Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • María Kristín hvílir með aðra hendi á handriði og horfir í myndavélina

Skimar fyrir hugrænni hnignun með spjaldtölvum

Rannsókn í fókus: María Kristín Jónsdóttir, dósent við sálfræðisvið

Hvað ert þú að rannsaka?

Ég og samstarfskona mín á Minnismóttöku Landakots og meðrannsakandi okkar sem útskrifaðist úr sálfræðideild HR í vor höfum þýtt Addenbrooke Cognitive Examination (ACE) prófið fyrir spjaldtölvur. Prófið er ætlað til að skima fyrir hugrænni hnignum hjá þeim sem eru komnir yfir miðjan aldur. Við erum komnar nokkuð vel á veg með svokallaða normasöfnun sem hófst fyrir ári síðan, en þá er prófið lagt fyrir heilbrigða til að komast að því á hvaða bili eðlileg frammistaða liggur. Næsta skref rannsóknarinnar hófst svo í sumar. Þá skoðum við mun á þeim sem ekki teljast alveg heilbrigðir eða hafa greinst með heilabilunarsjúkdóm (t.d. Alzheimer sjúkdóm) og þeim sem eru heilbrigðir. Þá getum við skoðað hvernig prófið nýtist til að greina á milli heilbrigða og þeirra sem ekki eru heilbrigðir og getum skilgreint við hvaða skor á prófinu mörkin liggja.

Af hverju?

Markmiðið er að fá til notkunar á Íslandi vel rannsakað hugrænt skimunarpróf en þau próf sem nú eru notuð hérlendis til slíkrar skimunar hafa  lítt eða ekkert veriðrannsökuð. Auk þess nær ACE yfir fleiri þætti hugrænnar starfsemi og ætti því að nýtast betur en þau próf sem nú eru notuð. Það er auk þess kostur að prófið er lagt fyrir á spjaldtölvu og með þessu fyrirkomulagi er hægt að losna við allt pappírsflóðið sem gjarnan fylgir svona fyrirlögn.

Hverju munu rannsóknir þínar breyta?

Þær munu vonandi breyta og bæta þjónustu við aldraða sem kvarta um minnistap og aðrar breytingar í hugrænni færni. ACE-prófið er auðvelt í fyrirlögn og það þarf ekki mikla þjálfun til að leggja það fyrir. Prófið ætti, til dæmis, að nýtast innan heilsugæslunnar og víða á öldrunarstofnunum.