Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Lovísa Arnardóttir með samstarfsfólki sínu á Jamaíka

Starfaði fyrir UNICEF á Jamaíka

Ein vettvangsferð var farin til að taka upp stuttmynd um ungar mæður með HIV sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og í kjölfarið verið útskúfað frá fjölskyldu sinni og samfélagi. Ég eyddi með þeim deginum og spjallaði við margar þeirra.“

Lovísa Arnardóttir komst í kynni við fórnarlömb kynferðisofbeldis við störf sín fyrir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á Jamaíka í fyrrasumar. Áður hafði hún skrifað um kynferðisbrot gegn börnum hér á landi og hafði lengi langað að skoða hvað það er í gerð samfélags sem leyfir slíku ofbeldi að eiga sér stað og hvernig koma megi í veg fyrir það. Hún hafði ekki ætlað sér að klára meistaranám í lögfræði en eftir hvatningu frá leiðbeinanda sínum við Háskólann í Reykjavík lét hún slag standa og rannsakaði kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á Jamaíka og bar saman lagaumhverfi þar í landi við Ísland.

Ómetanlegt að hafa reynslumikinn leiðbeinanda

Lovísa hóf nám við HR fyrst árið 2011 en hætti ári seinna þegar henni bauðst vinna hjá UNICEF þar sem hún starfaði sem réttindagæslufulltrúi. Lovísa fór í framhaldsnám í lögfræði við lagadeild HR eftir að hafa lokið BA-gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MA í mannréttindafræði (e. Human Rights) frá UCL-háskóla í Lundúnum. Hún er höfundur þriggja skýrslna sem landsnefnd UNICEF gaf út en efni þeirra var meðal annars ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Hún komst svo í samband við Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósent við lagadeild HR. „Svala var að leita að skýrslunum sem ég hafði unnið. Eftir stutt samtal hvatti hún mig til að ljúka náminu og nýta vinnu mína hjá UNICEF í ritgerðarvinnuna. Ég hafði eiginlega ekki mikið hugsað út í að ljúka náminu en eftir þetta samtal ákvað ég að skoða málið. Það endaði svo með því að ég skráði mig aftur í nám haustið 2015 og útskrifaðist í júní síðastliðnum,“ segir Lovísa. Svala var leiðbeinandi hennar við gerð ritgerðarinnar. „Ég held ég hefði ekki viljað skrifa þessa ritgerð án hennar handleiðslu. Svala hefur rannsakað þetta efni um árabil á Íslandi. Það er í raun ómetanlegt að hafa leiðbeinanda sem hefur svona mikla þekkingu á efninu sem þú velur þér.“ Ritgerðin fellur undir það sem kallað er samanburðarlögfræði. Hún krefst þess að skoðað sé samspil marga mismunandi þátta sem geta haft bein áhrif á þróun réttarreglna í hverju landi fyrir sig. „Með því að skoða viðfangefnið frá mörgum sjónarhornum gat ég sameinað þekkingu mína úr náminu í HR við það sem ég hafði lært áður. Það var virkilega lærdómsríkt og skemmtilegt. Þar sem ég er með fjölbreyttan bakgrunn reyndi ég að finna leið til að nýta bæði það sem ég hef lært í vinnu og í öðru námi við ritgerðarskrifin.“

Lovísa

Menning, saga, trúarbrögð, efnahagsástand og stjórnmálaviðhorf hafa áhrif á réttarreglur 

Lovísa rannsakaði hvaða þættir í samfélaginu ýti helst undir ofbeldi gegn börnum og hvort hægt sé að hafa áhrif á, eða jafnvel fjarlægja, slíka þætti börnum til verndar. Hún skoðaði opinberar tölur, kynnti sér aðrar rannsóknir og mælingar sem framkvæmdar hafa verið á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Í ritgerðinni ber hún saman vernd barna á Jamaíka annars vegar og á Íslandi hins vegar, gildandi löggjöf, hvernig innleiðingu hennar hefur verið verið háttað og áhrif Barnasáttmálans á löggjöf beggja landa. „Svo fjalla ég um samfélagsleg viðhorf sem hafa áhrif á vernd barna. Það sem mér þótti áhugavert sérstaklega var að skoða hvernig flókið samspil marga mismunandi þátta eins og menningar, sögu, trúarbragða, efnahagsástands og stjórnmálaviðhorfa geta haft bein áhrif á þróun réttarreglna.“

Löggjöfin á Jamaíka mjög góð á blaði

Að bera saman Jamaíka og Ísland var ekki auðvelt. „Það kom mér eiginlega á óvart hversu erfiður samanburðurinn reyndist,” segir Lovísa. „Löggjöfin á Jamaíka er mjög góð í rauninni en svo hafa efnahagsástand og ýmis samfélagsviðhorf mikil áhrif á það hvernig hún virkar í framkvæmd. Vilji löggjafans kemur skýrt fram, til dæmis í löggjöfinni og endurskipulagningu barnaverndarkerfisins, en það hefur ekki verið tekið heildstætt á vandanum. Hún segir háa afbrota- og morðtíðni, eiturlyfjasmygl, mikla fátækt og samfélagsviðhorf, sem samþykki ofbeldi og þaggi niður í brotaþolum, gera það að verkum að löggjöfin sé einungis táknræn, orð á blaði sem breyti engu fyrir brotaþolann eða kerfið sjálft. „Þó það sé mikilvægt skref að setja lög er alveg jafn mikilvægt að hugsa um hvernig á að koma þeim í framkvæmd. Það er ekki hægt að aðskilja þessa tvo þætti ef löggjöfin á að virka.”

Mikil skömm brotaþola

Við störf á Jamaíka síðasta sumar fór Lovísa í vettvangsferðir til að taka upp stuttmyndir. „Ein slík vettvangsferð var farin til að taka upp mynd um ungar mæður með HIV, sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og í kjölfarið verið útskúfað frá fjölskyldu sinni og samfélaginu. Ég eyddi með þeim degi og spjallaði við margar þeirra.“ Á sama tíma hrinti UNICEF á Jamaíka af stað átaki sem hafði að markmiði að hvetja fólk til að tilkynna ofbeldi. „Tíðni tilkynninga er enn mjög lág og því var markmið átaksins að kynna fyrir almenningi þær stofnanir sem hægt er að leita til og vekja fólk til umhugsunar um ofbeldið.“ Hún segir enn mikla skömm fylgja því að vera þolandi kynferðisofbeldis á Jamaíka, auk þess sem fátæktin sé gríðarleg. „Konur og stúlkur geta oft og tíðum ekki tilkynnt um ofbeldið sem þær eru beittar því þær treysta á ofbeldismanninn fjárhagslega. Þær eru í sjálfheldu.“ Hún segir opinbera tíðni kynferðisofbeldis gegn drengjum vera mjög lága, eflaust vegna þess að samkvæmt lögum er ólöglegt að stunda kynlíf í endaþarm og miklir fordómar ríki enn á Jamaíka í garð samkynhneigðra. „Drengir njóta því ekki sömu verndar og stúlkur og enn erfiðara að tilkynna um brot sem samkvæmt lögum gerir þolandann að glæpamanni.“

Menntun er grundvallarskilyrði

Það er aðallega menningarmunur sem útskýrir mismunandi aðstæður barna hér á landi og á Jamaíka, frekar en lagalegur. „Ólík menning verður til á löngum tíma og saman setja þjóðir sér ákveðin gildi og viðmið sem segja til um eðlilega hegðun, skoðanir og viðbrögð við ýmsum aðstæðum. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á hvernig þessi gildi og viðmið þróast og þar hafa efnahagsaðstæður, stjórnmál, spilling og aðrir slíkir þættir mikil áhrif. Á Íslandi höfum við verið svo heppin að gott efnahagsástand, hátt menntunarstig og kynjajafnrétti hafa leyft þjóðinni að skapa sér gildi og viðmið sem leyfa ekki ofbeldi að viðgangast.“ Það sjáist hvað helst á víðtækri löggjöf, skilvirku barnaverndarkerfi, stöðu barnsins og  möguleika þess á þátttöku og til að láta skoðanir sínar í ljós og trausti til grunnstoða samfélagsins. „Þannig hafa Íslendingar sameiginlegan skilning á  þessum viðmiðum og gildum og fordæma þá sem ganga gegn þeim.“ Svo kerfi virki og löggjöfin verndi börn eins og henni er ætlað þarf að auka menntun á Jamaíka og bæta efnahaginn til að leysa þjóðina úr viðjum fátæktar. „Fátæk þjóð er ekki menntuð þjóð. Menntun og fræðsla eru grundvallarskilyrði gegn fordómum og skaðlegum gildum og viðmiðum. Vilji löggjafans, sama hversu skýr hann er, verður aldrei meira en táknrænn við slíkar aðstæður.”

Stefnir á frekari störf á alþjóðlegum vettvangi

Í dag er Lovísa á Balí í fríi. Hún sagði nýlega upp hjá UNICEF á Íslandi eftir sex ára starf. „Mig langar að starfa á alþjóðlegum vettvangi og ákvað að láta reyna á það. Framtíðin er óráðin eins og er, en á meðan ég er í biðstöðu ætla ég að nýta tímann í tungumálakennslu og sækja námskeið sem hjálpa mér til að láta þann draum rætast.”