Tímarit HR

Valdar greinar

Tímarit Háskólans í Reykjavík inniheldur fjölbreyttar greinar og viðtöl um rannsóknir og önnur viðfangefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi. Það kom út í tíunda sinn í nóvember 2018. Hægt er að lesa tímaritið í heild sinni sem flettirit.


  • Friðrik Már Baldursson stendur úti við HR og horfir beint í myndavélina

Þurfum að byggja upp þekkingarsamfélag

Rannsókn í fókus: Friðrik Már Baldursson

Hvað ert þú að rannsaka?

Við Axel Hall, lektor í hagfræði við HR, lukum nýverið við rannsókn á efnahagslegri stöðu ungs fólks – þeirra sem eru á aldrinum 20-35 ára – og hvernig hún hefur þróast síðasta aldarfjórðung, 1990-2015. Í ljós kemur að ungt fólk hefur almennt dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi en þeir sem eldri eru hafa bætt stöðu sína. Svipuð þróun hefur orðið í mörgum öðrum löndum. Að einhverju leyti má skýra þessa þróun með mikilli fjölgun í hópi þeirra sem stunda háskólanám, sérstaklega í hópi kvenna. En aukin menntun skilar sér ekki að fullu í tekjuávinningi hjá þeim sem hafa lokið námi. Tekjur eru að vísu hærri hjá þeim sem eru með háskólamenntun, en þeim sem hafa lokið skemmra námi. Hins vegar hefur þessi ávinningur minnkað verulega. Svo virðist sem sköpun nýrra starfa við hæfi háskólamenntaðra hafi ekki haldið í við fjölgun þeirra og tekjuávinningur af menntun því minnkað. Þessi rannsókn er lýsandi, þ.e. við skoðum hvernig tekjur og fleiri þættir hafa þróast án þess að geta fullyrt um orsakasamhengi. Í framhaldinu ætlum við að kafa dýpra og kanna betur samhengi milli einstakra breyta, t.d. náms og tekna. Breytt viðhorf eru einnig áhugavert rannsóknarefni: Erlendar rannsóknir gefa t.d. til kynna að ungt fólk leggi nú meira upp úr áhugaverðum starfsvettvangi en áður. Þetta kann að vera á kostnað tekna.

Af hverju?

Þessi rannsókn kom til að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins í framhaldi af þingsályktunartillögu. Enda er þetta efni sem ætti að brenna á stjórnmálamönnum: Hvernig býr íslenskt samfélag að þeim kynslóðum sem erfa landið? Þessi rannsókn gefur til kynna hvernig þróunin hefur verið og er t.d. skref í áttina að því að skilja hvers vegna ungt fólk virðist eiga erfiðara með að kaupa sér fyrstu íbúð en áður.

Hverju munu rannsóknir þínar breyta?

Til að bæta lífskjör til langframa þarf að byggja upp þekkingarsamfélag á Íslandi. Það þarf að skapa hvata fyrir ungt fólk til að mennta sig en jafnframt að skapa forsendur fyrir uppbyggingu á atvinnulífi sem byggir á þekkingu. Við vonum að þessi rannsókn auki skilning á þessu viðfangsefni og styðji við stefnumótun í efnahags-, atvinnu- og menntamálum sem hefur þetta að markmiði.