MSc í byggingarverkfræði

MSc in Civil Engineering

Vinsamlega athugið að ekki er tekið við nýjum nemendum á þessa námsbraut fyrr en á vorönn 2018.

Byggingaverkfræðingar koma að uppbyggingu, stjórnun og rekstri á öllum innviðum samfélaga. Má þar nefna húsbyggingar, virkjanir, vegir, hafnir, háspennulínur o.s.frv. Hlutverk Byggingaverkfræðinga er jafnframt að sjá um rekstur og viðhald á nær öllum þeim þáttum  sem snúa að hinu manngerða umhverfi. Umhverfismál skipta miklu máli hvað varðar alla ákvarðanatöku um nýframkvæmdir, rekstur og förgun efna. Byggingaverkfræðingar gegna þar stóru hlutverki við að lágmarka áhrif hins manngerða umhverfis.  

Um námið

Í framhaldsnámi býðst nemendum kostur á að afla sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. 

  • Námið er 120 ECTS og tekur almennt 4 annir að loknu 180 ECTS BSc prófi.
  • Fullt nám er 30 ECTS á önn. Flest námskeið eru 6-8 ECTS og taka nemendur í fullu námi yfirleitt 4 námskeið á önn.
  • Nemandi á möguleika á skiptinámi við erlendan háskóla. 
  • Náminu lýkur með 30-60 ECTS meistaraverkefni.

Hver nemandi velur sér námsgreinar og gerir einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við umsjónarkennara sinn. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar.

Hægt er að stunda skiptinám í 1-2 annir við einn af fjölmörgum samstarfsskólum HR og eru nemendur hvattir til að nýta sér það.

Kennslan er byggð á fyrirlestrum, verkefnavinnu og rannsóknarverkefnum. Lögð er áhersla á námskeið sem tengjast mannvirkjahönnun, steinsteyputækni og framkvæmdastjórnun. 

Fjöldi valnámskeiða er í boði, bæði innan tækni- og verkfræðideildar og einnig úr námsframboði viðskiptadeildar og lagadeildar HR.

Hægt er að stunda skiptinám í 1-2 annir við einn af fjölmörgum samstarfsskólum HR og eru nemendur hvattir til að nýta sér það.

Lýsingar á efni námskeiða er að finna í kennsluskrá

MSc í Byggingarverkfræði heyrir undir Byggingarsvið

Starfsnám og tengsl við atvinnulífið 

Nemendur geta sótt um starfsnám, en þannig auka þeir þekkingu sína á viðfangsefnum byggingarverkfræðinnar og öðlast góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu. 

Nemendur fá metnar einingar vegna starfsnámsins. Í meistaranámi er starfsnámið viðamikið eða 14 ECTS einingar og er á haustönn.

Starfsnámið veitir forskot!

Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við nemendum í starfsnám:

• Actavis • Arion banki • Blóðbankinn • EFLA • Elkem • Fjármálaráðuneytið • Hjartavernd • ÍSOR • Ikea• Landsbankinn • Landsnet • Landspítalinn • Landsvirkjun • Mannvit • Marel • Marorka • Olís • Orkuveitan • Raförninn • Samskip • Securitas • Síminn • Sjóvá • Verkís • Vodafone • Össur

Í hópi framsækinna tækniháskóla HR tekur þátt í alþjóðlegu samstarfsneti framsækinna háskóla um allan heim sem kenna tæknigreinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni sem höfð er til hliðsjónar er verkfræðingum framtíðarinnar veittur traustur, fræðilegur grunnur en þeir vinna þar að auki raunhæf verkefni ásamt því að leysa verkefni í hópum. Nemendur kunna því á ferlið frá hugmynd yfir í hönnun, framkvæmd og rekstur þegar þeir koma á vinnumarkaðinn. Samstarfsnetið heitir CDIO, sem stendur fyrir „Conceive, Design, Implement, Operate“. 

Aðrir skólar í CDIO eru meðal annars:
MIT - Massachusetts Institute of Technology • Aalborg University • Delft University of Technology • Duke University • University of Michigan • University of Sydney • Beijing Jiaotong University

Að námi loknu

Þegar nemendur hafa lokið MSc-gráðu í byggingarverkfræði, eftir grunnnám til BSc-gráðu, öðlast þeir starfsréttindi sem verkfræðingar. 

Meistaranámið í byggingarverkfræði er hægt að byggja ofan á grunnnám í verkfræði eða tæknifræði.

Starfsvettvangur

Byggingarverkfræðingar fást við störf tengd mótun umhverfis og mannvirkjagerð framtíðarinnar. Í því felst meðal annars hönnun, framkvæmdastjórnun og rekstur mannvirkja. Einnig má nefna umsýslu fasteigna, störf í fagtengdri stjórnsýslu á vegum ríkis og sveitafélaga, stjórnun og eftirlit í verktaka- og framleiðslufyrirtækjum. Þeir fást einnig við umhverfismál, svo sem umhverfismat framkvæmda, endurvinnslu og förgun úrgangs og þróun á umhverfisvænum lausnum fyrir byggingariðnaðinn.

Verkefni

Mæla hraða vindsins 200 sinnum á sekúndu

Jónas Þór Snæbjörnsson er prófessor á byggingarsviði tækni- og verkfræðideildar. Hann vinnur þessa dagana að rannsókn sem miðar að því að bæta skilning okkar á áhrifum vinds á mannvirki. Innan deildarinnar er starfrækt rannsóknarsetur í mannvirkjahönnun þar sem meðal annars er lögð áhersla á að efla fræðilegar rannsóknir á eðli og áhrifum umhverfistengds álags á byggingar og önnur mannvirki.

Nýtist einnig við eftirlit

Jónas Þór, ásamt fræðimönnum við Háskólann í Stavanger í Noregi, vinnur að rannsóknum á brú yfir Lysefjörð; 637 metra langri hengibrú með 446 metra haflendi milli turna. Helsti tilgangur rannsóknarinnar er að mæla vindálag á brúna og bæta reiknilíkön sem lýsa vindáhrifunum og svörun brúarinnar. Þannig fáist upplýsingar um ástand og hegðun brúarinnar sem geta nýst til að bæta hönnunarforsendur fyrir nýjar brýr. „Til að byggja stærri brýr þarf betri gögn svo hægt sé að gera raunhæfar áætlanir um eiginleika vindsins og áhrif hans á svörun mannvirkisins.


Gögnin sem við söfnum í rannsókninni munu einnig nýtast við eftirlit með brúnni og sú reynsla mun vonandi verða til að bæta og auka skilning á mikilvægi eftirlits með slíkum mannvirkjum almennt,“ segir Jónas Þór. Hann segir rannsókn sem þessa auka skilning á eðli vindsins og áhrifum hans á mannvirki. „Þar með munum við vita meira um hegðun hengibrúa og samspil áraunar og svörunar mannvirkja. Þetta á jafnt við um vinda sem og áhrif umferðar á brúna.“

200 mæligildi á sekúndu

Til að safna gögnunum hafa verið settir upp sjö vindhraðanemar eftir endilangri brúnni og einn í mastur á öðrum turni brúarinnar. Nemarnir safna gögnum um augnabliks vindhraða og vindátt 20 sinnum á sekúndu. „Núverandi tölfræðilíkön gera ráð fyrir því að skilyrði séu þau sömu á allri brúnni en í raun og veru er vindhraði mismunandi á mismunandi stöðum á brúnni.

Kerfisbundnar mælingar á næstu árum munu gera það mögulegt að segja eitthvað um fylgni iðustreymis eftir lengd brúarinnar og slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir hönnun langra brúa,“ útskýrir Jónas Þór. Að auki voru sex hröðunarnemar settir upp á mismunandi stöðum, inni í brúarkassanum og tveir uppi á öðrum turninum. Hver hröðunarnemi skráir hröðun virkisins í þrjár stefnur, það er langsum eftir brúnni, þvert á brúna og lóðrétt, allt að 200 sinnum á sekúndu.

Tilgangur þeirra er að nema sveiflur brúarinnar þannig að hægt sé að tengja saman vindáraunina og svörunina. Rannsóknin mun að öllum líkindum taka 3 - 5 ár. „Það getur liðið langur tími milli storma eða áhugaverðra vindaðstæðna sem örva sveiflur í brúnni og þess vegna er mikilvægt að fylgjast með mannvirkjum yfir lengri tíma.“

Verkefnið hófst í nóvember 2013, eftir næstum tveggja ára undirbúning og hefur verið kynnt á tveimur ráðstefnum í sumar, það er á IN-VENTO 2014 (XIII Conference of the Italian Association for Wind Engineering) sem haldin var í júní í Genúa á Ítalíu og WES 2014 (11th Biennal Conference of the UK Wind Engineering Society) sem haldin var 8.-10. september í Birmingham á Bretlandi. Einnig hafa verið skrifaðar nokkrar meistararitgerðir tengdar verkefninu auk þess sem doktorsnemi er að vinna að verkefninu.

Nýtist hér á landi

Í sumar, nánar tiltekið 9. ágúst, gekk mjög stór stormur yfir Noreg, sem olli ýmsu tjóni. Meðal annars valt húsbíll á Lysefjord brúnni. Jónas Þór segir að spennandi verði að skoða mælingarnar frá brúnni þennan dag, en hann hefur meðal annars rannsakað áhrif storma á umferð á íslenskum vegum, sérstaklega þar sem fjöll eða annað landslag getur skapað varasamar vindaðstæður í sterkum stormum.Var efnið hjálplegt? Nei