Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Agnes situr á strönd og horfir í myndavélina

Stærðfræði snýst ekki bara um tölur

„Almenna viðfangsefnið er að para alla saman þannig að öll hjónaböndin séu stöðug.“

Dr. Agnes Cseh, var nýdoktor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykavík. Á meðan hún starfaði við HR vann hún til Klaus Tschira- verðlaunanna sem veitt eru í Þýskalandi á hverju ári til ungra vísindamanna sem þykja miðla rannsóknum sínum á aðgengilegan hátt. Klaus Tschira-sjóðurinn hefur það að markmiði að styrkja vísindastarf og miðlun þess til almennings. Handhafar verðlaunanna eru sex talsins hvert ár og eru þau veitt fyrir doktorsverkefni á sviði líffræði, efnafræði, upplýsingatækni, stærðfræði, taugavísinda og eðlisfræði.

Agnes hlaut verðlaunin fyrir ritgerð um doktorsrannsókn sína í stærðfræði. „Flestum dettur í hug að ég vinni með tölur á hverjum degi sem stærðfræðingur en ég geri það ekki beint, heldur vinn ég með formúlur, net og reiknirit.“ Net eru leið til að sýna vandamál sem þarf að leysa á sérstakan hátt. Net eru byggð upp af hnútum, eða punktum, og leggjum, eða strikum, rétt eins og vegamót og vegir á landakorti. Agnes þróar jafnframt reiknirit, eða algóriþma, sem notuð eru til að leysa ýmis vandamál en með þeim er hægt að byggja ákvarðanir á miklu magni gagna. „Ef við tökum nærtækt dæmi um hvernig nemendur eru valdir inn í stóra háskóla þá eru í flestum löndum miðlægir gagnagrunnar sem notaðir eru til að ákvarða hvaða nemendur komast inn í hvaða skóla.“

Hvað er reiknirit?

Reiknirit eru leiðbeiningar sem tölva getur farið eftir svo að hægt sé að ljúka ákveðnu verki, rétt eins og maður fylgir ákveðinni uppskrift ef baka skal köku. Ímyndum okkur að við fáum leiðbeiningar um hvernig baka eigi kökuna. Við setjum 100 g af hveiti, tvö stór egg og 50 g af sykri í stóra skál. Svo skal blanda þessu saman og að því loknu setja í lítil form, því næst inn í ofn og baka við 180 gráður í 30 mínútur. Þessa uppskrift er hægt að nota aftur og aftur ef maður vill baka kökuna við ákveðin tækifæri og ef maður vill 50 stykki af kökunni þá er aðgerðin endurtekin 50 sinnum. Þannig virka reiknirit fyrir tölvur.

ReiknilikanStable Marriage Problem eða SMP er vel þekkt dæmi í stærðfræði, hagfræði og tölvunarfræði og er meðal viðfangsefna Agnesar. Með dæminu er reynt að finna stöðuga pörun milli tveggja jafnstórra hluta en gefin hefur verið forgangsröð fyrir hvorn hluta. Á myndinni er dæminu lýst. Fjórir karlmenn og fjórar konur eru hér táknuð með hnútum í neti, á meðan leggir sem tengja þau eru möguleg hjónabönd. Hver einstaklingur skilgreinir forgangsröðun sína sem sjá má á leggjunum. Númer 1 er fyrir fyrsta val og svo framvegis. Grænu leggirnir sýna ákveðin hjónabönd sem sum eru óstöðug vegna rauða leggsins: báðir aðilar á rauða leggnum vilja taka upp nýtt samband, og eru tilbúnir til að yfirgefa sitt núverandi hjónaband til þess. Almenna viðfangsefnið er að para alla saman þannig að öll hjónaböndin séu stöðug.

Agnes er frá Ungverjalandi og kom til HR til að vinna með Magnúsi Má Halldórssyni, prófessori við tölvunarfræðideild sem hún segir að sé vel þekktur í heimi fræðilegrar tölvunarfræði. Magnús situr meðal annars í stjórn Evrópsku samtakanna um fræðilega tölvunarfræði (European Association for Theoretical Computer Science) og er forstöðumaður ICE-TCS við Háskólann í Reykjavík, sem er rannsóknarsetur í fræðilegri tölvunarfræði. „Þegar ég sá að ég hafði tækifæri til að vinna með honum í rannsóknum sótti ég strax um.“ Agnes Cseh gegndi stöðu nýdoktors í fræðilegri tölvunarfræði frá ársbyrjun 2016 en flutti sig um set í september til Búdapest þar sem hún starfar sem nýdoktor og fæst við markaðshönnun (e. market design). Finna má grein um rannsóknir hennar í októberhefti Bulletin of the European Association for Theoretical Computer Science.