Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Hafrún Kristjánsdóttir stendur upp við vegg í Sólinni og horfir í myndavélina

Snýst allt um eitt augnablik

 „Ég var búin að tala við konuna í þó nokkra stund þegar ég áttaði mig á því að ég var að spjalla við Venus Williams. Hún benti svo á systur sína Serenu sem stóð fyrir aftan hana og sagði að hún vildi endilega fá eina nælu líka.“

Að vera viðstaddur Ólympíuleika er ótrúleg lífsreynsla, segir Hafrún Kristjánsdóttir, sem fylgdi íslensku keppendunum út og hjálpaði þeim að takast á við þetta stóra verkefni. Hún segir Ólympíuþorpið vera heillandi gerviveröld.

Þegar keppt er á stærsta íþróttamóti heims er góður andlegur undirbúningur ómissandi. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur á sínum snærum fagteymi sem í eru læknir, sjúkraþjálfarar og sálfræðingur. Hafrún Kristjánsdóttir, lektor og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs við tækni- og verkfræðideild, er sálfræðingurinn í fagteymi ÍSÍ. Hún tók þátt í undirbúningi íslenska keppnisliðsins fyrir Ólympíuleikana í Ríó í sumar og fylgdi keppendum á leikana. Hún fór einnig nýlega með landsliði Íslands í hópfimleikum á Evrópumeistaramótið í Slóveníu.

Hafrun_EM_hopfimleikumStreituvaldandi aðstæður

„Fagteymið vinnur saman að því að reyna að hámarka líkunar á því að íþróttamennirnir nái að sýna góða frammistöðu og að þeim líði vel líkamlega og andlega” segir Hafrún. Hún segir miklum tíma vera varið í undirbúning löngu áður en leikarnir sjálfir hefjist. „Ég reyni að undirbúa þá íþróttamenn sem ég vinn með sem best fyrir keppnina. Í því getur falist vinna við streitustjórnun, einbeitingu, hugarþjálfun og andlegan undirbúning almennt.“ Hún vinnur mismikið með keppendum, allt eftir þeirra óskum, en aðstæðurnar eru að hennar sögn afar streituvaldandi. „Þetta er langstærsta íþróttamót í heimi. Sem dæmi má nefna að á  heimsmeistaramótinu í knattspyrnu karla eru 18 þúsund blaðamenn en þeir eru 28 þúsund á Ólympíuleikunum. Þetta eru að mörgu leyti erfiðar aðstæður fyrir íþróttafólk og þetta er ekki endilega umhverfi sem er vel til þess fallið að bæta árangur sinn.“

Búin að færa miklar fórnir

Keppendur á Ólympíuleikunum hafa lagt á sig gríðarlega vinnu og í mörgum íþróttagreinum hafa þeir aðeins örstuttan tíma til að sýna hvað í þeim býr. „Ég hef kynnst mörgum þessum krökkum vel í gegnum tíðina. Þau eru búin að stefna að þessu síðan á síðustu leikum eða jafnvel frá því þau byrjuðu að æfa sína íþróttagrein. Þau eru búin að færa ýmsar og miklar fórnir.“ Það er því langur aðdragandi að einu augnabliki, þar sem keppandinn er að fara að hefja keppni. Þarna kemur góður andlegur undirbúningur sér vel. Hafrún er íþróttafólkinu svo líka innan handar við að takast á við frammistöðuna þegar það hefur lokið keppni. Sálfræðingar sem starfa á mótum eins og Ólympíuleikum geta þurft að takast á við ýmsan vanda eins og samskiptavanda og svo geta íþróttamenn meiðst stuttu fyrir keppni. Slíkt getur tekið verulega á andlegu hliðina. Sem betur betur fer voru samskipti innan íslenska hópsins eins og best verður á kosið og engin meiddist á leikunum.

Hafrun_Rio_2Stórkostlegt og stórskrýtið

Þetta var í annað skipti sem Hafrún fylgdi íslensku keppendunum á Ólympíuleikum en hún fór líka til Lundúna árið 2012. „Þetta er alveg stórkostlegt og stórskrýtið á sama tíma. Ég held að enginn geti gert sér grein fyrir því hversu stórt og mikið þetta er án þess að upplifa það á eigin skinni. Þetta eru eiginlega frekar brjálæðislegar aðstæður og þorpið er stórfurðuleg gerviveröld. Þarna búa um 18 þúsund íbúar í einangruðu þorpi og þar af eru um 10 þúsund keppendur. Þetta eru þjálfarar og íþróttafólk frá næstum öllum þjóðum heims og allir merktir sínu landi frá toppi til táar. Í þorpinu er eitt matartjald sem er jafnstórt og fjórir fótboltavellir. Maður fer þangað inn til að borða og situr við hliðina á íþróttafólki úr allskonar greinum og þetta er virkilega skemmtilegt. Svo er bara fallegt hvernig allir sameinast þarna óháð bakgrunni, trúarbrögðum, tungumálum og allri pólitík. Og borða saman.“ Ólympíuþorpið þarf, eins og gefur að skilja, að hafa líkamsræktarstöð. „Það var eiginlega ótrúlegt að æfa þar, ég get ekki lýst því öðruvísi. Þarna er íþróttafólk í rosalegu formi en samt allir svo mismunandi, sumir eru yfir tveir metrar á hæð og sumir undir einum og fimmtíu, og frá 35 kílóum upp í 160. Ég hef komist að því að það er sko ekki til einhver ein týpa af íþróttamanni!“

Upplifun að koma inn í íþróttahallirnar

Íþróttamannvirkin á keppnissvæðinu voru byggð sérstaklega fyrir leikana. Hafrún fór á þá viðburði sem hún gat þegar tækifæri gáfust. „Ég fékk til dæmis tækifæri til að sjá bandaríska körfuknattleiksliðið og úrslitaleikinn í knattspyrnu. Þar unnu Brasilíumenn og stemningin var ólýsanleg. Þessar íþróttahallir eru risastórar og það er upplifun bara að koma inn í þær.“ Í Ólympíuþorpinu í Ríó voru byggðar 15 hæða blokkir, 32 talsins, sem stendur til að selja sem lúxusíbúðir. „Svo sér maður fátækrahverfin rétt fyrir utan þetta nýja, tilbúna þorp þannig að maður gerir sér vel grein fyrir hvað þetta er mikil gerviveröld.“ Þrátt fyrir töfra Ólympíuleikanna getur líf innan þorpsins líka tekið á. “Það getur verið þreytandi að búa á svona stað í þrjár vikur. Maður býr ekki á hóteli heldur í íbúð með öðru fólki þannig að það er mikilvægt að hafa gott skipulag á hlutunum, sem reyndar var raunin hjá okkur. Það er mikil öryggisgæsla á svæðinu og í hvert skipti sem þú ætlar að fara inn eða út úr Ólympíuþorpinu er eins og þú sért að fara í flug, þú þarft að taka af þér úrið og beltið allt það. Svo fór mikill tími í að koma sér á milli staða í rútu.”

Skiptust á nælum við Williams-systur

Þegar hún er spurð um einhver sérstaklega eftirminnileg atvik hlær Hafrún og segir að eitt standi upp úr. „Það er hefð að allir séu með passa sem hangir um hálsinn. Í bandinu um hálsinn er fólk í Ólympíþorpinu svo með nælur frá sínu landi og margir skiptast á nælum til að eiga sem minjagripi. Ég og Unnur Sædís sjúkraþjálfari vorum á labbi einn daginn í þorpinu og þá stoppaði mig kona sem vildi endilega fá nælu frá Íslandi. Ég var búin að tala við hana í þó nokkra stund þegar ég áttaði mig á því að ég var að spjalla við Venus Williams. Hún benti svo á systur sína Serenu sem stóð fyrir aftan hana og sagði að hún vildi endilega fá eina nælu líka. Ég lét þær því fá sitt hvora og fékk nælu frá þeim á móti!”