Vilja samræma hagsmunamál milli deilda
Árshátíð, Samgönguvika og Jafnréttisvika eru meðal fjölbreyttra viðburða á vegum SFHR, Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík.
„Þetta er vinna og það getur krafist mikillar skipulagningar að sinna erfiðu námi og hagsmunabaráttu stúdenta á sama tíma. Ég held þó að þetta hjálpi mér í náminu frekar en ekki. Svo þekki ég í raun ekki annað en að vera háskólanemi sem vinnur jafnframt að félagsstörfum,“ segir Rebekka Rún Jóhannesdóttir, formaður SFHR, Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. Hún er á þriðja ári í rekstrarverkfræði við tækni- og verkfræðideild. Á skólagöngu sinni í HR hefur hún jafnframt sinnt skyldum formanns nemendafélags og nýnemafulltrúa. „Það er svo gaman að geta haft áhrif.“
Núverandi lög frá árinu 1992
SFHR er hagsmunafélag nemenda háskólans. Nemendur verða meðlimir sjálfkrafa og greiða engin félagsgjöld. Það mál sem hefur borið einna hæst þessa dagana er nýtt frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna og fyrirkomulag námslána. „Við teljum frumvarpið sem sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram á síðasta þingi vera skref í rétta átt en myndum ekki samþykkja þetta frumvarp óbreytt. Það er gott að þessi vinna er í gangi, núverandi lög eru frá árinu 1992 og því tími til kominn að endurskoða þau.“ Rebekka telur stærsta skrefið í frumvarpinu vera beina námsstyrki sem allir nemendur gætu nýtt sér án þess að skuldbinda sig með lántöku. „Styrkurinn ætti jafnframt að gera nemendum kleift að einbeita sér betur að náminu og vinna minna.“
Stjórn SFHR. Frá vinstri: Erna Sigurðardóttir, Skúli Þór Árnason, Íris Björk Snorradóttir, Rebekka Rún Jóhannesdóttir og Kristinn Guðmundsson.
Nemendur fái aðgang að deildafundum
Núverandi stjórn Stúdentafélagsins hefur einnig lagt áherslu á það á undanförnum mánuðum að samræma hagsmunamál milli allra akademískra deilda háskólans. Í því felst meðal annars að fulltrúi nemenda sé viðstaddur deildafundi. „Við erum að vinna í þessu og gerum ráð fyrir að það verði vel tekið í þetta. Málið er í höndum hagsmunafulltrúa SFHR.“
Öflugt félagslíf
Ótal margir viðburðir eru haldnir yfir skólaárið en það eru nemendafélög deilda eða undirfélög SFHR sem sjá um skipulagningu þeirra. Sem dæmi má nefna Árshátíð nemenda HR sem árshátíðarnefndin sér um, Samgönguviku sem Birta, félag um samfélagslega ábyrgð heldur utan um, Jafnréttisviku sem er í höndum Jafnréttisnefndar og svo sér Góðgerðarnefnd um fjáröflun fyrir ákveðið málefni.