Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Áslaug Grétarsdóttir

Sérhæfði sig í höfundarétti

„Það er mjög gott tækifæri fyrir lögfræðinga að vinna fyrir sprotafyrirtæki. Þeir fá góðan grunn og reynslu því það eru örar breytingar í starfseminni en á sama tíma þarf allt að vera 100%, allir samningar, leyfi o.fl. og verkefnin því fjölbreytt.”

Áslaug Elín Grétarsdóttir starfar sem lögfræðingur hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud, 45 manna fyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarþróun. Þetta er ef til vill ekki starfsvettvangur sem margir sjá fyrir sér sem dæmigerðan fyrir lögfræðinga.

Áslaug er eini lögfræðingurinn hjá fyrirtækinu og er starfsmaður deildar sem sér um lagaleg mál og viðskiptaþróun. „Ég sé um klassíska samningagerð, leyfissamninga og fleira. Einnig tek ég þátt í að greina samkeppnisaðila og fylgjast með markaðnum.” Áslaug segist alltaf hafa haft áhuga á þessari hlið lögfræðinnar. „Ég hóf starfsferilinn sem lögfræðingur hjá fjármögnunarfyrirtæki og sem sjálfstæður verktaki fyrir sprotafyrirtæki. Það er mjög gott tækifæri fyrir lögfræðinga að vinna fyrir sprotafyrirtæki. Þeir fá góðan grunn og reynslu því það eru örar breytingar í starfseminni en á sama tíma þarf allt að vera 100%, allir samningar, leyfi o.fl. og verkefnin því fjölbreytt.”

Lauk LLM-prófi í Kaliforníu

Eftir að hafa lokið grunn- og meistaranámi við lagadeild Háskólans í Reykjavík hélt Áslaug til Los Angeles til að ljúka LLM-prófi, sem tekur eitt ár. „Námið var við University of Southern California og ég sérhæfði mig í lögum tengdum afþreyingariðnaðinum eða „entertainment law“ en hugverkaréttur og þá sérstaklega höfundaréttur hefur heillað mig lengi. Þessi hlið lögfræðinnar tekur til alls sem viðkemur sköpun eins og þróun og gerð tölvuleikja, hugbúnaðar, kvikmynda og fleiri atriða og það kemur sér mjög vel í starfi mínu núna.“ Hún segir þekkinguna á þessum hliðum atvinnulífsins út frá lagalegu sjónarhorni mikilvæga, enda ótal mörg, og sífellt fleiri, fyrirtæki hér á landi sem þróa vörur og þjónustu sem byggð er á hugviti og sköpun.

Raunhæfu verkefnin í náminu mikilvæg

Í Bandaríkjunum fékk Áslaug aðra sýn á lögfræðina og kynntist öðru réttarkerfi en hinu íslenska. „Núna vinn ég í alþjóðlegu umhverfi, til dæmis eru allir samningar hjá okkur í Greenqloud á ensku. Ég tók kúrs í lagaensku við lagadeild HR sem hefur veitt mér góðan grunn. Námið í HR bjó mig mjög vel undir það sem ég er að fást við núna, og þann hluta lögfræðinnar sem ég hef alltaf haft mestan áhuga á. Eitt sem ég verð að nefna í því sambandi eru raunhæfu verkefnin. Maður sér það alltaf betur og betur hvað þau voru góð og hvað þau nýtast manni vel þegar komið er út á vinnumarkaðinn. HR er vel tengdur viðskiptalífinu og ég tel að sá styrkur HR eigi stóran þátt í að gera nemendur vel undirbúna fyrir atvinnulífið.”