Ritrýni
Tímaritið Lögrétta er ritrýnt tímarit með „gagnkvæmri leynd“ (e. double blind) þar sem ritrýnar fá ekki upplýsingar um greinarhöfund og greinarhöfundur ekki upplýsingar um ritrýna. Vegna smæðar hins íslenska fræðasamfélags er mælt með því að greinarhöfundar, jafnt sem ritrýnar, gangi þannig frá innsendu efni að líkur á að efni sé rekjanlegt séu sem minnstar.
Til þess að grein verði metin hæf til birtingar í tímaritinu þarf hún að uppfylla kröfur um nýnæmi rannsóknar, innihalda upplýsingar eða yfirlit yfir skrif annarra fræðimanna og rannsóknir sem tengjast efninu, innihalda skýringar á hugtökum, mælingum og aðferðafræði rannsóknarinnar, greiningu á þeim gögnum sem aflað var, greinargerð um helstu niðurstöður og umræðu um þær niðurstöður í samhengi við þann fræðilega ramma sem kynntur var í upphafi.
Niðurstöður ritrýna geta verið eftirtaldar:
- Að grein sé samþykkt óbreytt.
- Að grein sé samþykkt með athugasemdum.
- Að gerðar séu verulegar athugasemdir við grein og óskað eftir endurskoðaðri útgáfu til skoðunar.
- Að grein sé hafnað.
Sýnd skal nærfærni við ritrýni og í samskiptum við greinarhöfunda. Ábendingar eiga að vera uppbyggilegar, vel rökstuddar og settar fram af kurteisi og virðingu fyrir höfundi. Ritrýnum er frjálst að koma með ábendingar um hvaðeina sem betur má fara, án þess að gera breytingar að skilyrði fyrir birtingu. Mikilvægt er að niðurstöður ritrýna séu það skýrar og afdráttarlausar að ekki fari á milli mála í hvorn flokkinn athugasemdir falla. Athugasemdir ritrýna geta varðað niðurröðun efnis, hvort samfellu skorti í röksemdafærslu, hvort fullyrðingar séu órökstuddar, vinnubrögð ófagleg, heimildanotkun ósamkvæm eða ófullnægjandi, fyrri rannsóknir á efninu sniðgengnar, stíl og framsetningu sé ábótavant og fleira.
Ritrýnar skulu koma með tillögu að styttingu ef grein er í lengra lagi og benda á óþarfa útúrdúra eða leiðir til að gera greinina hnitmiðaðri og læsilegri. Ef grein er hafnað er æskilegt að ritrýnar bendi á annan birtingarvettvang sem hentað gæti efninu með eða án breytinga.