Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Páll Melsteð

Sjálfbær þróun: Er dómsdagur í nánd?

Dr. Páll Melsted Ríkharðsson forseti viðskiptadeildar

Fyrir nokkrum mánuðum gaf Alþjóðabankinn út skýrslu sem nefnist Atlas of Sustainable Development Goals 2018. Þar er að finna tölfræði sem lýsir hvar heimurinn stendur þegar kemur að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Eitt markmið er tekið fyrir í einu og tölfræði kynnt um hvar þjóðir heims standa. Mikill hluti mælikvarðanna sýnir jákvæða þróun á síðustu árum þegar tekið er tillit til þeirra 7,6 milljarða sem búa á jörðinni. Til dæmis ganga fleiri börn í skóla en áður, það er minni fátækt, jafnrétti er að aukast í mörgum löndum, það er minna hungur, færri búa í fátækrahverfum, glæpatíðni hefur lækkað og borgarar fleiri landa hafa aðgang að læknisþjónustu. Hins vegar virðist koltvísýringslosun ekki vera að minnka mikið, það eru enn margar tegundir dýra í útrýmingarhættu og konur eiga minni eignarhluti í fyrirtækjum sem og pólitísk ítök miðað við karlmenn.

Ekki hægt að skipta heiminum í tvennt

Eftir lestur þessarar skýrslu eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Við getum ekki lengur skipt heiminum í tvennt, í iðnvædd lönd og þróunarlönd eða í hinn vestræna heim og alla hina. Í dag gefur það mun réttari mynd af heiminum að skipta honum upp í tekjusvæði eftir meðaltekjum á mánuði. Það er meira samhengi milli þróunar og meðaltekna heldur en heimshluta. Til dæmis lækkar fæðingartíðni þegar meðaltekjur fjölskyldna aukast. Þar sem meðaltekjur íbúa margra landa eru að aukast lækkar fæðingartíðni og það lítur út fyrir að mannfjölgun í heiminum muni stöðvast í kring um 11 milljarða árið 2100.

Yfir 3% hagvöxtur á ári í 33 fátækum löndum

Annað sem stendur upp úr er að mat á jákvæðri eða neikvæðri þróun verður alltaf að taka tillit til mannfjölda og tíma. Þó svo að Kína losi t.d. mestan koltvísýring af öllum löndum heims í heildina, þá eru það Bandaríkin sem losa mest á hvern íbúa – næstum því tvöfalt meira en Kína. Og þó svo að hagvöxtur sveiflist mikið frá ári til árs, hefur hagvöxtur verið yfir 3% á ári að jafnaði í 33 fátækum löndum síðustu tíu ár. Í tólf af þessum löndum hefur hagvöxtur að jafnaði verið yfir 5% á ári og í sjö löndum hefur hagvöxturinn að jafnaði verið 7-10% á ári, síðustu tíu árin.

Fjölmiðlar teikna upp dómsdag

Það getur því verið áhugavert að spá í muninn á fréttum af samfélagsþróun í fjölmiðlum og því sem tölfræðin segir okkur um raunverulega þróun. Við lestur frétta fæ ég oft á tilfinninguna að heimur fari hríðversnandi, dómsdagur sé í nánd og hlutirnir hafi verið miklu betri í gamla daga. CNN fjallaði til dæmis mikið um flóttamannavanda Evrópu fyrir nokkrum vikum með tilheyrandi viðtölum við sérfræðinga og yfirskriftum um „the refugee crisis“. BBC fjallaði um „Gróðurhúsið jörð“ fyrir nokkru og að hætta væri á mikilli eyðileggingu þó að það tækist að minnka koltvísýringslosun í framtíðinni. Guardian skýrði frá því rétt fyrir áramót að ofbeldisglæpum hefði fjölgað í heiminum árið 2016. Samt segir tölfræðin okkur að það séu gríðarlegar framfarir á mörgum sviðum í heiminum, þó vissulega séu enn til staðar miklar áskoranir sem þarf að huga að. Staðreyndin er sú að meirihluti 7,6 milljarða jarðarbúa býr við meira öryggi og lífsgæði en nokkurn tímann áður í mannkynssögunni.

Flestir halda að ástandið sé mun verra en það er

Mörg okkar virðast hins vegar ekki vita af þessu. Fyrir nokkrum mánuðum var gefin út bók eftir dr. Hans Rosling sem heitir Factfulness: Ten Reasons We’re Wrong About The World - And Why Things Are Better Than You Think. Í mörg ár lagði hann spurningar um samfélagsþróun fyrir fjölbreyttar samkomur. Langflestir gestir þessara samkomna reyndust ekki þekkja, eða það sem verra er, hafa ranga sýn á hvar við stöndum. Þar reyndist ekki vera munur á kennurum, Nóbelsverðlaunahöfum, starfsmönnum alþjóðastofnana eða stjórnendum fyrirtækja. Reyndar skrifaði dr. Rosling að hópur apa hefði svarað betur en t.d. Nóbelsverðlaunahafar. Hann nefndi fréttaflutning fjölmiðla sem eina ástæðu fyrir þessari niðurstöðu og að þeir gefi okkur bjagaða mynd af heiminum.

Viljum frekar lesa um neikvæða hluti

Í raun er þó ekki við fjölmiðla að sakast, heldur því hvernig heilinn á okkur virkar. Fjölmiðlar í dag eru í síharðnandi samkeppni um að ná athygli þinni til að þú opnir dagblaðið, horfir á fréttir eða klikkir á hlekkinn á heimasíðunni. Við erum þannig úr garði gerð að athygli okkar dregst að því neikvæða, því einstaka, því sem við hræðumst, því einfalda fremur en því flókna. Við lesum því fremur um eitt flugslys en umfjöllun um að 40 milljónir flugferða á ári endi í öruggri lendingu. Smellum frekar á hlekk um fimm manns sem hafi farist í hryðjuverkaárás, en að nýtt bóluefni bjargi milljón Dr. Páll Melsted Ríkharðsson forseti viðskiptadeildar börnum í Afríku. Nú eða að einn sundkappi hafi verið bitinn af hákarli frekar en að hreinsun á skólpi hafi útrýmt sýkingum af völdum skólps í stórum hluta Asíu. Heilt yfir gefur því lestur okkar á fréttum takmarkaða mynd af raunverulegri stöðu mála og gerir okkur áhyggjufyllri og svartsýnni en ástæður eru til. Heimur fer nefnilega batnandi á mörgum sviðum fyrir meirihluta þeirra 7,6 milljarða sem búa á jörðinni. Þó góður árangur hafi náðst megum við samt ekki sofna á verðinum og það eru enn miklar áskoranir í til dæmis í loftslagsmálum og útrýmingu fátæktar. En það hlýtur að vera betra að vera bjartsýnn á árangur fremur en að búa sig undir dómsdag.