Umhverfissálfræði og þrívíddartækni
Hagnýtt nám fyrir hönnuði, opinbera aðila, verktaka og fjárfesta
60 ECTS eininga þverfaglegt diplómanám (4 annir)
Í þessu hagnýta og þverfaglega diplómanámi öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og áskoranir í tengslum við hönnun og skipulag umhverfis, sem og hvernig umhverfissálfræði getur verið samþætt inn í skipulags- og hönnunarverkefni í vinnslu, í því skyni að mæta sálfræðilegum kröfum og þörfum.
Ennfremur læra nemendur að beita nýjustu tölvutækni við framsetningu og mælingum á upplifun fólks á umhverfis áður en það er byggt.
Námið er opið öllum sem lokið hafa BA, BS eða sambærilegt námi en það hentar sérstaklega vel þeim aðilum sem koma með einhverjum hætti að gerð og/eða ákvörðunum tengdum hönnun, skipulagi og uppbyggingu umhverfis. Má þar nefna sem dæmi arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga, verkfræðinga, tæknifræðinga, pólitíska fulltrúa sveitarfélaga, sérfræðinga innan sveitarfélaganna, fjárfesta og verktaka.
Um námið
Umhverfissálfræði er sú grein innan sálfræðinnar sem beinir sjónum sínum að samspili fólks og umhverfis, hvernig fólk hefur áhrif á umhverfið og hvernig umhverfið hefur áhrif á fólk. Aukin þekking og skilningur á umhverfissálfræði er mikilvægur þáttur í hönnun, mótun, skipulagningu og uppbyggingu heilsusamlegs og mannvæns umhverfis og er því mikilvægt innlegg í eflingu sjálfbærrar þróunar byggðs umhverfis.
Heilsusamlegt, mannvænt og sjálfbært umhverfi er krafa 21. aldarinnar
Rannsóknir í umhverfissálfræði hafa sýnt fram á áhrif umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks. Hönnun, mótun og skipulag umhverfis getur því lagt grunninn að auknum lífsgæðum, betri heilsu og heilbrigðari lífsháttum fólks. Með aukinni þekkingu á samspili fólks og umhverfis eru samfélög framtíðarinnar betur í stakk búin til að mæta auknum kröfum við uppbyggingu þéttbýlis í þágu bættrar heilsu og líðanar.
Vegna sinnar breiðu skírskotunar hefur umhverfissálfræðin marga snertifleti og getur tvinnað saman ólíkar greinar. Þess vegna hentar umhverfissálfræðin svo vel sem kjarni þverfaglegs samstarfs ólíkra greina, en sjónarmið og samþætting þeirra gegnir svo aftur lykilhlutverki í sjálfbærni og sjálfbærri þróun til framtíðar.
Aukin gæði umhverfis í þágu fólksins
Í þessu hagnýta diplómanámi öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og áskorarnir í tengslum við hönnun og skipulag umhverfis, sem og hvernig umhverfissálfræði getur verið samþætt inn í skipulags- og hönnunarverkefni í vinnslu, í því skyni að mæta sálfræðilegum kröfum og þörfum.

Aukin þekking og skilningur þeirra aðila sem koma að verkefnum og ákvörðunum á sviði hönnunar- og skipulags skapar forsendur fyrir betra læsi á viðfangsefnið og upplýstari ákvaraðanatöku sem skilar sér í markvissari og mannvænni uppbyggingu umhverfis.
Tækifærin í þrívíddartækni
Öflug þrívíddartækni gerir það ekki bara mögulegt að teikna upp hugmyndir að umhverfi í þróun, heldur einnig að stíga inn í umhverfið og upplifa það eins og um raunverulegt umhverfi sé að ræða. Það að fá að upplifa að ganga um götu í framtíðarskipulagi eða setjast við glugga á nýjum vinnustað í mótun, eykur ekki aðeins skilning upplifenda á hönnunarhugmyndum sem liggja fyrir, heldur má nýta slíka framsetningu til að safna sálfræðilegum gögnum um væntanleg áhrif umhverfisins, áður en til framkvæmda kemur. Tækifærin sem felast í þessu samspili sálfræði og tækni eru gríðarleg, og þróunin hröð.
Fyrir hverja er námið?
Þverfagleg nálgun sálfræðideildar, tölvunarfræðideildar og iðn- og tæknifræðideildar
Diplómanámið hentar sérstaklega vel þeim aðilum sem koma með einhverjum hætti að gerð og/eða ákvörðunum tengdum hönnun, skipulagi og uppbyggingu umhverfis. Má þar nefna sem dæmi arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga, verkfræðinga, tæknifræðinga, pólitíska fulltrúa sveitarfélaga, sérfræðinga innan sveitarfélaganna, fjárfesta og verktaka.
Til að skilja betur oft á tíðum flókið samspil fólks og umhverfis er nauðsynlegt kanna, skoða og rannsaka viðfangsefni frá ólíkum sjónarhornum. Námið leggur því mikla áherslu á þverfaglega nálgun, þar sem útgangspunkturinn er umhverfissálfræði, en aðrar greinar hjálpa til við að skilja viðfangsefnið betur og byggja upp víðfemari þekkingu og nálgun.
HR leggur áherslu á þverfaglegt nám og er þessi námsbraut samvinnuverkefni Sálfræðideildar, Tölvunarfræðideildar og Iðn- og tæknifræðideildar HR, þar sem útgangspunkturinn er sálfræðilegt samspil fólks og umhverfis.
Nám á meistarastigi í umhverfissálfræði hefur verið stundað víða um heim um nokkurt skeið, jafnvel í nokkra áratugi og er enn frekar að ryðja sér til rúms. Þá hefur áhersla á tölvugrafík og sýndarveruleika í verið í boði við margar helstu menntastofnanir heims á tæknisviðinu, og eftirspurn eftir slíku námi farið ört vaxandi. En sú þverfaglega og hagnýta nálgun sem boðið er upp í þessu námi hér er ný á af nálinni á heimsvísu, þótt byggt sé á sterkum grunni hvers fags fyrir sig.
Hvað læra nemendur?
Í náminu er farið yfir samspil fólks og umhverfis, áhrif náttúru og byggðs umhverfis bæði utandyra sem innandyra á hugræna starfsemi, andlega líðan og lífeðlisfræðilega ferla. Þá umræðan tvinnuð saman við sjálfbæra þróun og heilsu. Rætt verður um uppbyggingu rannsókna og vísindalega nálgun, öflun gagna og úrvinnslu. Auk þess verður lögð rík áhersla á að nýta þrívíddartækni, sýndarupplifun og sýndarveruleika til rannsókna á áhrifum umhverfis á fólk. Á öllum fjórum önnum verða verkefni sem nemendur vinna að í hópum og lögð verður áhersla á hagnýtt gildi verkefna.
Fylgstu með
Hafðu samband

Að námi loknu
Aukin vitund, skilningur og færni á sviði umhverfissálfræði
Nemendur eiga að námi loknu að hafa öðlast þekkingu og skilning á sálfræðilegum hugtökum er tengjast samspili fólks og umhverfis, færni til að setja þau í stærra samhengi og nýta s.s. í tengslum við uppbyggingu byggðs umhverfis og áhrif þess, og vera betur í stakk búin að takast á við áskoranir dagsins í dag sem og áskoranir framtíðarinnar.
Aukin vitund um mikilvægi sálfræðilegra þátta í hönnun og skipulagi, og skilja tilgang aðferða og verkfæra sem hafa það að markmiði að kortleggja samspil fólks og umhverfis, og vera því betur í stakk búin að velja og nýta verkfæri sem henta hverju sinni.
Aukin færni í hagnýtingu nýjustu upplifunartækni, s.s. sýndarveruleika, í verkferlum.
Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar eru jafnframt hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Nemendur í umhverfissálfræði og þrívíddartækni njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna og sérfræðinga á fagsviðinu, stundakennara og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Lögð er áhersla á góð samskipti nemenda og kennara, faglega kennslu í smærri hópum og einstaklingsmiðaða leiðsögn.
Páll Jakob Líndal
Yfirumsjón náms
Dr. í umhverfissálfræði og verkefnastjóri Sjálfbærrar borga framtíðarinnar
Hannes Högni Vilhjálmsson
Umsjón
Kamilla Rún Jóhannsdóttir
Umsjón
Skipulag náms
- Gráða: Diplóma
- Inntökuskilyrði: Umsækjendur skulu hafa lokið grunnnámi í háskóla (BA, BS eða sambærilegu prófi)
- Einingar: 60 ECTS einingar Einingafjöldi á önn: 15 ECTS einingar
- Lengd náms: Tvö ár, 4 annir
- Kennslufyrirkomulag: Námið er kennt samhliða vinnu, tvo daga í viku milli 16 og 19 í HR.
Í náminu er meginþráðurinn sá að nemendur vinna að fjórumverkefnum, einu verkefni á hverri önn. Í námskeiðunum er lögð áhersla á kynningu og hagnýtingu tiltekinna grunnþátta sem nemendur nota til að byggja upp hvert lokaverkefni.
Á 1. önn er lögð áhersla á kynningu á sálfræðilegum hugtökum og tengsl þeirra við heilsu, mat og niðurstöður á upplifun fólks á náttúru, grænum svæðum og bláum svæðum, og samráð milli hópa og á áhrifaríka og kerfisbundna framsetningu umhverfis.
Á 2. önn er lögð áhersla á samspil fólks og byggðs umhverfis, og samráð milli hópa og á áhrifaríka og kerfisbundna framsetningu umhverfis, m.a. með þrívíddartækni.
Á 3. önn er lögð áhersla á nánari yfirferð á sálfræðilegum hugtökum, tölfræði og greiningar, lífeðlisfræðilegar mælingar á fólki á umhverfi sínu, uppbyggilegt samráð og skilningur sem og gerð og framsetning efnis í gagnvirkum sýndarveruleika.
Á 4. önn er lögð áhersla á umhverfi innandyra, tölfræði og greiningar, lífeðlisfræðilegar mælingar á fólki á umhverfi sínu, uppbyggilegt samráð og gagnkvæmur skilningur.
Sjá skipulag náms og námskeiðslýsingar
1. ÖNN
I. Sjálfbærni, heilsa og náttúraLýsing: Veitir skilning á sjálfbærni og þeim áskorunum sem við blasa. Lögð er áhersla á samfélagslega þætti, heilsufar fólks og aðlögun fólks að umhverfinu og tækifærum fólks til að standa undir sjálfu sér í daglegu lífi. Farið yfir áhrif náttúru, grænna svæða í þéttbýli sem og blárra svæða, og hvernig þau geta stuðlað að betri heilsu og aukinni sjálfbærni.
1. Sjálfbærni, heimsmarkmið, áskoranir og lausnir:Þekking: Þekkja hugtakið sjálfbærni, þekkja heimsmarkmiðin. Þekkja þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á heimsvísu og sem samfélag og mögulegar lausnir, eins og þéttingu byggðar. Leikni: Átta sig mikilvægi þessar hugsunar fyrir framtíð mannkyns og samfélags á Íslandi, þar sem sérstaklega er horft til samfélagslegrar sjálfbærni. Hæfni: Koma auga á tækifæri til að auka sjálfbærni í hönnun, mótun og skipulagi umhverfis m.t.t. samfélagslegrar sjálfbærni.
2. Heilsa, vanheilsa og streita:Þekking: Skilja hvað er heilsa og hvað er vanheilsa, þekkja áhrif streitu á heilsu og streituþætti í umhverfinu. Leikni: Skilja mikilvægi heilsu, vanheilsu og streitu fyrir samfélagið og sjálfbærni. Hæfni: Nýta heilsu, vanheilsu og streitu sem forsendur við hönnun, mótun og skipulag sjálfbærs umhverfis.
3. Áhrif umhverfis á fólk, aðlögun og sjálfbærni einstaklingsins:
Þekking: Hvernig ólíkt umhverfi hefur ólík áhrif á fólk og hvaða ferla búa þar að baki. Þekkja aðlögun fólks að umhverfinu, sálfræðilega endurheimt og endurheimtandi umhverfi. Leikni: Átta sig mikilvægi aðlögunar og sálfræðilegrar endurheimtar og tengsl þess við sjálfbærni einstaklingsins og heilsu. Skilja hugtakið endurheimtandi umhverfi og tengsl þess við sjálfbærni. Hæfni: Geta tengt aðlögun, sálfræðilega endurheimt, endurheimtandi umhverfi og sjálfbærni saman í rökrétta heild.
4. Náttúra:
Þekking: Þekkja og skilja áhrif náttúru á heilsu, aðlögun fólks og sálfræðilega endurheimt. Skilja áhrif framkvæmda í náttúrunni á upplifun fólks. Leikni: Átta sig á samspili fólks við náttúru og hvernig framkvæmdir í náttúrunni hafa áhrif á upplifun fólks. Hæfni: Nýta náttúru til heilsueflingar, aðlögunar og endurheimtandi upplifunar.
5. Græn svæði og blá svæði:
Þekking: Þekkja áhrif grænna og blárra svæða á heilsu, aðlögun og sálfræðilega endurheimt. Skilja mikilvægi fulltrúa náttúrunnar fyrir íbúa í þéttbýli á 21. öldinni, gæði grænna og blárra svæða og aðgengi fólks að þeim. Leikni: Átta sig á samspili fólk við náttúruleg svæði. Hæfni: Nýta fulltrúa náttúrunnar til að skapa endurheimtandi umhverfi í þéttbýli.
II. Uppbygging rannsókna og vísindalegrar nálgunar
Lýsing: Veitir innsýn í verklag við hönnun umhverfis sem tekur mið af gögnum og þekkingar á þeim.
1. Undirstaða gagnaöflunar:
Þekking: Þekkja grunn kerfisbundinnar nálgunar við þekkingaröflun og ólíka aðferðafræði við gagnaöflun. Kunna skil á mikilvægi rannsóknarspurninga og tilgáta, og markmiðum tilgátuprófana. Leikni: Átta sig á muni þekkingar sem byggir á vísindalegri nálgun og “almennri skynsemi og/eða hyggjuviti”. Hæfni: Geta beitt vísindalegri nálgun í vinnu tengdri skipulagi og hönnun umhverfis.
2. Gagnaöflun fyrir framtíðarumhverfi:
Þekking: Þekkja til gagnaöflunar um upplifun af umhverfi sem sett er fram með ólíkum hætti, allt frá teikningum til sýndarumhverfis. Þekkja hvernig mælingar á upplifun geta haft áhrif á upplifun. Þekkja ólíkar rannsóknaraðstæður og nálgun, sem og uppsetningu rannsóknarverkfæra. Leikni: Átta sig á hvernig framsetning og mælingar geta haft áhrif á mat fólks á umhverfi sínu. Hæfni: Geta yfirfært þekkingu um framsetningu og mælingar inn í vinnu við hönnun og skipulag umhverfis.
3. Samtal við notanda:
Þekking: Þekkja hvað er samráð og ólíkar tegundir þess; samtal, kannanir, þátttökuhönnun og hönnunar-innsetningar. Þekkja til kosta og ókosta ólíkra samráðsaðferða. Leikni: Átta sig á hvernig samráð getur verið mikilvæg uppspretta vísindalegrar gagnaöflunar. Hæfni: Geta tengt saman samráð og vísindalega nálgun.
4. Úrvinnsla gagna og framsetning:
Þekking: Þetta til tölfræðilegra prófana og marktektarprófa, túlkunar niðurstaðna og hagnýtingar þeirra.
Leikni: Búa yfir skilningi á grunnatriðum tölfræðilegra prófa. Hæfni: Kunna að beita einföldum tölfræðiprófum og túlka niðurstöður þeirra.
III. Verkefni A - Samþætting þekkingar og umhverfis - náttúra
Þematengt hópverkefni (4-5 aðilar/hóp)
Nemendur sækja efnivið í umhverfi sitt. Unnið er að sálfræðilegum greiningum á umhverfinu út frá fyrirliggjandi þekkingu og reynslu, gögnum safnað um upplifun fólks af náttúru, grænum svæðum og/eða bláum svæðum, og niðurstöður fléttaðar saman við vísindalega þekkingu. Verkefni skilað á skýrsluformi.
2. ÖNN
I. Samspil fólks og byggðs umhverfis
Lýsing: Veitir grunnskilning á samspili fólks og byggðs umhverfis með áherslu á heilsu, aðlögun og vellíðan. Farið yfir efnislega (physical) umhverfis sem hafa sálræn og líkamleg áhrif, og hvernig megi nýta þá þekkingu til að hanna mannvænt þéttbýlisumhverfi.
1. Byggt umhverfi - fjölbreytileiki:
Þekking: Skilja hvað er fjölbreytileiki umhverfis og hvernig hann er metinn. Skilja tengsl fjölbreytileika við aðlögun, upplifun og sálfræðilega endurheimt. Leikni: Átta sig á tengslum fjölbreytileika, skynjunar og líðanar. Hæfni: Yfirfæra þekkingu á sálrænum áhrifum fjölbreytileika á hönnun endurheimtandi þéttbýlisumhverfis.
2. Byggt umhverfi - skali:
Þekking: Þekkja umlykingu og samspil hæðar og umfangs bygginga, og stærðar skala við aðlögun, upplifun og sálfræðilega endurheimt. Leikni: Átta sig á tengslum skala, skynjunar og líðanar. Hæfni: Yfirfæra þekkingu á sálrænum áhrifum skala á hönnun endurheimtandi þéttbýlisumhverfis.
3. Byggt umhverfi - tilfinningaleg tengsl:
Þekking: Skilja tilfinningaleg tengsl fólks við umhverfið og hvaða máli þau skipta; öryggi, öryggistilfinning, staðarvensl. Þekkja samspil tilfinningalegra tengsla og sálfræðilegrar endurheimt. Skilja mun á mati einstaklinga og hópa. Leikni: Átta sig á ólíkum þörfum og tengslum einstaklinga og hópa við umhverfi sitt. Hæfni: Tvinna tilfinningaleg tengsl við hönnun, mótun og skipulag þéttbýlis.
4. Byggt umhverfi - mannlíf:
Þekking: Skilja hvað er mannlíf og hvað skapar mannlíf og hvað dregur úr því. Leikni: Geta greint þætti í umhverfinu sem auka mannlíf og draga úr því. Hæfni: Tvinna þekkingu á umhverfisþáttum og tilfinningalegum tengslum saman við mannlíf og þróun þess innan þéttbýlis.
II. Sýndarupplifun
Lýsing: Kynnir notkun stafrænnar tækni sem gerir fólki kleift að upplifa manngert umhverfi áður en það er byggt.
1. Miðluð upplifun:
Þekking: Skilja grunnhugtök á sviði miðlaðrar upplifunar. Þekkja þær leiðir sem hægt er að fara til að miðla skipulagi og hönnun umhverfis á stafrænu formi. Þekkja kosti og galla mismunandi leiða til miðlunar.
Leikni: Geta notað ýmsan myndvinnslu og þrívíddarhugbúnað til að búa til einfalda sýn á skipulag og hönnun. Hæfni: Kunna að nýta og velja áhrifaríkar leiðir til að miðla skipulagi og hönnun stafrænt.
2. Notkun leikjavéla:
Þekking: Skilja hvað leikjavélar eru og hvernig þær geta nýst við miðlun þrívíddargagna. Þekkja helstu eiginleika gagnvirkrar miðlunar, bæði kosti og galla. Leikni: Geta notað leikjaþróunarumhverfi til að miðla einfaldri hönnun umhverfis með gagnvirtkum hætti. Hæfni: Kunna að beita leikjavélatækni þegar það á best við í miðlun skipulags og hönnunar.
3. Endurgjöf og hegðun:
Þekking: Vita hvernig hægt er að mæla upplifun fólks í sýndarumhverfi. Þekkja leiðir til að fá endurgjöf frá fólki meðan það upplifir umhverfi. Þekkja leiðir til að fylgjast með og skrásetja hegðun fólks innan í sýndarumhverfi. Leikni: Geta lagt fyrir gagnvirkar spurningar meðfram upplifun. Geta safnað upplýsingum um notendahegðun. Hæfni: Kunna að safna gögnum um upplifun fólks af stafrænu umhverfi og hagnýta þau.
III. Verkefni B - Samþætting þekkingar og umhverfis - byggt umhverfi
Þematengt hópverkefni (4-5 aðilar/hóp)
Nemendur sækja efnivið í umhverfi sitt og þar sem unnið er með tiltekna staði á landinu. Þrívíddarlíkan af svæðinu er unnið og einföld þrívíddarlíkön af mannvirkjum sett upp. Unnið að sálfræðilegum greiningum á umhverfinu út frá fyrirliggjandi þekkingu og reynslu, gögnum safnað um upplifun fólks af byggðu umhverfi, þ.e. götumyndum og/eða torgum og niðurstöður fléttaðar saman við vísindalega þekkingu. Verkefni skilað á skýrsluformi.
3. ÖNN
I. Lífeðlisfræði og umhverfi
Lýsing: Veitir grunnskilning á samspili umhverfisþátta og lífeðlisfræðilegrar svörunar. Hér er meðal annars verið að skoða ólík kerfi líkamans og hlutverk þeirra. Efnislegir umhverfisþættir skoðaðir og ræddir, og samspil þeirra við andlega og líkamlega þættir rætt.
1. Grunnkerfi og tengsl grunnkerfa við bætta heilsu og hugarstarfsemi:
Þekking: Þekkja grunnkerfi og helstu virkni þeirra og samstarf, eins og hjarta og æðakerfi, hormónakerfið og heila sem og við hugræna virkni, vellíðan og bætta heilsu. Leikni: Geta greint á milli ólíkra kerfa og hlutverka þeirra í heilsu og virkni almennt. Geta metið hvaða kerfi gefur mestar upplýsingar hverju sinni. Hæfni: Að geta nýtt þekkingu á grunnkerfum til að meta hvaða kerfi er mikilvægt/áhugavert að skoða hverju sinni. Geta skilgreint út frá þekkingu hvernig ólíkir umhverfisþættir geta dregið úr virkni hvers kerfis og þannig haft áhrif á virkni og heilsu.
2. Mælingar og úrvinnsla gagna:
Þekking: Hafa þekkingu á helstu mælieiningum og þeim upplýsingum sem þær gefa. Hafa skilning á takmörkunum og styrkleikum hverrar mælieiningar. Geta gert grein fyrir hlutverki hugrænna prófa í mælingum á lífeðlislegri virkni. Leikni: Geta greint á milli ólíkra mælinga og metið hvaða mælingu er best að nota hverju sinni. Hæfni: Geta nýtt þekkinguna til að hanna viðeigandi rannsóknir/mælingar á lífeðlislegri virkni í ákveðnu umhverfi.
3. Veður og ljósvist:
Þekking: Þekkja sálræn áhrif veðurs; samspil vindafars og endurheimtar, mikilvægi birtu fyrir sálarheill. Skilja samspil þétting byggðar, vinds, skuggavarp og endurheimtar. Leikni: Átta sig á mikilvægi vindafars og ljósvistar fyrir líðan og heilsu. Hæfni: Þekkja megindrætti varðandi vind og ljós fyrir hönnun endurheimtandi þéttbýlisumhverfis.
4. Hljóðvist og loftgæði:
Þekking: Þekkja sálræn áhrif hljóðs, hávaði og loftgæða, og áhrif á líðan og heilsu. Leikni: Átta sig á mikilvægi hljóðvistar og loftgæða fyrir líðan og heilsu. Hæfni: Þekkja megindrætti í hljóðvist og loftgæði fyrir hönnun endurheimtandi þéttbýlisumhverfis.
II. Sýndarveruleikatækni
1. Tækni og búnaður.
Þekking: Vita hvað sýndarveruleiki er. Þekkja sögu sýndarveruleikatækni og hvar tæknin hefur helst verið nýtt. Vita í grófum dráttum hvernig tæknin virkar. Leikni: Geta sett upp og notað sýndarveruleikagleraugu til að upplifa umhverfi sem aðrir hafa smíðað. Geta fengist við algengustu tæknierfiðleika sem geta komið upp við notkun sýndarveruleikabúnaðar. Hæfni: Geta valið, sett upp og nýtt algengan sýndarveruleikabúnað.
2. Þróun umhverfis og viðmóts.
Þekking: Vita hvaða verkfæri eru í boði til að þróa umhverfi sem hægt er að upplifa með sýndarveruleikabúnaði. Þekkja þær helstu kröfur sem sýndarveruleiki gerir til uppbyggingu þrívíddarumhverfa (s.s. varðandi flækjustig og teikniaðferðir). Þekkja helstu leiðir til að ferðast um umhverfi í sýndarveruleika, kosti þeirra og galla. Þekkja helstu leiðir til að setja fram gagnvirkt notendaviðmót og skilja hvernig slíkt viðmót er frábrugðið hefðbundnu viðmóti í tvívídd. Leikni: Geta notað leikjaþróunartól til að búa til einfalt þrívíddarumhverf sem hægt er að upplifa með sýndarveruleikabúnaði. Geta sett upp einfalt viðmót til að ferðast um umhverfið og svara spurningum. Hæfni: Geta sett fram tillögu að skipulagi eða hönnun með áhrifaríkum og þægilegum hætti í gagnvirkum sýndarveruleika.
3. Áskoranir og framtíð.
Þekking: Vita hverjir helstu veikleikar sýndarveruleikatækninnar eru og hvernig tekist hefur á við þá fram að þessu. Vita hvað hermiveiki (e. simulation sickness) er, hvernig áhrif hennar eru mæld og hvernig er hægt að hanna upplifun sem lágmarkar möguleikann á að veikin komi upp. Þekkja hvert tæknin stefnir og hvaða tækniframfarir eru í sjónmáli. Átta sig á útbreiðslu tækninnar og þróun sýndarveruleikalausna fyrir almenning. Leikni: Geta greint helstu áhættuþætti sýndarveruleikaverkefnis. Geta gert tillögur að lausnum ef veikleikar finnast. Hæfni: Geta með lausnamiðuðum en gagnrýnum hætti innleitt eða gert áætlun um innleiðingu sýndarveruleikatækni í skipulags og hönnunarferla þar sem það á best við.
III. Verkefni C - Rannsókn og hagnýting I
Þematengt hópverkefni (4-5 aðilar/hóp)
Útbúið er þrívíddarmódel af raunverulegum stað sem býður upp á áhugaverða sýn á hönnun og skipulag. Mögulega byggir val umhverfisins á niðurstöðum verkefna A og B. Umhverfið fært inn í gagnvirkan sýndarveruleika þar sem bætt verður við ýmsum náttúrulegum eiginleikum, s.s. umhverfishljóði, birtu og veðráttu. Rannsóknarspurning er sett fram, rannsóknarsnið kosið, og gagnasöfnunarviðmót sett upp í sýndarveruleikanum. Prófun á útfærslu rannsóknarinnar (pilot) fer fram með hópi þátttakenda. Fyrstu gögn verða greind og rannsóknin rýnd, bæði með hliðsjón af vísindalegu gildi og hagnýtingar niðurstaðna.
4. ÖNN
I. Umhverfi innandyra og samtalið
Lýsing: Veitir grunnskilning á samspili fólks og innan umhverfis með áherslu á heilsu og vellíðan. Farið yfir efnislega þætti sem hafa sálræn og líkamleg áhrif, og hvernig megi nýta þá þekkingu til að hanna mannvænt umhverfi. Þá er farið í muninn á vísindalegri þekkingu innan umhverfissálfræðinnar og sölumennsku þegar kemur að kynningu hugmynda.
1. Umhverfi innandyra - Vinnustaðir:
Þekking: Þekkja samspil fólks og umhverfis á vinnustöðum, m.a. út frá aðlögun, upplifun og sálfræðilega endurheimt. Leikni: Geta áttað sig á í stórum dráttum hvort hönnun tekur mið af sálfræðilegum þörfum og sé heilsueflandi. Hæfni: Nýta sálfræðilegar þarfir og atferli fólks sem leiðarvísir við hönnun, mótun og skipulag vinnuumhverfis.
2. Umhverfi innandyra - Heilsustofnanir:
Þekking: Þekkja samspil fólks og umhverfis á heilsustofnunum, m.a. út frá aðlögun, upplifun og sálfræðilega endurheimt. Leikni: Geta áttað sig á í stórum dráttum hvort hönnun tekur mið af sálfræðilegum þörfum og sé heilsueflandi. Hæfni: Nýta sálfræðilegar þarfir og atferli fólks sem leiðarvísir við hönnun, mótun og skipulag umhverfis innan heilsustofnana.
3. Umhverfi innandyra - Skólar:
Þekking: Þekkja samspil fólks og umhverfis í skólum, m.a. út frá aðlögun, upplifun og sálfræðilega endurheimt. Leikni: Geta áttað sig á í stórum dráttum hvort hönnun tekur mið af sálfræðilegum þörfum og sé heilsueflandi. Hæfni: Nýta sálfræðilegar þarfir og atferli fólks sem leiðarvísir við hönnun, mótun og skipulag skólaumhverfis.
4. Samtalið - kynningin:
Þekking: Þekkja muninn á gagnreyndri þekkingu á sviði umhverfissálfræði og sölusálfræði. Átta sig hvað er kynnt og hvernig, hvernig framsetning hefur áhrif á mat fólks og hvað þurfi til svo sameiginlegur skilningur ólíkra hagaðila náist fram. Leikni: Vera fær um að greina á milli vísindalegrar þekkingar á samspili fólks og umhverfis, og sölumennsku. Hæfni: Vera fær um að halda uppi gagnrýninni umræðu þegar framtíðarumhverfi er kynnt.
II. Verkefni D - Rannsókn og hagnýting II
Sjálfstætt lokaverkefni (4-5 aðilar/hóp)
Lokaverkefni námsins er sjálfstætt verkefni þar sem nemendur í hópum velja sér viðfangsefni eftir áhuga og mögulegum tengingum við starfsvettvang. Nemendur eru hvattir til að nýta sér vel þá yfirgripsmiklu þekkingu sem þeir hafa unnið sér inn í námslínunni, og að endurnýta afurðir fyrri verkefna. Auk þeirra aðferða sem nemendur hafa þegar beitt, verður boðið upp á nýja möguleika. Til dæmis verður hægt að búa til aðstæður innandyra sem leyfir skoðun og rannsóknir á samspili þess að vera innandyra og utan sem veitt getur áhugaverða sýn á hönnun og skipulag og mun á því að vera inni og úti. Reiknað er með að umhverfin verði sett upp í gagnvirkum sýndarveruleika þar sem nemendur geta kosið að útfæra þá eiginleika sem þeir hafa áhuga á að skoða. Rannsóknarspurning er sett fram, rannsóknarsnið kosið, og gagnasöfnunarviðmót sett upp í sýndarveruleikanum. Prófun á útfærslu rannsóknarinnar (pilot) fer fram með hópi þátttakenda. Fyrstu gögn verða greind og rannsóknin rýnd, bæði með hliðsjón af vísindalegu gildi og hagnýtingar niðurstaðna.
Upplýsingar fyrir nemendur
Inntökuskilyrði
Menntun
Inntökuskilyrði í námið er BA, BSc eða sambærilegt próf.
Umsókn og fylgigögn
Umsækjendur fylla út rafræna umsókn og eftirtöldum fylgigögnum skal skila inn í umsóknarkerfið:
- Staðfest afrit af prófskírteini og námsferilsyfirliti.
- Yfirlit yfir náms- og starfsferil (ferilskrá á ensku eða íslensku).
- Greinargerð: Hvers vegna sækir þú um námið og hvert er markmið þitt með náminu? Greinargerð skal vera allt að 300 orð og skilað á pdf-formi í gegnum umsóknarkerfi.
- Matsblað: Að minnsta kosti eitt matsblað á að fylgja umsókn. Matblað skal koma frá einstaklingi sem er hæfur til meta getu umsækjenda til að takast á við námið. Matsblaðið má vera á ensku eða íslensku og á að berast beint frá viðkomandi meðmælanda til verkefnastjóra námsins á netfangið hildur@ru.is. Vinsamlega biðjið meðmælanda að fylla út matsblað og senda það svo á pdf formi.
- Matsblað fyrir meðmælendur
- Referee evaluation form
-
Nemendur þurfa að framvísa sakavottorði við upphaf náms á skrifstofu skólans. Kallað er eftir fyrrnefndum upplýsingum þar sem námið felur í sér verknám á staði þar sem unnið er með viðkvæmum hópum. Á þessum stöðum er almennt óheimilt að ráða inn einstaklinga sem hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hefningarlaga nr. 19/1940. Verknám þetta er mikilvægur þáttur námsins og er forsenda fyrir útskrift úr námslínunni. Það þarf ekki að skila inn sakavottorði með umsókn.
Umsóknarfrestur
- Umsóknarfrestur er frá 5. febrúar til 30. apríl.
- Öll gögn verða að berast áður en umsóknarfrestur rennur út.
Hafðu samband
