Námsframvinda og námsmat


Námstími

Meistaranám skal að lágmarki vera fjórar annir (vor og haust). Almennt er gert ráð fyrir að nemandi ljúki 30 einingum á önn eða 60 einingum á ári miðað við eðlilega námsframvindu. Hægt er að ljúka náminu á fjórum árum.

Hámarksfjöldi eininga á önn

Nemandi getur óskað eftir skráningu í eitt námskeið á önn umfram 30 einingar enda sé það nauðsynlegt til að ljúka meistaranámi á fjórum önnum, sbr. 1. málsl. 20. gr.

Námsmat og einkunnagjöf

Við námsmat og einkunnagjöf er farið eftir reglum HR um próf og einkunnir. Til að standast próf í meistaranámi í lögfræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 6,0 í öllum námsþáttum sem nemandi fær skráða einkunn fyrir við lagadeild HR. Þetta gildir einnig eftir því sem við á um fyrra nám sem nemandi fær metið sem hluta af meistaranámi í lögfræði. Til þess að standast námskeið þarf nemandi að fá 6,0 í einkunn á lokaprófi. Ef lokapróf hefur minna vægi en 20% af lokaeinkunn hefur kennari heimild til að víkja frá áðurgreindu ákvæði. Lokaeinkunn til fullnaðarprófs í lögfræði í skilningi 2. gr. reglna þessara skal reiknuð sem vegið meðaltal einkunna úr einstökum námsþáttum í BA-námi og ML-námi.

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu, fellur réttur til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í deildina. Þau skilyrði eru sett fyrir endurinnritun að námsferill nemanda beri með sér ótvíræða námsgetu eða ótvíræðar framfarir í námi, og að meðaleinkunn í þeim námsgreinum sem nemandi hefur lokið í ML-námi við deildina sé 7,0 eða hærri. Sé slík heimild veitt, heldur nemandi sem þess óskar þeim námskeiðum sem lokið hefur verið með einkunn 7,0 eða hærri. Heimild til endurinnritunar verður aðeins veitt einu sinni á námstímanum.

Námshlé

Nemandi getur sótt um leyfi námráðs til að gera hlé á námi sínu. Beiðnin skal studd fullnægjandi gögnum er sýni að gildar ástæður séu fyrir beiðninni. Meðal ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru barneignir og veikindi. Leyfi til námshlés má veita með skilyrðum. Hámarkslengd námshlés er 1 ár. Hámarksnámstími samkvæmt reglum þessum framlengist sem námsleyfi nemur.

Undanþágur

Hafi námsráð komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur frá reglum um framvindu náms og námshlé samkvæmt 23. og 24. gr. eigi ekki við getur deildarfundur lagadeildar, ef ríkar ástæður eru til, veitt frekari undanþágur frá þeim reglum. Slík heimild verður aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum.

Náms- og prófareglur

Um prófgögn fer eftir reglum sem lagadeild HR setur þar um. Vísað er í náms- og prófareglur HR sem birtar eru á vefsíðu skólans varðandi önnur atriði.



Var efnið hjálplegt? Nei