Við vitum hvað virkar
Íslensk þekking er grunnur forvarnarstarfs um alla Evrópu sem miðar að því að draga úr vímuefnanotkun unglinga. Þessi þekking er afrakstur tveggja áratuga rannsókna sem leiddar eru af dr. Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar HR og Columbia-háskóla í New York. Inga Dóra hélt erindi fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York síðastliðið vor. Þar kynnti hún árangur Íslendinga í forvörnum en hann hefur vakið mikla eftirtekt. Í erindinu lýsti Inga Dóra hvernig við höfum farið að því hér á landi að draga svo um munar úr drykkju, reykingum og kannabisneyslu unglinga á tæpum tveimur áratugum.
Rokkstjörnur í forvarnarstarfi
„Við vildum breyta aðferðum í forvarnarstarfi, í þá átt að byggja starfið alfarið á rannsóknum,“ segir Inga Dóra, og bætir við að upphafsmaður rannsóknanna sé lærifaðir hennar, Þórólfur Þórlindsson, prófessor. „Árið 1997, um það bil sem ég var að byrja að rannsaka þetta, þá snerust forvarnir að mestu leyti um að segja unglingum frá neikvæðum hliðum vímuefnanotkunar og starfið var næstum eingöngu í skólunum. Þetta var oft þannig að fyrrum neytendur deildu reynslu sinni, stundum jafnvel rokkstjörnur sem sögðu krökkunum að einfaldlega segja nei við eiturlyfjum og áfengi. Þarna var sem sagt verið að reyna að breyta viðhorfi þeirra. Hún segir rannsóknir aftur á móti sýna að viðhorf unglinga samræmist ekki endilega hegðun þeirra. Þannig geti einstaklingur haft neikvætt viðhorf til áfengis en samt ákveðið að neyta þess. „Gott dæmi er bara reykingar. Um helmingur unglinga sem reykir finnst mikilvægt að reykja ekki.“ Það þurfti því að taka nýja stefnu og nálgast málin frá annarri hlið. Þannig varð til rannsóknin Ungt fólk. „Við byrjuðum að leggja fyrir könnun í efstu bekkjum grunnskóla, á hverju ári. Við vildum skilja unga fólkið okkar og heiminn þeirra. Aðstæður, heilsu, tilfinningar, hegðun. Svo vildum við nota niðurstöðurnar til að bæta samfélagið,“ segir Inga Dóra.
Mikilvægt að fresta því að byrja að drekka
Meðal þess sem fram kom í gögnunum var að skólaárgangur sem mælist yfir meðallagi í vímuefnanotkun við 13 ára aldur heldur neyslunni áfram í framhaldsskóla. Með stefnumótun hjá yfirvöldum og sveitarfélögum voru niðurstöðurnar nýttar markvisst til að reyna að hafa áhrif á hegðun þessa aldurshóps, í stað þess að reyna að breyta viðhorfum þeirra. „Með því að breyta félagslegum aðstæðum er hægt að breyta hegðun. Þannig hefur á síðustu árum hér á Íslandi verið minni áhersla lögð á að fræða unglinga um neikvæðar afleiðingar heldur er reynt að virkja þá í æskulýðsstarfi og íþróttum. Skýrar aðgerðir sem þessar bera árangur.“ Sem dæmi um fleiri slíkar aðgerðir er hækkun leyfilegs aldurs á neyslu áfengis og tóbaks. Einnig hefur auglýsingabann á þessum vörum haft áhrif. Íþróttastarf hefur fengið aukið fjármagn og settar voru reglur um útivistartíma. Foreldrar voru hvattir til að eyða meiri tíma með börnum sínum, til dæmis á tyllidögum eins og 17. júní, en áður fyrr var algengara að á þeim degi færu unglingar einir síns liðs niður í miðbæ og neyttu áfengis.
„Rannsóknir okkar leiddu í ljós að tengsl við fjölskyldu, þrýstingur frá jafnöldrum og framboð á tómstundum eru þeir þættir sem skipta mestu máli um það hvaða leið unglingar fara. Þegar litið er sérstaklega á hlut foreldra er það þrennt sem skiptir mestu máli: Að börn og unglingar finni tilfinningalegan stuðning og að þau finni að foreldrar þeirra viti hvar þau eru og með hverjum.“ Svo er það tíminn sem snýst hreinlega um magn, ekki gæði – öfugt við það sem margir gætu haldið. „Það er algengt að foreldrar reyni að pakka samverutímanum í eitthvað sem kallað er gæðatími, en það er betra að eyða bara eins mestum tíma og þú getur með barninu eða unglingnum, jafnvel bara til að hanga og gera ekki neitt sérstakt. Þess vegna að horfa saman á sjónvarpið. Þetta er einfaldlega gríðarlega mikilvægur liður í því að draga úr mögulegri áhættuhegðun barnsins þíns.“
Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í vor fór Inga Dóra yfir tölur sem sýna svart á hvítu hvað hægt er að gera þegar gögn og rannsóknir eru notuð og stefnumótun byggir á samvinnu hins opinbera, rannsakenda og fagfólks. Árangur okkar á Íslandi ber þessu vitni og er í raun ekkert minna en ótrúlegur; neysla áfengis meðal íslenskra unglinga á Íslandi var sú mesta í Evrópu árið 1998, en árið 2015 sú minnsta. „Fólki þykir gott að heyra að þetta sé hægt,“ segir Inga Dóra. „Reynsla okkar sannar það.“ Skilaboð Ingu Dóru í New York voru að hverfa frá afmörkuðum verkefnum og leggja alvöru tíma og vinnu í verkefnið. „Ég sagði að það verði að virkja alla í einu, jafnaldra, skóla, fjölskyldur og þá sem skipuleggja æskulýðsstarf. Forvarnir þurfa alltaf að vera í gangi, alls staðar. Þetta er ekki herferð, heldur hljóðlát bylting.“
Árangur í forvörnum á Íslandi síðastliðin 20 ár
- Hlutfall þeirra 15-16 ára ungmenna sem sögðust hafa orðið drukkin í mánuðinum áður en þau svöruðu könnuninni fór frá því að vera 42% árið 1998 í 5% árið 2016
- 23% svarenda reyktu daglega árið 1998 en 3% árið 2016
- Kannabisneysla fór úr 17% í 7% árið 2016
- Hluti þeirra barna og unglinga sem tekur virkan þátt í íþróttum hefur hækkað úr 23% árið 2000 í 42% árið 2014
- Hlutfall 14-16 ára ungmenna sem eyddi talsverðum tíma með foreldrum á virkum dögum fór úr 23% árið 1997 í 50% árið 2014
- Hluti 14-16 ára unglinga sem höfðu verið úti við eftir kl. 22 fór úr 53% árið 2000 í 23% árið 2014