Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Ung kona stendur við glugga og í baksýn sjást skýjakljúfar í New York

Starfsnám í tveimur stórborgum

Ég sótti bara um af því mig langaði að prófa þetta, mig langaði að kynnast lögfræði í öðru landi, nýta tímann vel og fá aðra sýn á fagið.“

Fyrsta dag Sigríðar Maríu Egilsdóttur sem lærlingur hjá stórri lögmannsstofu í New York bauð leiðbeinandi hennar, reyndur lögmaður á stórri lögmannsstofu, henni í hádegismat. “Þarna sátum við og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að vera alveg hreinskilin við hann. Ég var hikandi enda var þetta algjör reynslubolti og við höfðum hist fyrst fyrir örfáum klukkustundum. Svo lét ég vaða og sagði honum að ég væri örlítið kvíðin því ég kynni ekkert á bandarískt réttarkerfi. Ég fann að ég bara varð að koma þessu frá mér. Hann hikaði aftur á móti ekki í eina sekúndu heldur sagði strax: Ekki hafa áhyggjur. Þið lærið með því að gera.”

Sigríður María var að hefja þriðja árið í lögfræði við HR. Við báðum hana að segja okkur frá  starfsnámi hennar í sumar hjá stórri lögmannsstofu vestanhafs. Starfsnámið varði alls í tólf vikur, sex vikur í New York og sex vikur í Washington. En hvernig ætli þetta hafi komið til? „Ég sótti bara um af því mig langaði að prófa þetta, mig langaði að kynnast lögfræði í öðru landi, nýta tímann vel og fá aðra sýn á fagið. Þessi lögmannsstofa er með skrifstofur um öll Bandaríkin og bjóða upp á starfsnám. Nemendur á öðru ári í þriggja ára laganámi eru valdir inn, fá að kynnast lífinu hjá stofunni yfir sumarið, klára þriðja árið í náminu og koma svo og vinna þar - það er - þeir sem fengu tilboð eftir sumarið.“

Áhugaverð og spennandi verkefni

Það var óvænt ánægja að geta verið í tveimur borgum í starfsnáminu. „Þau spurðu mig hverju ég hefði áhuga á og ég svaraði fyrst: Öllu! Reyndar bætti ég því við seinna að það væri einna helst málarekstur. Ég fékk því að vinna með tveimur eigendum á stofunni, öðrum sem var yfir málarekstrasviðinu í New York og hinum sem var yfir áfrýjunardeildinni þeirra í Washington.“ Í starfsnáminu sinnti Sigríður María tilfallandi verkefnum, eins og að skrifa hluta af stefnu, undirbúa dómskjöl og samninga og undirbúa málflutning. Að hennar sögn voru verkefnin áhugaverð og álitaefnin spennandi.

Meiri sérhæfing úti en hér heima

Það er forvitnilegt að vita um muninn á því að vinna hjá stórri lögmannsstofu á austurströnd Bandaríkjanna eða hér heima. „Þetta er töluvert öðruvísi,“ segir Sigríður. „Ég hef unnið á lögmannsstofu hér á landi og er með ágætis innsýn í starfsemi þeirra. Þarna úti var þetta stór stofa með fjölmarga starfsmenn. Úti eru miklir möguleikar til sérhæfingar, og í raun er það nauðsynlegt. Hér heima þarftu aftur á móti að geta sett þig inn í fjölmarga ólíka hluti. Mér finnst hvort um sig hafa bæði kosti og galla.“

Ein á skrifstofunni í einn og hálfan tíma

Þessar tvær borgir voru líka eins og tveir ólíkir heimar og Sigríður María segir New York og Washington vera ótrúlega ólíkar þrátt fyrir að vegalengdin á milli þeirra sé ekki mikil, á bandarískan mælikvarða. Í New York sé allt á iði, eins og hún lýsir því, á meðan Washington sé hreinni og rólegri. Takturinn á lögmannsstofunum var líka ólíkur. „Fyrsta morguninn í New York ætlaði ég að vera mætt tímanlega, var komin upp í lest klukkan sjö um morguninn og ferðin tók 40 mínútur. Svo kom á daginn að ég var mætt allt of snemma og var ein á skrifstofunni í einn og hálfan tíma, það tók ekki einu sinni neinn eftir því hvað ég hafði verið dugleg! Í New York var fólk að mæta kannski svona hálftíu eða tíu en fór ekki heim fyrr en seint um kvöldið, jafnvel um ellefuleytið. Dagarnir í Washington voru aðeins líkari því sem við þekkjum hér heima, en þá tók fólk upp tölvuna heima eftir mat.“

Áhyggjur óþarfar

Það kom svo á daginn að áhyggjur Sigríðar Maríu af því að standa höllum fæti miðað við aðra starfsnema voru óþarfar. Matið sem hún fékk á hvorum stað fyrir sig var afar jákvætt. „Það sýndi sig að þó ég hafi kannski þurft að leggja aðeins meira á mig þá var árangurinn alveg jafn góður hjá mér og bandarísku nemunum. Ég vil því segja við þá sem eru að velta þessu fyrir sér: Þetta er vel mögulegt.“