Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Myndin er samsett og sýnir nemendur á starfsnámsstöðum

Starfsnámið leiddi þau á framandi og fræðandi slóðir

Hakkar insúlínpumpur fyrir bandaríska lyfjaeftirlitið

Agnes Jóhannesdóttir er á þriðja ári í hugbúnaðarverkfræði. Hún er stödd í Maryland í Bandaríkjunum þar sem hún er í starfsnámi hjá fyrirtæki sem heitir Fraunhofer CESE. Á meðal samstarfsaðila Fraunhofer eru NASA, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Food and Drug Administration (FDA) og Háskólinn í Maryland (UMD).

Agnes_2Hver  helstu verkefnin þín?

Í augnablikinu er ég að leggja lokahönd á verkefni fyrir FDA. Verkefnið snýst um að brjótast inn í hugbúnað insúlínpumpa til að koma upp um öryggisgalla og finna viðkvæmar upplýsingar. Ef öryggisgallar finnast gætu þeir verið nýttir til að breyta magni insúlíns sem er sprautað í einstakling og það getur haft mjög slæmar afleiðingar. Í stuttu máli má segja að ég sé að „hakka“ insúlínpumpur til að fyrirbyggja að aðrir geti brotist inn í þær.

Hvernig finnst þér starfsnámið nýtast þér?

Ég er búin að fá að kynnast rannsóknarhlið tölvunarfræðinnar sem mér þótti alltaf spennandi. Að auki hef ég lært fullt og fengið starfreynslu sem mun án efa nýtast mér í framtíðinni. Það sakar líka ekki að hafa stofnanir á borð við FDA, NASA og varnarmálaráðuneytið á ferilskránni sinni.

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

Aðallega hvað tíminn líður hratt hér. Það er alltaf nóg að gerast í kringum okkur, bæði í vinnunni og í frítímanum. Til dæmis vorum við á ráðstefnu um seinustu helgi, fórum á Kanye West tónleika fyrir tveimur vikum og erum að fara á amerískan fótboltaleik um næstu helgi.

 

Umfang starfsins á Reykjalundi kom á óvart

Steinn Baugur Gunnarsson (til hægri á myndinni) er á þriðja ári í íþróttafræði. Hann lauk starfsnámi á Reykjalundi síðasta vor.

Hver voru helstu verkefnin?Steinn_Gunnarsson

Verkefnin voru mörg og fjölbreytt. Ég var að kenna leikfimistíma bæði í sal og í sundlaug, fór með hópa í gönguferðir og gerði ýmsar heilsutengdar mælingar á einstaklingum svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig finnst þér starfsnámið nýtast þér?

Ég  öðlaðist mikilvæga reynslu bæði í þjálfun og kennslu fyrir einstaklinga í endurhæfingu. Auk þess var frábært að fá að kynnast starfseminni hjá eins flottri stofnun og Reykjalundur er.

Kom eitthvað þér á óvart?

Það kom mér mest á óvart hversu umfangsmikil starfsemi Reykjalundar er. Á Reykjalundi starfa tæplega 200 manns í heildina, sem eru töluvert fleiri en ég bjóst við.

 

 

Lærdómsríkt starfsnám í Samkeppniseftirlitinu

Vilhjálmur Herrera Þórisson stundar meistaranám við lagadeild og lauk starfsnámi hjá Samkeppniseftirlitinu.

Vilhjalmur_Thorisson3Hver eru helstu verkefnin?

Verkefnin eiga það sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti álitaefnum í samkeppnisrétti. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins er að annast framkvæmd á samkeppnislögum nr. 44/2005 sem fjalla fyrst og fremst um fjóra hluti, þ.e. samninga sem raska samkeppni, hegðun sem raskar samkeppni, samruna og opinberar samkeppnishömlur.

Hvernig finnst þér starfsnámið nýtast þér?

Starfsnámið gefur nemendum kost á að takast á við raunveruleg álitaefni í atvinnulífinu. Þannig gefst nemendum kostur á að para námsefnið við raunverulegar aðstæður. Það skilar sér í betri skilningi nemenda á þeim verkefnum og þeirri ábyrgð sem fylgir því að fást við lögfræðileg álitaefni. Starfsnámið hefur strax verið mjög lærdómsríkt og mun án efa reynast vel í hverju því sem tekur við eftir nám.

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu vel er tekið á móti starfsnemum og hversu greiðan aðgang starfsnemar hafa að mannafla og sérfræðiþekkingu.