Framvinda í námi

Nemandi skal ljúka 30 einingum á önn eða 60 einingum á ári, miðað við eðlilega námsframvindu. Nemanda er heimilt að innritast á annað námsár, hafi hann lokið a.m.k. 48 einingum af námsefni fyrsta árs í lögfræði, með meðaleinkunn 6 eða hærri.

Til að hefja nám á þriðja ári námslínu þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 90 einingum, öllum námskeiðum fyrsta árs og a.m.k. 30 einingum á öðru námsári, með meðaleinkunn 6 eða hærri. 

Nemandi skal hafa lokið a.m.k. 90 einingum í síðasta lagi tveimur árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár. Námskeið sem nemandi tekur úr aukagrein teljast ekki hluti af þessum 90 einingum nema nemandinn hafi uppfyllt skilyrði um 48 einingar að loknu fyrsta námsári. Nemandi skal hafa lokið bakkalárprófi í síðasta lagi fimm árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár.

Námsráð getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá almennum námsframvindureglum. Hún verður aðeins veitt ef gildar læknisfræðilegar ástæður og veigamikil rök eru fyrir hendi. Umsókn skal fylgja námsáætlun nemanda sem námsráð þarf að samþykkja og getur bundið sérstökum skilyrðum, m.a. um tilhögun náms og námsframvindu. Námsráð getur farið fram á að nemandi leggi fram sérfræðivottorð læknis eða önnur gögn sem þörf er á svo leggja megi mat á umsóknina. Umsókn þarf að berast lagadeild a.m.k. 8 vikum fyrir upphaf annar.

Námsmat og einkunnagjöf

Um námsmat og einkunnagjöf í BA-námi fer samkvæmt reglum HR um próf og einkunnir. Lágmarkseinkunn í kjarnagreinum, valgreinum og BA-ritgerð er 5,0. Lágmarkseinkunn í aðferðarfræði (námskeið L-101) er 6.

Í greinum þar sem lokapróf, hvort sem það er munnlegt eða skriflegt, er hluti námsmats skulu aðrir námsþættir því aðeins metnir inn í lokaeinkunn, að nemandi hafi hlotið tilgreinda lágmarkseinkunn á lokaprófi enda vegi lokaprófið a.m.k. 20% af lokaeinkunn námskeiðsins. Nái nemandi ekki tilgreindri lágmarkseinkunn á lokaprófi getur hann ekki nýtt sér einkunnir sem hann hefur fengið fyrir aðra námsþætti, þótt hann endurtaki námskeiðið síðar.

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu, fellur réttur til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í deildina. Heimild til endurinnritunar er háð þeim skilyrðum að nemandi hafi ekki fengið áminningu vegna brota á reglum lagadeildar eða skólans og að nemandi hafi lokið að
minnsta kosti 30 einingum með að lágmarki 6,0 í meðaleinkunn. Sé slík heimild veitt, heldur nemandi sem þess óskar þeim námskeiðum sem lokið hefur verið með einkunn 6 eða hærri. Heimild til endurinnritunar verður aðeins veitt einu sinni á námstímanum

Endurtekning prófa

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar sinnum og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi hefur verið skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemanda, sem uppfyllir ekki framangreindar kröfur og óskar eftir að halda áfram námi við deildina, ber  að sækja um endurinnritun. Um forsendur og afleiðingar endurinnritunar fer skv. 11. gr. eftir því sem við á. Ákvæði þetta tekur til próftöku nemenda í námskeiði sem þeir voru fyrst skráðir í haustið 2011 eða síðar.

Námshlé

Nemandi getur sótt um til námráðs að gera hlé á námi sínu. Leyfi til námshlés má veita með skilyrðum. Hámarkslengd námshlés er 1 ár. Hámarksnámstími skv. reglum þessum framlengist sem námsleyfi nemur.

Undanþágur

Hafi námsráð komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur frá reglum um framvindu náms og námshlé samkvæmt 11. og 13. gr. reglna þessara eigi ekki við getur deildarfundur lagadeildar, ef ríkar ástæður eru til, veitt frekari undanþágur frá þeim reglum. Slík heimild verður aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum.

Sjá eining stjórnskipulag lagadeildar og reglur um BA nám við lagadeild HR .UmsóknarvefurGott að vita:Var efnið hjálplegt? Nei