Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Margrét Lilja stendur á gangi í HR og horfir í myndavélina

Rannsakar jafnrétti í íþróttum

Rannsókn í fókus: Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðideild

Hvað ert þú að rannsaka?

Ég vinn með Bjarna Má Magnússyni, dósent við lagadeild HR og Hafrúnu Kristjánsdóttur, forseta íþróttafræðideildar, að ítarlegri úttekt á stöðu jafnréttismála í íþróttum. Við erum að skoða hvaða reglur gilda um jafnrétti kynjanna í íþróttum, hvort styrktaraðilar leggi jafnréttisviðmið til grundvallar fjárveitingum og hver staða jafnréttismála sé innan íþróttasambanda og -félaga. Rannsóknin er jafnframt liður í úrbótum á lagalegu umhverfi jafnréttismála hér á landi en ekkert hefur verið skrifað um lagalegar skuldbindingar ríkisins og sveitarfélaga til að tryggja jafnrétti í íþróttum í íslenskri lögfræði.

Af hverju?

Til að varpa ljósi á núverandi stöðu kynjanna á sviði sem lítt hefur verið rannsakað. Verkefnið er til þess fallið að vinna gegn launamuni kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu með því að draga fram upplýsingar sem leikmenn og þjálfarar geta nýtt sér í samningaviðræðum við íþróttafélög.

Hverju munu rannsóknir ykkar breyta?

Ef niðurstaðan er sú að bæta þurfi stöðu jafnréttismála í íþróttum þá kemur rannsóknin vonandi til með að stuðla að slíku. Íþróttastarf á Íslandi er faglegt og gott – getum því sagt að hugmyndin sé að gera gott starf enn betra.

Áhugasamir geta fylgst með verkefninu Kynjajafnrétti í íþróttum á Facebook-síðu verkefnisins