Rekstrarverkfræði MSc

Nútímastjórnendur þurfa að geta tekið ákvarðanir varðandi rekstur, nýsköpunarverkefni og flókin alþjóðleg viðskipti. Í rekstrarverkfræði er hefðbundinni verkfræði og rekstrarfræði blandað saman til að undirbúa fólk fyrir slík störf.

• Horfa á kynningarfund um meistaranám við verkfræðideild

Um námið

Nemendur og kennarar segja frá námi í rekstrarverkfræði við HR. 

Þekking og færni 

Rekstrarverkfræði veitir nemendum fræðilegan grunn og þjálfun fyrir fjölbreytileg störf í fyrirtækjum svo sem við framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og verkefnastjórnun. Í verkfræðinámi læra nemendur að greina flókin og fjölbreytt viðfangsefni og þróa lausnir sem byggja á stærðfræði- og raunvísindaþekkingu. Meistaranám í verkfræði er tveggja ára námi.

Margvísleg viðfangsefni í vali

Val í meistaranámi

Í meistaranámi er hægt að velja áherslu á stjórnun eða aðgerðagreiningu.

Lifandi nám

Nemendur í rekstrarverkfræði hljóta fræðilega undirstöðu og þurfa að nota þá þekkingu til að leysa raunveruleg verkefni af ýmsum toga. Með því að glíma við raunhæf verkefni og finna lausnir við vandamálum hljóta nemendur góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig kennslan og námsefnið miðar að því að veita nemendum dýrmæta reynslu.

12+3 kerfið

Í náminu eru annirnar brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Starfsnám

Nemendur geta lokið starfsnámi hjá fyrirtækjum þar sem þeir fá tækifæri til að nýta þekkingu sína og kynnast því hvernig tekist er á við hagnýt og raunveruleg verkefni. Verkfræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir. Nemendur í grunnnámi geta sótt um 6 eininga starfsnám á vorönn á lokaári og meistaranemar geta sótt um 14 eininga starfsnám á haustönn.

Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við nemendum í starfsnám:

• Actavis • Arion banki • Blóðbankinn • deCode • EFLA • Elkem • Fjármálaráðuneytið • Hjartavernd • Íslandsbanki • ÍSOR • Ikea • Landsbankinn • Landsnet • Landspítalinn • Landsvirkjun • Mannvit • Marel • Marorka • Olís • Orkuveitan • Raförninn • Samey • Samskip • Securitas • Síminn • Sjóvá • Verkís • Virðing • Vodafone • VSÓ ráðgjöf • Össur

CDIO-samstarfsnetið

Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið. Þetta samræmist hugmyndafræði CDIO, sem er samstarfsnet framsækinna háskóla sem kenna tæknigreinar og HR er þátttakandi í.

Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða verkfræðilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.

Lesa meira um CDIO - Conceive, Design, Implement, Operate

Undirbúningur fyrir atvinnulífið

Nemendum býðst að vinna hagnýt, raunhæf verkefni þar sem markmiðið er að undirbúa þá fyrir atvinnulífið. Námskeiðin eru umfangsmikil og vinnan dreifist á 15 vikur. Unnið er í hópum. 

 • Nemendur í BSc rekstrarverkfræði ljúka námskeiðinu Líkan X.
 • Í MSc verkfræði ljúka nemendur námskeiðinu Samþætt verkefni I þar sem lögð er áhersla á hönnun, greiningu, nýsköpun og frumkvöðlafræði.

Dæmi um verkefni í Líkan X

Nemendur áttu að nota raungögn frá innhringiveri til að herma álag á innhringiverið og besta vaktaskipulag fyrirtækisins. Í upphafi námskeiðsins voru gögnin krufin og skoðuð spálíkön til að meta hversu auðvelt er að spá fyrir um álag og biðtíma notenda. Í kjölfarið var búið til hermilíkan frá grunni í Python forritunarmálinu þar sem starfssemi innhringiversins var skoðuð í þaula. Þegar hermilíkanið var tilbúið var það notað sem inntak í bestunarlíkan sem gaf tillögu um vaktaskipulag. Vaktaskipulagið úr bestunalíkaninu var útbúið þannig að alltaf væru nægilega margir starfsmenn á vakt til að ráða við það álag sem spálíkön og hermilíkanið spáðu fyrir um, og að væntur biðtími notenda yrði haldið innan þeirra marka sem fyrirtækið telur æskilegt.  

Skiptinám

Nemendur í meistaranámi geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Skrifstofa alþjóðaskipta veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.

Verkfræði og tölvunarfræði

Nemendur geta hagað vali þannig að þeir ljúki BSc-námi í verkfræði og BSc-námi í tölvunarfræði. Að því loknu ljúka þeir meistaranámi í verkfræði og útskrifast með lögverndað starfsheiti sem verkfræðingur og jafnframt lögverndað starfsheiti sem tölvunarfræðingur.

Nýsköpun þvert á deildir

Nemendur í meistaranámi í HR geta valið námskeið í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum þvert á deildir háskólans. Námskeiðin auka þekkingu og færni nemenda á öllum helstu sviðum nýsköpunar: fræðilegri þekkingu, skapandi nálgun viðfangsefna, vöruþróun, áætlanagerð, stjórnun og fjármálum. Ljúki nemendur 30 einingum á þessu sviði geta þeir útskrifast með nýsköpunar- og frumkvöðlafræði sem sérsvið.

Að námi loknu

Starfsréttindi

Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 ECTS) grunnnámi og tveggja ára (120 ECTS) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hvað eru útskrifaðir nemendur að fást við?

Guðlaug Jökulsdóttir

„Ég lauk MSc-gráðu í rekstrarverkfræði frá HR vorið 2013 og um haustið var ég ráðin inn á Verkfræðideild Icelandair. Þegar ég stóð á sviði Eldborgar í Hörpu í júnímánuði óraði mig ekki fyrir því að nokkrum mánuðum síðar yrði viðhald á flota Icelandair að hluta til undir mér komið.

Ég er sérfræðingur á Verkfræðideild Icelandair og sinni þar ýmsum störfum sem koma að viðhaldi á rúmlega þrjátíu flugvélum, bæði hérlendis og í Papúa Nýju Gíneu. Þegar ég hóf störf hjá Icelandair byrjaði ég sem verkfræðingur viðhaldskerfis, þar sem ég sá um uppfærslu á kerfinu. Nú hafa fleiri áhugaverð verkefni bæst við og sinni ég meðal annars verkefnastjórnun og kem að ýmsum innleiðingum tengdum verkfræðideild, svo sem LEAN, JIRA-kennslu auk þess að sjá um viðhaldskerfið fyrir Boeing 767 vélar Icelandair sem eru í rekstri hjá Air Niugini í Papúa Nýju Gíneu.

Það sem hefur nýst mér hvað mest í starfi úr námi mínu í rekstrarverkfræði er tækni til úrlausnar á vandamálum. Í daglegum störfum mínum koma oft upp vandamál sem þarf að kryfja og leysa og hefur verkfræðiheilinn nýst mér vel á þeim vettvangi. Auk þess hefur þekking mín og kunnátta á Excel reynst mér mjög vel en hana má helst rekja til vinnslu lokaverkefnis míns í meistaranámi.

Flugheimurinn er skrítinn og flókinn heimur en ég finn það vel hvað menntun mín er góð stoð og mikil hjálp í mínum daglegu störfum. Kennslan í Háskólanum í Reykjavík var til fyrirmyndar og hefur reynst mér ómetanlegur undirbúningur og nauðsynlegt upphaf á ferli mínum sem verkfræðingur.“

Skúli Magnús Sæmundsen

„Mér þótti nám við verkfræðideild HR bæði hagnýtt og viðburðaríkt. Meðal annars stóð mér til boða að fara í skiptinám erlendis, til Barcelona og Kaupmannahafnar, sem ég nýtti mér og sú reynsla staðfesti enn frekar fjölbreytni og gæði námsins. Námið hefur reynst mér góður stökkpallur út í atvinnulífið og hefur gefið mér góða undirstöðu til að takast á við þau margvíslegu verkefni sem ráðgjafastarfið hefur upp á að bjóða, en ég er ráðgjafi hjá Expectus ehf.“ 

Leiðtogar sem takast á við ný tækifæri

Markmið rekstrarverkfræðinámsins er að mennta stjórnendur, sérfræðinga og leiðtoga sem geta tekist á við nýsköpunarverkefni, flókin alþjóðleg viðskipti og uppbyggingu nýrra tækifæra í atvinnulífinu.

Starfsnámið veitir forskot

Nemendur í verkfræði við HR geta sótt um starfsnám. Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu.

Skipulag MSc

Til þess að öðlast starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc námi loknu að ljúka tveggja ára MSc námi.

Sérhæfing og einstaklingsmiðað nám

Í framhaldsnámi afla nemendur sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar.

MSc nám - 120 einingar - 2 ár

Flest námskeið eru kennd í 12 vikur, en í lok hverrar annar er eitt námskeið kennt í 3 vikur.

MSc 1. ár
Haust Vor
 • Bestunaraðferðir
 • Hagnýt líkindafærði
 • Gagnanám og vitvélar
 • Valnámskeið - þriggja vikna námskeið
 • Aðferðafræði rannsókna (4 ein)
 • Gerð viðskiptaáætlunar fyrir tæknilega hugmynd - nýsköpun og frumkvöðlafræði
 • Valnámskeið - þriggja vikna námskeið
MSc 2. ár
HaustVor
 • Valnámskeið / skiptinám / fyrri hluti 60 eininga lokaverkefnis
 • 30 eininga lokaverkefni / seinni hluti 60 eininga lokaverkefnis

Útskrift með MSc í verkfræði og lögverndað heiti sem verkfræðingur

Meistaraverkefni

Meistaraverkefni er 30 einingar, unnið á lokaönn. Valnámskeiðum er ætlað að auka skilning og undirbúa rannsóknarefni nemandans. Hægt er að sækja um að vinna 60 eininga meistaraverkefni og taka þá samsvarandi færri valnámskeið.

Skiptinám og starfsnám

Nemendur geta sótt um starfsnám (12 einingar) á vorönn. Nemendur geta sótt um skiptinám á haust- eða vorönn.

Annað

Verkefni

Dæmi um verkefni nemenda í rekstrarverkfræði við HR:

Notkun á bestunarmódeli við verkniðurröðun í framleiðslu

Rannveig Guðmundsdóttir

Samkeppni í framleiðsluiðnaði er stöðugt að aukast. Fyrirtæki framleiða gjarnan sambærilegar vörur og keppa um hylli kaupenda á grundvelli verðs, gæða og sveigjanleika. Til að skapa sér samkeppnisforskot þurfa fyrirtæki að hámarka afköst og nýta sínar fjárfestingar í tækjum og mannauði sem best. Þar getur árangursrík verkniðurröðun skipt höfuð máli og með aukinni samkeppni hefur mikilvægi verkniðurröðunar aukist enn frekar. 

>> Lesa meira um notkun á bestunarmódeli við verkniðurröðun í framleiðslu

Mun blóðbankinn þurfa að líða skort?

Guðlaug Jökulsdóttir

Rannsókn Guðlaugar Jökulsdóttur var á sviði íbúamiðaðra rannsókna um lýðfræðileg áhrif varðandi framboð og eftirspurn blóðgjafa. Verkefnið fól í sér smíð á spálíkani til þess að spá fyrir um stöðu blóðgjafa og blóðþega í framtíðinni.

Starf blóðbankans hefur alltaf staðið Guðlaugu nærri var henni mikið í mun að menn og konur gefi blóð, en framboð mætti vera mun meira. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð hérlendis áður og því var spálíkanið hugsað sem gott tól fyrir blóðbankann til þess að spá fyrir um framtíðina og geta í kjölfarið lagt aukna áherslu á blóðsöfnun. 

>> Lesa meira um framboð og eftirspurn blóðgjafa 

Stærðfræðilíkön fyrir úthlutun

Skúli Magnús SæmundsenÁ hverju vori lýkur stór hópur barna leikskólavist á höfuðborgarsvæðinu til að hefja grunnskólagöngu þá um haustið. Um það leyti stendur Reykjavíkurborg frammi fyrir ákvörðunartökuvandamáli um hvernig úthluta eigi lausum plássum leikskóla sem staðsettir eru víðsvegar um borgina. Í dag er þessi úthlutun gerð að mestu leiti handvirkt sem er bæði tímafrekt og ógagnsætt. Í meistaraverkefni sínu í rekstrarverkfræði skoðaði Skúli Magnús Sæmundsen tvö ólík stærðfræðilíkön sem kunna að koma að gagni við úthlutun á lausum plássum og bar þau saman við núverandi fyrirkomulag hjá borginni. 

>> Lesa meira um stærðfræðilíkön fyrir úthlutun leikskólaplássa

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR í Nauthólsvík. Þar er einnig aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Adstadan_bokasafnRáðgjöf og aðstoð

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús

Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.

Kennarar

Rekstrarverkfræði heyrir undir fjármála- og rekstrarsvið

Pall-Jensson

Páll Jensson

PhD

Páll er prófessor við verkfræðideild HR og námsbrautarstjóri fjármála- og rekstrarverkfræðisviðs. Páll kennir áfanga á sviði aðgerðarannsókna, notkunar reiknilíkana og arðsemimats. Í kennslu leggur Páll áherslu á hagnýtingu aðferða rekstrarverkfræðinnar í atvinnulífinu og samfélaginu.
Rannsóknir Páls hafa m.a. fjallað um notkun aðgerða-rannsókna á ýmsum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í sjávarútvegi. Að loknu námi í iðnaðarverkfræði við Danmarks Tekniske Universitet, Danmörku (1972) tók hann doktorspróf í aðgerðarannsóknum (1975), var forstöðumaður Reiknistofnunar HÍ í 10 ár og prófessor í iðnaðarverkfræði í HÍ 1987-2011 þegar hann réðst til HR.
Pall.Kr.mynd

Páll Kr. Pálsson

Lektor

Kennir námskeið í BSc-námi á sviði verkfræðilegra aðferða við stjórnun og í MSc-námi á sviði vöruþróunar, nýsköpunar og frumkvöðlafræða. Páll er með Dipl. Ing.-gráðu (sambærilega Master of Industrial Engineering) frá Tækniháskólanum í Berlín, Þýskalandi.

Páll hefur starfað við ráðgjöf og sem framkvæmdastjóri fyrirtækja í iðnaði, m.a. Vífilfells, Sólar, Varma og fleiri, frá 1981. Hann var forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands (nú Nýsköpunarmiðstöð Íslands) 1986-1990 og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 1997-2000. Þá hefur Páll setið í fjölda stjórna fyrirtækja og sent frá sér nokkrar bækur á sviði rekstrar og stjórnunar.

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson

PhD

Eyjólfur Ingi er dósent við verkfræðideild HR. Hann kennir námskeið í forritun, bæði námskeið sem kenna grunnatriði í forritun og einnig hagnýtari forritun þar sem skoðað er hvernig má útfæra og matreiða gögn til að auðvelda úrvinnslu. Eyjólfur hefur einnig kennt námskeið á sviði aðgerðarannsókna þar sem fjallað er um reikniaðferðir til að taka ákvarðanir og leysa flókin vandamál með notkun stærðfræðilíkana.
Eyjólfur er með CSc-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði (1998) og BSc-gráðu í tölvunarfræði (1999) frá Háskóla Íslands, MSc-gráðu í aðgerðarannsóknum (2002) og PhD-gráðu í aðgerðarannsóknum (2007) frá Columbia University, BNA. Rannsóknir hans eru á sviði aðgerðarannsókna og reiknirita. Sem dæmi um rannsóknarverkefni má nefna bestun og verkniðurröðun í framleiðslufyrirtækjum, skipulag og reiknirit fyrir samskipti í þráðlausum fjarskiptanetum, sanngjarna úthlutun á takmörkuðum gæðum og kvik kerfislíkön fyrir stefnumótun varðandi innleiðingu vistvænna samgangna. Auk rannsókna vinnur Eyjólfur að ráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Hlynur Stefánsson

Hlynur Stefánsson

PhD

Hlynur er dósent við verkfræðideild HR. Hlynur kennir námskeið á sviði aðgerðarannsókna og ákvarðanatökufræða þar sem fjallað er um hagnýtingu á gögnum og reikniaðferðum til að taka ákvarðanir og leysa flókin vandamál með kerfisbundnum hætti. Hlynur hefur einnig kennt námskeið í framleiðslustjórnun, birgðastjórnun, gæðastjórnun og fleiri þáttum sem snúa að stýringu og rekstri aðfangakeðjunnar.
Hlynur er með BSc-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði, MSc-gráðu frá Tækniháskólanum í Danmörku og doktorsgráðu (PhD) frá Imperial College London (2007). Rannsóknir hans eru á sviði aðgerðarannsókna þar sem hann vinnur einkum með hermunar- og bestunaraðferðir til að leysa ýmis hagnýt viðfangefni. Hlynur vinnur að rannsóknum með fjölda vísindamanna hérlendis og erlendis. Sem dæmi um rannsóknarverkefni má nefna bestun á verkniðurröðun og áætlunum, hermun á hagkerfum með einingahermun, reiknilíkön fyrir stýringu á sjálfbærri nýtingu jarðvarma og kvik kerfislíkön fyrir stefnumótun varðandi innleiðingu vistvænna samgangna. Ásamt rannsóknum og kennslu vinnur Hlynur að ráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir þar sem viðfangsefnið er gjarnan að nýta fyrirliggjandi gögn til að bæta ákvarðanir.
HIbw2

Helgi Þór Ingason

PhD

Helgi Þór er prófessor við verkfræðideild HR og forstöðumaður MPM-náms, meistaranáms í verkefnastjórnun. Helgi Þór kennir námskeið í fræðilegum grunni verkefnastjórnunar og áætlanagerð, en einnig kennir hann námskeið á sviði gæðastjórnunar og stjórnunar verkefnadrifinna skipulagsheilda. Rannsóknir Helga Þórs eru á margvíslegum sviðum verkefnastjórnunar sem alhliða stjórnunaraðferðar í rekstri fyrirtækja en einnig á sviði innleiðingar gæðakerfa, sem og á sviðum framleiðsluferla, efnisfræði og umhverfismála í stóriðju.
Helgi Þór er meðhöfundur sjö bóka um verkefnastjórnun og gæðastjórnun og hann er einn af sex stjórnarmönnum í rannsóknarráði IPMA - Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga. Helgi Þór lauk CS og MSc prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og PhD-gráðu frá Norska Tækniháskólanum í Þrándheimi. Einnig hefur hann SCPM-gráðu í verkefnastjórnun frá Stanford University, BNA.
Þórður Víkingur

Þórður Víkingur Friðgeirsson

PhD

Þórður kennir stjórnunartengd námskeið eins og verkefnastjórnun, áhættustjórnun og ákvörðunartökuaðferðir bæði í grunnnámi og meistaranámi. Þórður Víkingur leggur áherslu á að nemendur öðlist skilning á eðli stjórnunar og leiðtogafærni í nútímafyrirtækjum. Lærdómsviðmið námskeiðanna er einnig áhersla á hagnýtt gildi þeirrar þekkingar sem nemendur tileinka sér til að leiða undirbúning og framkvæmd verkefna og taka góðar ákvarðanir með mótaðri aðferðafræði.
Þórður Víkingur veitir forstöðu rannsóknarsetrinu CORDA (Center of Risk and Decision Analysis). Doktorsrannsóknir hans hafa meðal annars beinst að opinberum verkefnum (HR, 2016) og ákvörðunarlíkönum vegna þróunar á Norðurslóðum í kjölfar veðurfarsbreytinga. Þórður Víkingur er í grunninn véla- og rekstarverkfræðingur (AUC, 1990).
Haukur-Ingi-Jonasson

Haukur Ingi Jónasson

PhD

Haukur Ingi kennir einkum áfanga í MPM-námi (Master of Project Management) verkfræðideildar á sviði leiðtogafræði, verkefnastjórnunar, stjórnunarfræði, siðfræði, rökfræði, samingatækni-, deilu- og áfallastjórnunar, og stjórnunar í fjölmenningarlegu samhengi.

Rannsóknir Hauks Inga eru fjölþættar og lúta einkum að samþættingu þekkingar úr hug-, félags-, verk- og raunvísindum. Haukur Ingi vinnur ötullega að því að miðla þekkingu sinni bæði innanlands og erlendis og er höfundur fjölda bóka á þekkingarsviðum sínum. 

Haukur Ingi lauk Cand. Theol.-prófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands og STM (Sacred Theology Master), MPhil. og PhD í geðsjúkdómafræðum og trúarbragðafræðum (Psychiatry and Religion) frá Union Theological Seminary (samstarfsskóli Columbia University) í New York, BNA. Hann hlaut klíníska sjúkrahúsprestsþjálfun (CPE) á Lennox Hill Hospital/The HealthCare Chaplaincy Inc. og lauk klínísku sálgreiningarnámi frá Harlem Family Institute/New York City University í New York, BNA. Haukur Ingi hefur einnig stundað nám við Indiana University School of Business í Indiana, BNA, Heriot Watt Edinburg Business School, Skotlandi og Stanford University í Kaliforníu, BNA.

Ingolfur-Petursson_mynd

Sverrir Ólafsson

PhD

Sverrir er prófessor og kennir meðal annars námskeiðin Inngang að fjármálaverkfræði, Áhættustýringu, Líkindafræði og slembiferla og Skuldabréfagreiningu. Í kennslunni leggur Sverrir áherslu á að góð þekking á fræðunum er forsenda fyrir árangursríkri hagnýtingu þeirra í atvinnulífinu. Rannsóknir hans hafa aðallega snúið að leikjafræði og greiningu ýmisra flókinna kerfa, svo sem fjarskiptaneta. 

Síðastliðin ár hefur Sverrir unnið að rannsóknum á fjármálastöðuleika, eignastýringu og greiningu fjárfestingarmöguleika við óvissu. Hann hefur stundað ráðgjafastörf í mismunandi löndum, haldið fyrirlestra um áhættustýringu á ráðstefnum og fyrir starfsnmenn fjármálastofnana. Sverrir er meðhöfundur fjögurra binda verks um fjármálastærðfræði sem er gefið út af John Wiley. Áður en Sverrir hóf störf hjá Háskólanum í Reykjavík var hann m.a. lektor við Kings College London og síðast yfirmaður langtímarannsókna í rannsóknarstofum British Telecommunications á Englandi. Hann gegnir einnig stöðu gestaprófessors við Queen Mary University of London. Sverrir hlaut doktorsgráðu í fræðilegri öreindaeðlisfræði (1985) frá Háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi.

 

Þorgeir Pálsson prófessor emeritus tpalsson(at)ru.is 599 6357

Affiliated faculty 

Marco Raberto Visting Professor raberto(at)ru.is  

Doktorsnemar

Ágúst Þorbjörn Þorbjörnsson
Einar Jón Erlingsson
Svana Helen Björnsdóttir 

Inntökuskilyrði

MSc í rekstrarverkfræði

Gert er ráð fyrir að nemandi hafi grunngráðu (BSc) í rekstrarverkfræði. Hafi nemandi annan bakgrunn getur viðkomandi þurft að bæta við námskeiðum úr grunnnámi. Í slíkum tilvikum er ætlast til að nemandi klári þessi námskeið á fyrsta námsári sínu.

Umsóknarfrestur

 • Frá 5. febrúar til og með 30. apríl - fyrir haustönn.
 • Frá 15. október til og með 5. desember - fyrir vorönn.

Getum við aðstoðað?

Eva Sigrún Guðjónsdóttir 

Verkefnastjóri - MSc verkfræði


Fara á umsóknarvef

Var efnið hjálplegt? Nei