisins reglulega. Verkefnin eru metin af kennara viðskiptadeildar, fulltrúum sprotafyrirtækja, ráðgjöfum (eða ,,mentorum“) og starfsmönnum Icelandic Startups.
Hrefna Briem hlýðir á góða hugmynd ásamt samstarfsfélaga sínum frá Icelandic Startups.
Námskeiðinu lýkur með verðlaunaathöfn í Sólinni þar sem þrír hópar eru tilnefndir til svokallaðra Guðfinnuverðlauna og auk þess fær einn hópur viðurkenningu fyrir hugmynd þar sem samfélagsleg ábyrgð er höfð í fyrirrúmi. Sjóður verðlaunanna var stofnaður árið 2007 með það að markmiði að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun nemenda við HR. ,,Verðlaunin eru veitt einu verkefni ár hvert fyrir bestu hugmyndina sem líkleg er til að þróast og vaxa og er valin úr hópi nokkurra tilnefndra verkefna“ segir Hrefna. Þær hugmyndir sem hlutu tilnefningar til Guðfinnuverðlauna árið 2016 voru:
Quicksaver
Búnaður sem skynjar veltur og högg á bíl og sendir neyðarboð til neyðarlínunnar ef bíll lendir í árekstri eða veltu.
Sonar Drone
Drónar sem leita að nákvæmri staðsetningu fiskimiða og spara þannig útgerðum tíma og kostnað.
DontDrive&Die
App sem ætlað er að draga úr snjallsímanotkun við akstur með því að læsa símanum þegar ferðast er á meira en 10 km/klst hraða. Hópurinn hlaut verðlaun fyrir hugmynd sem stuðlar að aukinni samfélagslegri ábyrgð.
Eftirhyggjubókin
Þetta var ein hugmyndanna sem þótti skara fram úr þeim fjölmörgu sem komu fram í námskeiðinu. Í september síðastliðnum voru Guðfinnuverðlaunin veitt, en þau eru afhent á hverju ári fyrir framúrskarandi viðskiptahugmynd sem nemendur hafa þróað sjálfir. Það var hópurinn sem stóð að Eftirhyggjubókinni sem hlaut verðlaunin í ár. Í hópnum eru nemendur í viðskiptafræði, tölvunarfræði og sálfræði við HR, þau Aníta Ýr Ævarsóttir, Baldur Abraham Ólafarson, Súsanna Edith Guðlaugsdóttir og Valgeir Hrafn Snorrason.
Eftirhyggjubókin er smáforrit fyrir einstaklinga með langvarandi taugasjúkdóm. Forritinu er ætlað að fylgjast með liðan sjúklinga, auka eftirfylgni með einkennum og jafna lyfjanotkun og er einskonar dagbók fyrir sjúklinga og lækna.