Rannsakar nýtt millidómstig á Íslandi
Rannsókn í fókus: Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild HR
Hvað ert þú að rannsaka?
„Ég er að skrifa grein í Tímarit Lögréttu um nýtt millidómstig á Íslandi. Dómstólaskipanin hefur lengi verið mér hugleikin enda starfaði ég við dómstólana um 15 ára skeið. Að baki þessum greinarskrifum liggur m.a. rannsókn á dómstólum á millidómstigi í nágrannalöndunum sem ég vann að á árinu 2011 í tengslum við skýrslu vinnuhóps um millidómstig en hún var gefin út í júní 2011. Jafnframt vann ég með innanríkisráðuneytinu að því að semja frumvörp um stofnun millidómstigs og greinargerðir með þeim en þessi frumvörp voru samþykkt sem lög frá Alþingi vorið 2016. Í greininni verður fjallað um grundvallarsjónarmið sem liggja að baki hinni nýju dómstólaskipan og meðferð dómsmála fyrir Landsrétti og Hæstarétti samkvæmt hinni nýju skipan. Jafnframt verður hin nýja dómstólaskipan hér á landi borin saman við dómstólaskipan á hinum Norðurlöndunum.“
Af hverju?
„Dómstólarnir hafa fyrst og fremst það hlutverk að þjóna samfélaginu og tryggja réttaröryggi. Við undirbúning nýrrar löggjafar um dómstólaskipanina þarf ávallt að hafa að leiðarljósi að tryggja að dómstólarnir geti sinnt þessu hlutverki sínu sem best á sem hagkvæmastan hátt. Hin fjölbreytilega dómstólaskipan í heiminum bendir hins vegar til þess að hið fullkomna dómskerfi hafi enn ekki verið skapað. Rannsókn á og umfjöllun um grundvallarhugmyndir að baki hinni nýju dómstólaskipan er því verðugt viðfangsefni.“
Hverju munu rannsóknir þínar breyta?
„Þótt nokkuð efnismiklar greinargerðir hafi fylgt frumvörpum um millidómstig svara lögin eða greinargerðin ekki öllum spurningum um tilurð laganna. Greininni er ætlað að veita innsýn í hvaðan fyrirmyndir að hinni nýju dómstólaskipan voru sóttar og auka skilning á hvers vegna einstaka lausnir voru valdar en öðrum hafnað. Greinin ætti því að varpa skýrara ljósi á ýmsa þætti í hinni nýju löggjöf.“