Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Heiðdís ljósameðferð2

Rannsakar leyndarmál lífsklukkunar

Það rannsóknarefni sem helst heillar Heiðdísi er innri lífsklukka okkar manna og reyndar allra lífvera en á ensku kallast fyrirbærið circadian clock eða biolocical clock. Það má segja að lífsklukkan okkar sé sveiflugjafi sem hefur áhrif á dægursveiflur í hormónaflæði, svefn-vöku-mynstri o.fl. Þannig hafa dægursveiflur lífsklukkunnar (e. circadian rhythm) mikil áhrif á líkamlegt og andlegt ástand okkar.

Lífsklukkan bara stillt á „off“ 

„Þegar við vöknum hækkar magn hormónsins kortisóls í líkam ­ anum og við fáum orku til að takast á við daginn. Síðan dregur úr magni kortisóls þegar líður á daginn og magn annars hormóns, melatóníns, eykst og þá verðum við þreytt,“ útskýrir Heiðdís. Ásamt samstarfsfólki sínu í New York hefur hún gert tilraunir með einfalda meðferð til að reyna að bæta líðan krabbameins ­ sjúklinga en hún segir það hafa komið í ljós í rannsóknum undanfarin ár að krabbamein virðist raska dægursveiflunni hjá sjúklingum. „Hjá þeim eykst til dæmis kortisól ekki á morgnana heldur er lífsklukkan bara stillt á „off“. Þessu má líkja við það þegar við fáum flugþreytu eftir að hafa ferðast á milli tímabelta.“ 

Klínísk síþreyta hvarf við ljósameðferð 

Eitt af því mikilvægasta sem stillir lífsklukkuna hjá okkur er ljós. „Við vildum því sjá hvort við gætum notað ljós til að minnka síþreytu hjá þeim sem glíma við krabbamein en síþreyta er mjög algeng meðal krabbameinssjúkra og hefur lamandi áhrif, jafnvel mörgum árum eftir að meðferð við krabbameininu líkur.“ Rann ­ sóknarteymið skipti hópi fólks sem hafði náð sér af krabbameini, en þjáðist af síþreytu, í tvennt á tilviljanakenndan hátt.

Annar hópurinn sat við ljósalampa sem örvaði dægursveiflurnar á meðan hinn hópurinn sat við lampa með daufara ljósi sem hefur ekki sömu áhrif. Hóparnir sátu við ljósin á hverjum morgni í hálftíma í senn í heilan mánuð. Á meðan gat fólkið gert það sem það vildi, til dæmis lesið. „Niður ­ stöðurnar voru ótvíræðar. Þau sem sátu við lampana sem örva dægursveiflurnar voru marktækt minna þreytt en þau sem fengu daufa ljósið. Í byrjun meðferðar voru allir í hópnum með klíníska síþreytu en í lok tímabilsins var klínísk síþreyta ekki til staðar hjá neinum í hópnum sem sat við ljósalampa sem örvaði dægursveiflurnar. Einnig greindust minni svefnvandi og minni þung ­ lyndiseinkenni meðal þessa hóps. Við trúð ­ um varla þessum afgerandi niðurstöðum.“ Í hinum hópnum, með daufara ljósinu, voru 70% þátttakenda enn með síþreytu. Heiðdís setur þann varnagla að rannsóknin hafi ekki verið umfangsmikil. Þess vegna hefur rannsóknarhópurinn hennar fengið styrk frá National Institute of Health í Banda ­ ríkjunum til að gera mun stærri rannsókn. „Við munum rannsaka enn betur áhrif ljóss á dægursveiflurnar og lífsklukkuna, hvernig þetta hefur áhrif á kortisól og melatónín, og hvernig þau hormón hafa áhrif á þunglyndi, svefn og þreytu.“  

Lýsing á sjúkrahúsum hefur áhrif 

Niðurstöður rannsóknarinnar eru hvetjandi því þær renna stoðum undir tilgátur um að jafnvel sé hægt að varna því að síþreyta, þunglyndi og svefnvandi láti á sér kræla á fyrstu stigum krabbameinsmeðferðar. Í nýafstaðinni rannsókn sem gerð var í Banda ­ ríkjunum skoðaði Heiðdís sjúklinga sem gengust undir beinmergsígræðslu og voru í 10 til 12 daga inni á sjúkrahúsi, mikið veikir og í einangrun. Í sumum sjúkrastofunum var komið fyrir lömpum sem örva dægur ­ sveifluna en í öðrum voru hafðir lampar með dauf ljós sem ekki örva dægursveifluna. Kveikt var á lömpunum á morgnana frá klukkan 7 til 10. Fyrstu niðurstöðurnar sýna að þeir sem voru í sjúkrastofu með örvandi ljósi höfðu mun minni þunglyndiseinkenni en hinir sem voru í stofum með daufara ljósi. „Það sem er spennandi við þessar niðurstöður er ekki síst þær vísbendingar sem þær gefa um hvað væri hægt að gera.“ Á spítölum er núna hugsað meira út í andlega vellíðan sjúklinga því hún getur haft áhrif á þróun sjúkdóma eins og krabbameins, Alzheimers og Parkinsons. „Þessar niðurstöður renna enn frekari stoðum undir það að margt er hægt að gera fyrir sjúklinga sem ef til vill krefst ekki mikils kostnaðar eða fyrirhafnar,“ útskýrir Heiðdís sem vonar að niðurstöður hennar geti aukið lífsgæði sjúklinga og haft jákvæð áhrif á meðferðir við sjúkdómum. Til dæmis gætu þær átt þátt í að breyta lýsingu á spítölum og meðferðastofnunum. „Ég vil þó taka fram að ljósameðferð virkar ekki fyrir alla og það er verðugt rannsóknarefni að komast að því fyrir hverja hún virkar og hverja ekki.“ 

Erfitt og streituvaldandi val 

Nú á dögum er aukin áhersla á að sjúklingar taki virkan þátt í vali á krabbameinsmeðferð og Heiðdís hefur áhuga á að aðstoða fólk við val á meðferðarleiðum. „Eftir greiningu, eða á tímabilinu áður en meðferðarleið hefur verið ákveðin, upplifa margir mikla streitu og áhyggjur sem geta haft áhrif á ákvarðanatökuna og jafnvel leitt til þess að ákvörðunin verður ekki nægjanlega ígrunduð.“ Heiðdís hefur unnið að rannsóknum í Bandaríkjunum við hönnun og prófun vefsíðu fyrir konur sem greinast með stökkbreytingar í BRCA1/2 genum sem veldur því að þær eru í aukinni hættu á að fá brjósta- og leghálskrabbamein. Vefsíðan inniheldur upplýsingar um kosti og galla fyrirbyggjandi meðferða, eins og brjóstnáms og eggjastokkanáms, og upplýsingar um þær skimanir og eftirlit sem í boði eru. Samofið upplýsingum síðunnar er innbyggt ákvörðunarferli sem tekur mið af svörum þátttakenda við spurningum um viðhorf þeirra til meðferðarleiða og kosta og galla hverrar meðferðarleiðar fyrir sig. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ákvörðunartækið hjálpaði konunum við að taka upplýsta ákvörðun og þær voru ánægðari með ákvörðunina og upplifðu minni eftirsjá. 

Heiðdís ljósameðferð1

Mögulegar nýjungar í krabbameinsmeðferð 

Ásamt dr. Birnu Baldursdóttur, lektor við sálfræðisvið HR, hefur Heiðdís hlotið styrki, meðal annars frá Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands, til að hanna og prófa svipað ákvörðunartæki fyrir karlmenn á Íslandi sem greinast með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein. Þær eru jafnframt að hefja aðra nýja rannsókn sem hefur hlotið Öndvegisstyrk frá Rannís, hæstu styrkupphæð sem hægt er að fá hjá Rannsóknamiðstöðinni. Sú rannsókn er framhald rannsókna Heiðdísar í Bandaríkjunum. „Við ætlum að skoða áhrif ljósameðferðar á kvíða, svefn og þunglyndi hjá íslenskum konum sem eru með brjóstakrabbamein ásamt því að mæla líffræðilega þætti eins og kortisól, melatónín og ónæmissvörun.“ Niðurstöður þeirrar rannsóknar gætu haft í för með sér nýjungar í krabbameinsmeðferð sem endurstilla lífsklukkuna og bæta líðan sjúklinganna. 

Nútíminn truflar lífsklukkuna 

Heiðdís segir ótal margt eiga eftir að rannsaka þegar kemur að lífsklukkunni og dægursveiflum. „Til dæmis hvernig við hér á Íslandi höfum aðlagast vetrarmyrkrinu.“ Hún segir þetta spennandi rannsóknasvið. „Í dag er margt í umhverfi fólks sem truflar lífsklukkuna, mun meira en dæmi eru um áður í sögunni og það er forvitnilegt að fylgjast með því hvaða áhrif það hefur. Það er allavega af nógu að taka þegar kemur að rannsóknum sem þarf að gera. Það er kannski ekki síst þess vegna sem hver einasti dagur í vinnunni er spennandi og gefandi.“