Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Tinna og Júlía standa með sýndarveruleikagleraugu

Sýndarumhverfi til þjálfunar sérkennara

Innan CADIA, Gervigreindarseturs tölvunarfræðideildar HR, vinna vísindamenn og nemendur að rannsóknum þvert á fræðasvið, þar sem að koma m.a. fræðimenn frá tölvunarfræðideild, tækni- og verkfræðideild og sálfræðisviði.

Gott dæmi um þverfaglegt rannsóknarverkefni sem unnið er innan CADIA er sumarverkefni þeirra Júlíu Oddsdóttur, nema í hugbúnaðarverkfræði, og Tinnu Þuríðar Sigurðardóttur, nema í tölvunarfræði. Verkefnið, sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, gekk út á að þróa sýndarumhverfi sem nýtist til þjálfunar sérkennara. „Það var Berglind Sveinbjörnsdóttir, aðjúnkt við sálfræðisvið, sem kom með þessa hugmynd og við útfærðum hana svo í samstarfi við Hannes Högna Vilhjálmsson, dósent við tölvunarfræðideild. Þetta var eiginlega draumaverkefni fyrir mig,“ segir Tinna, sem auk þess að læra tölvunarfræði hefur þegar lokið grunnnámi í sálfræði.

Skapar aukna möguleika á þjálfun

„Þeir sem eru að fara að vinna með börnum með sérþarfir geta sett á sig sýndarveruleikagleraugu og eru þá komnir inn í sérhannað þjálfunarumhverfi. Þú sérð nemandann hinu megin við borðið og átt að nota ákveðnar kennsluaðferðir til að aðstoða hann við að þekkja nöfn á hlutum eða greina á milli dýra; katta, hunda og kinda. Þessi kennsluaðferð nýtist t.d. vel í tilfelli barna með einhverfu,“ útskýra þær Tinna og Júlía. Þær segja slíkt sýndarumhverfi nýtast vel til slíkrar þjálfunar þar sem oft sé erfitt að fá nægan fjölda nemenda með sérþarfir til að koma til móts við þarfir kennaranema en þjálfun sé afar mikilvægur hluti af menntun sérkennara. „Þarna er hægt að fara í þjálfun aftur og aftur og það er jafnvel er hægt að setja hana fram eins og leik þar sem þú færð endurgjöf fyrir það sem þú gerir rétt og það sem þú gerir vitlaust.“

Skjáskot af tölvuleikSkjáskot úr sýndarumhverfinu sem Tinna og Júlía bjuggu til.

Höfðu aldrei sett upp sýndarveruleikagleraugu

Þjálfunarumhverfið er gert í forritinu Unity, en þær Tinna og Júlía höfðu ekki unnið í því áður. „Reyndar höfðum við ekki sett upp sýndarveruleikagleraugu áður!“ Þær unnu verkefnið strax eftir fyrsta árið í námi og segjast vera hissa á því hversu miklu þær komu í verk á stuttum tíma. „Já, það má segja að við höfum hoppað út í djúpu laugina. Allt sem sést þarna á myndinni þurftum við að búa til,“ segja þær og benda á skjáskot af sýndarumhverfinu. Reyndar eru þær ekki búnar að segja skilið við verkefnið enn. Þær kynntu það á SLUSH Play-ráðstefnunni í Reykjavík fyrir stuttu auk þess sem það verður kynnt á ráðstefnu atferlisfræðinga á næstunni. „Verkefnið hefur líka opnað fyrir fleiri hugmyndir og við erum búnar að kynnast möguleikum gervigreindar, sem eru óteljandi.“