Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Pakkningar Wild Icelandic Cod, vinningshafi Hnakkaþons HR og SFS 2017

Sous-vide þorskur í umhverfisvænum umbúðum

Sigurtillaga Hnakkaþons 2017 var „Wild Icelandic Cod“, hugarsmíð nemenda í viðskiptafræði og fjármálaverkfræði. Vinningsliðið var skipað Sigurði Guðmundssyni, Jóhannesi Hilmarssyni, Bjarka Þór Friðleifssyni, Ómari Sindra Jóhannssyni og Fannari Erni Arnarssyni. var markmiðið að hanna og útfæra leið til þess að pakka fisk, veiddum við Íslandsstrendur, í neytendavænar pakkningar fyrir sjávarútvegsfyrirtækið Vísi í Grindavík. Einnig áttu keppendur að hafa umhverfisvænar leiðir að markmiði að sjónarmiði.

Geymslutíminn tvöfaldast

„Lausnin okkar á þessu var að finna leið til þess að pakka þorskflökum í lofttæmdar umbúðir þannig að hægt sé að setja þau beint í vatn við ákveðið hitastig, þessi svokallaða Sous-Vide eldamennska. Svo er bara klippt á plastið eftir ákveðinn tíma og fiskurinn er tilbúinn til neyslu,“ segir Jóhannes Hilmarsson sem settist niður með okkur ásamt félaga sínum Sigurði Guðmundssyni. „Við vorum síðan með aukafítusa eins og til dæmis hvernig við pökkum flökunum inn og hvernig við sendum þau út. Við sendum þau til dæmis út í pappakassa í stað frauðplastkassa. Vanalega er fiskur sendur út í frauðplastkössum en af því að við vorum búnir að pakka flökunum inn þá fundum við aðra leið sem er umhverfisvænni,“ segir Sigurður og Jóhannes bætir við að geymslutíminn í verslunum um það bil tvöfaldast þegar þessi aðferð er notuð.

Wild Icelandic Cod vinningshópurinn situr í tröppum HR með blómvendi í höndWild Icelandic Cod vinningshópurinn

Enginn snertir fiskinn

Annað sem Vísir og flest önnur sjávarútvegsfyrirtæki horfa mikið til er að fiskurinn sé ekki snertur af mannshendinni. „Fiskurinn er veiddur og fer strax í vélar þar sem hann er flakaður, skorinn og beinhreinsaður og við bættum við ferlið skrefi sem vélar sjá einnig um. Það er því ekki ein manneskja sem snertir fiskinn beint frá því hann er veiddur og þar til hann er kominn á diskinn,“ segir Jóhannes.

Rekjanlegur kóði á pakkningum

Félagarnir lögðu áherslu á umhverfisvænar pakkningar í tillögum sínum, en ekki síður rekjanleikann. „Verkefnið var að koma fisknum á Bandaríkjamarkað en þar er rekjanleiki fisks stórt vandamál. Því er til dæmis ekki að treysta á veitingastöðum að þú fáir ekki einhvern allt annan fisk en þú pantaðir af matseðlinum. Við pældum mikið í því hvernig væri hægt að bæta þetta og bættum því QR kóða við umbúðirnar sem hægt er að skanna og sjá nákvæmlega hvenær fiskurinn var veiddur og hvar, við hvaða hitastig sjórinn var og hvaða skip veiddi hann. Vísir er með mjög nákvæmt kerfi þar sem hægt er að sjá þetta og við vildum bæta því við umbúðirnar,“ segir Jóhannes. Umsagnirnar sem verkefnið fékk voru afar jákvæðar og var sér í lagi tekið tillit til þess hversu heildstætt og fullmótað það var.

Portland heillandi

Öll þessi vinna, frá glænýrri til fullmótaðrar hugmyndar, fer fram á einungis tveimur dögum. Þessir dagar reyna á en verðlaunin sem vinningsliðið hlýtur gerir vinnuna þess virði; heimsókn á Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku í Boston. Um það bil mánuði eftir Hnakkaþonið lagði hópurinn af stað ásamt fríðu föruneyti frá HR og Bandaríska sendiráðinu.

Ferðalagið hófst í Portland Maine. „Við heimsóttum University of Southern Maine þar sem við vorum einskonar sendiherrar nemenda og hittum til dæmis nemendur sem eru á leiðinni hingað í HR í skiptinám. Brian hjá Bandaríska sendiráðinu var búinn að plana ferðina frá A-Ö og hún var ótrúlega vel skipulögð. Við fórum á fjölmarga fundi bæði hjá fyrirtækjum og stjórnmálamönnum,“ segir Jóhannes. Þeir voru heillaðir af Portland þrátt fyrir smæð bæjarins á íslenskan mælikvarða, þar búa helmingi færri en í Reykjavík. „Þetta er bara ótrúlega skemmtilegur bær og þarna voru til dæmis einhverjir bestu veitingastaðir sem við höfum farið á. Ég væri alveg til í að fara þangað aftur, “ segir Sigurður. 

Stanslaust á fundum

Þegar heimsókninni til Portland lauk fór hópurinn á sýninguna í Boston þar sem þeir gengu milli bása og kynntu sig auk þess sem þeir fóru á fundi með helstu sjávarútvegskóngum bransans. Þeir fengu þó stund milli stríða og náðu að njóta alls hins besta, enda voru dagpeningar innifaldir í vinningnum og gátu þeir því gert vel við sig í mat og drykk. „Ég er ekkert viss um að ferðin hefði verið mikið skemmtilegri þó við hefðum farið á eigin vegum og haft allt frjálst. Við vorum á fundum stanslaust frá níu til sex og svo áttum við frjálsa stund. Það er líka skemmtileg upplifun að fara í svona ferð og þurfa ekki að hugsa fyrir neinu,“ segir Sigurður.

Horft yfir sjávarútvegssýningarsvæðið í BostonSjávarútvegssýningin í Boston

 

 


Hvað er Hnakkaþon?

Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Keppnin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og er opin öllum nemendum HR.