Frábær vorferð á Vestfirði

Vorferð 2018

Í lok 2. misseris í MPM námi er jafnan farið í vettvangsferð út á land til að heimsækja áhugaverð verkefnadrifin fyrirtæki og skoða verkefni þeirra. Vorferðin í MPM2019 hópnum var farin 20. og 21. apríl á Vestfirði.

Ferðin hófst á Reykjavíkurflugvelli að morgni föstudagins 20. apríl og flogið var á Ísafjörð í frábæru veðri. Fyrsta heimsóknin var í fyrirtækið Arctic Fish sem byggir upp fiskeldi á Vestfjörðum og stendur m.a. í milljarða fjárfestingum í Tálknafirði. Þeir Neil Shiran Thorisson fjármálastjóri og Stein Ove Tveiten fóru yfir sögu og fyrirætlanir fyrirtækisins og fræddu hópinn meðal annars um sjálfbærni, ólík sjónarmið varðandi uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum og mikilvægi fagmennsku í uppbyggingu greinarinnar, og þess að notast við nýjustu tækni og fullkominn búnað til að draga úr áhættu, til dæmis hættu á umhverfisslysum. Þessu næst lá leiðin í 3X Skagann en þar tók Jóhann Bæring verkefnastjóri á móti hópnum. Hann sýndi umfangsmikla starfsemi fyrirtækisins á Ísafirði, en þar er m.a. unnið að vöruþróun, hönnun og smíði sérhæfðs búnaðar fyrir fiskvinnslufyrirtæki. Sérhæfing 3X Skagans á Ísafirði felst m.a. í körum og flutningi hráefna, auk þess sem á Ísafirði er unnið að rannsóknum á dauðastirnun í fiski, en slíkar rannsóknir eru forsenda fyrir nýrri byltingarkenndri kæliaðferð á fiski sem fyrirtækið hefur þróað.

Mynd-III

Næst lá leiðin í Vestfjarðastofu, en í húsakynnum hennar fer fram margháttuð starfsemi og margir fræddu hópinn um fjölbreytt viðfangsefni. Skipulag heimsóknar í Vestfjarðastofu var í höndum Elfu S. Hermannsdóttur, en hún er forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og lauk MPM námi vorið 2012. Önnur fyrirtæki og stofnanir sem sagt var frá í þessari heimsókn voru m.a. Snjóflóðasetur Veðurstofunnar, Hornstrandastofa Umhverfisstofnunar þar sem einn starfsmaður sinnir sérfræðistörfum um Hornstrandir og landvörslu á Hornströndum, Fjórðungssamband Vestfjarða og Háskólasetur Vestfjarða þar sem í boði er meistaranám í sjávarbyggðafræði og fleiri greinum sem tengjast Vestfjörðum. Einar Ágúst Yngvarsson kom þessu næst um borð í bílinn og ók með hópinn um Ísafjörð og nágrenni og greindi frá Fossavatnsgöngunni, skíðagöngukeppni sem haldin hefur verið frá árinu 1935 og næst verður haldin 25.-29. apríl næstkomandi og 1100 manns hafa skráð sig til þátttöku.

Hópurinn yfirgaf Ísafjörð í blíðskaparverði og keyrði austur á bóginn og hafði viðkomu í Súðavík. Dagbjört Hjaltadóttir grunnskólakennari tók á móti hópnum við minnismerki um snjóflóðin 1995. Þetta var áhrifarík stund þar sem Dagbjört fjallaði um sína eigin upplifun og reynslu frá þessum hamförum, og uppbyggingu þorpsins í kjölfar þeirra. Að þessu loknu var ekið áfram austur og náttað í Heydal. Í Heydal er rekin ferðaþjónusta af miklum glæsibrag og að morgni laugardagsins greindi Stella Guðmundsdóttir hópnum frá sögu ferðaþjónustu í Heydal og tildrögum þess að hún fluttist ásamt fjölskyldu sinni af höfuðborgarsvæðinu vestur í sveitasæluna og hóf að byggja upp skógrækt, fiskeldi og síðar ferðaþjónustu.

Mynd-II

Á laugardeginum var ekið til Hólmavíkur og þar tóku á móti okkur Andrea S. Jónsdóttir sveitastjóri Strandabyggðar og Jón Jónsson þjóðfræðingur og forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum. Andrea greindi frá margvíslegum verkefnum sveitarfélagsins og þeim miklu áskorunum sem felast í að bjóða upp á alla þjónustu sem gerð er krafa um í nútíma þjóðfélagi, í sveitarfélagi sem er einangrað og fámennt. Hér gildir að setja sér markmið, forgangsraða fjármunum en jafnframt vera tilbúin að grípa tækifæri sem gefast í breytilegu pólitísku andrúmslofti, til dæmis tækifæri til að leggja ljósleiðara til sveitarfélagsins. Andrea lauk einmitt MPM námi vorið 2012 og í erindi hennar kom fram að námið var henni dýrmætur undirbúningur undir starf sveitastjórans. Jón Jónsson fjallaði um strandamenn á óborganlegan hátt, meint og raunveruleg sérkenni þeirra, menningu strandamanna og hvernig hægt er að halda úti öflugu og skapandi menningarstarfi í fámenninu, en lykillinn að því er að allir taki þátt. Eftir þessa frábæru kynningu Andreu og Jóns á skrifstofum sveitarfélagsins var gengið yfir götuna yfir á hina heimsfrægu Galdrasýningu. Sigurður Atlason, framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar tók á móti hópnum og sagði frá sýningunni og tilurð hennar og í kjölfarið fékk hópurinn að skoða sýninguna. Þetta var síðasti liðurinn í dagskrá vorferðarinnar 2018.

Í MPM-náminu er þung áhersla á að halda tengslum við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni jafnt sem og í höfuðborginni. Vorferðin er því mikilvægur þáttur í náminu og það var sérstaklega gaman að koma á Vestfirðina og heyra sjónarmið heimamanna varðandi ýmis mál sem oft eru til umfjöllunar í fjölmiðlum sunnan heiða. Sjónarmið heimamanna eiga stundum erfitt uppdráttar í þeirri umræðu. Við erum ákaflega þakklát fyrir frábærar móttökur, fróðleg erindi og gestrisni og færum við gestgjöfum okkar bestu þakkir.

Áður hefur verið ferðast um á austurlandi, norðurlandi, á Reykjanesi, á vesturlandi, á suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Meðal margra frábærra gestgjafa í vorferðum fyrri ára hafa verið Vegagerðin, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Límtré Vírnet, Norðurorka, ÍAV í Vaðlaheiðargöngum, Akureyrarbær, Samherji, Landsvirkjun, Fjarðabyggð, Alcoa, Reykjanesbær, HS Orka, Bruggsmiðjan, Landgræðslan, Orkuveitan, Vegagerðin, Siglingastofnun, Vinnslustöðin, Sæferðir, Landmælingar, Kaupfélag Skagfirðinga, Háskólinn á Hólum, Biskupssetrið á Hólum, Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki, Actavis, Marel, Vísir og Grindavíkurbær. 


Fara á umsóknarvef