Vandi lítillar þjóðar
Dr. Ágúst Valfells, forseti verkfræðideildar
Á Íslandi eru þingmenn 63. Í Úrúgvæ eru þingmenn 130, en 443 í Kanada, og 535 í Bandaríkjunum. Þannig að hlutfall þingmanna af fólksfjölda er hæst á Íslandi, næsthæst í Úrúgvæ, síðan koma Kanada og Bandaríkin. Sjálfstæð þjóð sem vill uppfylla ákveðin grunnskilyrði eins og að hafa þing og taka þátt í heimsmeistarakeppni í knattspyrnu þarf að búa yfir ákveðnum fjölda fólks sem getur tekið að sér sérhæfð störf, hvort sem það starf er að vera varnartengiliður eða þingforseti. Vandi fámennrar þjóðar er sá að úr miklu færra fólki er að velja í hverja stöðu á Íslandi heldur en í Uruguay, Kanada eða Bandaríkjunum. Sama má segja um ýmsa innviði. Fjöldi sjúklinga á hvern jáeindaskanna, og fjöldi strætisvagnafarþega á hvern kílómetra gatna kann að vera mun lægri heldur en hjá fjölmennari þjóðum.
Örþjóðin Íslendingar
Þessi vandi er nokkuð áberandi hjá örþjóðinni sem byggir Ísland. Við viljum halda úti velferðarþjóðfélagi með lífsgæðum í hæsta gæðaflokki, en til þess þarf sérfræðinga á ýmsum sviðum og alls konar innviði. Okkur hefur tekist misvel að leysa úr þessum vanda á mismunandi sviðum. Landslið kvenna og karla í knattspyrnu hafa til dæmis staðið sig ótrúlega vel á alþjóðavettvangi. Ýmsar skýringar kunna að vera á því, en þó má nefna að ungmennastarf er mjög gott, knattspyrnuþjálfarar yngri flokka eru vel menntaðir og aðstaða til að spila fótbolta er góð. Mikið framboð af sparkvöllum og gervigrasvöllum innanhúss þýðir að ungir og efnilegir leikmenn hafa tækifæri til að spreyta sig undir öruggri leiðsögn. Síðan er ekki síður mikilvægt að mörg þeirra sem skara fram úr hér heima fá tækifæri til að æfa og keppa erlendis í stærri samfélögum, ýmist með háskólaliðum eða sem atvinnumenn. Góður grunnaðbúnaður hér heima og virkt alþjóðasamstarf hefur skilað okkur ótrúlegum árangri í knattspyrnu. Hlýtur það sama ekki að eiga við önnur viðfangsefni okkar?
Alþjóðlegt samstarf mikilvægt í rannsóknum
Hvað varðar háskóla virðist staðan ekki ósvipuð. Við þurfum að gæta að því að leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli skili af sér stórum hópi efnilegra ungmenna og að góður hluti þeirra geti farið í háskólanám og fengið sérfræðimenntun sem gerir Ísland samkeppnisfært á alþjóðavettvangi. En við þurfum líka að vera mjög virk í alþjóðasamstarfi til að okkar efnilega unga fólk geti spreytt sig í stærra samfélagi en hér er að finna. Eitt dæmi um árangursríka alþjóðavæðingu er á sviði rannsókna. Stór hluti þess rannsóknarstarfs sem fer fram við tækni- og verkfræðideild HR er unnið í samstarfi við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir. Sama á við um aðrar deildir háskólans. Rannsakendur við HR taka virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknarstarfi, deila hugmyndum, gögnum og tækjabúnaði til þess að tryggja að rannsóknir við deildina séu í hæsta gæðaflokki og hafi áhrif langt út fyrir landsteinana. Þetta kemur meðal annars fram í því að tilvitnanir í greinar eftir rannsakendur við HR á alþjóðavettvangi mælast með hæsta móti.
Alþjóðlegt meistaranám á sviði endurnýjanlegrar orku
Annað dæmi um árangursríka alþjóðavæðingu er framhaldsnám á sviði endurnýjanlegrar orku sem boðið er upp á við HR í Íslenska orkuháskólanum (Iceland School of Energy, eða ISE eins og hann er oftast nefndur). Þó að notkun endurnýjanlegra orkugjafa sé með mesta móti á Íslandi, hefur fámennið orðið til þess að framboð til náms á því sviði hefur sögulega verið fremur rýrt hér á landi. Því var gripið til þess ráðs fyrir um tíu árum síðan að stofna til meistaranáms á þessu sviði þar sem leitað væri eftir nemendum erlendis frá. Þannig væri tryggt stöðugt framboð af nemendum sem gerði okkur kleift að halda úti samfelldu og öflugu námi og rannsóknarstarfi á sviði sjálfbærrar orku, sem ekki hafði tekist þegar eingöngu var byggt á íslenskum nemendum. Nú er staðan sú að milli 50 og 60 meistaranemar stunda nám við ISE hverju sinni, meginþorrinn erlendur. ISE heldur áfram að vaxa að umfangi og gæðum, þökk sé árangursríkri alþjóðavæðingu sem nýtist íslenskum nemendum og fyrirtækjum.
Hæfileikafólk allsstaðar að í HR
Þriðja dæmið um árangursríka alþjóðavæðingu er að nemendur við HR hljóta þannig menntun að þeir eru tilbúnir til að fara til útlanda, ýmist til að vinna eða fara í frekara nám. Stór meirihluti þessa fólks snýr svo heim til Íslands með nýja reynslu og nýja sýn á landsins gagn og nauðsynjar. Fjórða dæmið um árangursríka alþjóðavæðingu er í starfsmannahópi HR. Við tækni- og verkfræðideild er hlutfall fastra starfsmanna sem koma erlendis frá meira en fimmtungur. Hlutfall rannsóknarsérfræðinga í tímabundinni stöðu er enn hærra. Með því að sækja hæfileikafólk til háskólans alls staðar að úr heiminum hefur okkur tekist að stórefla starf semina og bjóða upp á nám og rannsóknir sem ekki hefði verið hægt ella. Svo má nefna að með því að fá inn fólk sem hefur ólíkan bakgrunn og reynslu koma inn ný viðhorf og vinnubrögð. Slíkt er nauðsynlegt fyrir háskóla ef ekki á að koma til hugmyndafræðilegrar innræktunar og stöðnunar. Langflestir þeirra föstu starfsmanna sem komið hafa til okkar, hafa sest hér að og halda áfram að bæta háskólann og þjóðfélagið með framlagi sínu.
Bjóðum fleirum að taka þátt
Að lokum vil ég koma með hvatningu. Reynslan sýnir að margir þeirra erlendu nemenda sem læra við HR verða hugfangnir af landi og þjóð og vilja búa hér til lengri tíma, læra íslensku, fá sér vinnu og verða fullgildir meðlimir í samfélaginu. Með því að gefa þeim kost á þessu má auðga og efla Ísland. Okkur veitir nefnilega ekki af hæfileikafólki í okkar litla þjóðfélag. Alveg eins og þegar konur komu inn í háskólana tvöfaldaðist framboð af fólki með gagnlega og sérhæfða þekkingu, þá getum við enn stækkað hóp nýtra þjóðfélagsþegna með því að horfa aðeins út fyrir landsteinana og bjóða fleirum að taka þátt í að gera Ísland enn betra.