Sýndarverur semja djass
„Mér fannst athyglisvert að leggja vísindalega mælikvarða á eitthvað sem er svona huglægt eins og tónlist.“
Bot Dylan er tölvuforrit sem breskir vísindamenn bjuggu til nýlega og býr til írsk þjóðlög með aðstoð gervigreindar. Listsköpun hefur löngum verið talin einn af merkilegustu hæfileikum mannsins en tilkoma Bot Dylan og svipaðra forrita hefur vakið upp áhugaverðar spurningar um tónlistarsköpun. Heyrum við muninn á tónlist sem er búin er til með gervigreind og þeirri sem er búin til af manneskju? Hvernig verður list sköpuð í framtíðinni? Geta okkar til að skapa tónlist, allt frá trumbuslætti til óperu og rapps, er greinilega ekki lengur aðeins á okkar færi heldur getum við búið til forrit sem semja tónlist.
Í HR hefur meistaranemi stofnað djasshljómsveit sem er eingöngu skipuð sýndarverum. Oscar Alfonso Puerto Melendez fæddist í Hondúras en er í dag íslenskur ríkisborgari. Hann lauk grunnnámi í tölvunarfræði í fæðingarlandinu en ákvað eftir nokkurra ára hlé frá námi að ljúka framhaldsnámi frá HR. Rannsóknarefni hans í meistaranáminu var gerð tónlistar með gervigreind.
Til að rannsaka eitthvað í heilt ár þarf áhuga
„Í MSc-náminu getur maður valið á milli þess að taka námskeið á seinna ári samhliða því að vinna að rannsókn eða ljúka stærra lokaverkefni og eyða þá öllu síðara árinu í rannsóknina.“ Oscar valdi síðari kostinn. „Til að rannsaka eitthvað í heilt ár þarf maður að hafa áhuga á því. Ég spila á gítar, er reyndar sjálflærður og kann ekki mikið fyrir mér í tónfræði, en fer á allar tónlistarhátíðir sem ég kemst á og fylgist vel með tónlist.“ Þegar Oscar var að ákveða rannsóknarefni sitt og mögulega tengingu þess við tónlist kom á daginn að dr. David Thue, leiðbeinanda hans, langaði líka að skoða tengsl tónlistar og gervigreindar betur, en David er mikill djassáhugamaður. Meistararitgeð Oscars, A Model of Inter-musician Communication for Artificial Musical Inelligence, hefur nú þegar vakið töluverða athygli og hefur verið kynnt á ráðstefnum, meðal annars í Atlanta í Bandaríkjunum nú í sumar.
Tölvur kinka ekki kolli
Umfjöllunarefni rannsóknar Oscars er svokallað fjölvitveru (e. multi-agent) kerfi, sem er vel þekkt hugtak innan gervigreindar, en eitt stærsta viðfangsefni rannsókna á því sviði er hegðun, samvinna og samskipti sýndarvera. Í ritgerðinni er sett fram líkan sem notast við fyrirmynd af djasskvartett að spila þar sem notast er við bæði töluð og ótöluð skilaboð. Í kerfinu semja nokkrar sýndarverur tónlist og spila hana saman í eins konar flæði, nokkuð sem er oft kallað jam session. „Mér fannst djass eiga vel við hér því sú tónlist einkennist af samvinnu,“ segir Oscar. Hann segir það ekki vera einfalt mál að forrita samskipti. „Samt eiga tölvur í stanslausum samskiptum. Þegar maður er að gúgla er tölvan að eiga samskipti. Þessi samskipti eru bara allt öðruvísi en samskipti fólks. Tölva tjáir sig til dæmis ekki með því að kinka kolli.“ Því þarf að nota ákveðnar samskiptareglur sem segja fyrir um hegðun tónlistarmannanna eins og þegar saxófónleikarinn sendir skilaboð til píanóleikarans. „Þetta hefur verið rannsakað frá mörgum ólíkum hliðum, til dæmis byggjum við á rannsóknum félagsfræðinga.“
Uppsprettan alltaf mennsk
Möguleikinn á því að láta tölvu semja tónlist var það sem heillaði Oscar þegar hann valdi sér rannsóknarefnið. „Mig langaði að skoða hvernig tölva getur flutt tónlist eins og tónlistarmaður, og hvort hún geti það á annað borð. Hversu frumleg nær tónlistin að verða? Hvernig getur tölva átt í samskiptum við áheyrendur? Mér fannst athyglisvert að leggja vísindalega mælikvarða á eitthvað sem er svona huglægt eins og tónlist.“ Og komst hann að niðurstöðu? „Sama hvað við forritum tölvur til að gera þá er uppsprettan alltaf mennsk. Tölvur munu ekki leysa tónlistarfólk af hólmi því fólk mun einfaldlega ekki tengja tilfinningalega við róbot sem spilar.“ Haganlega smíðuð tölvuforrit og lög byggð á reikniritum eru því sennilega ekki að fara að taka á móti tónlistarverðlaunum í náinni framtíð.