Helstu áskoranir atvinnulífsins í verkefnastjórnun?

Helgi Þór Ingason forstöðumaður MPM-námsins

Hverjar eru helstu áskoranir atvinnulífsins í stjórnun verkefna, eins og þær blasa við fólki í ólíkum atvinnugreinum? Þetta var til umfjöllunar á ráðstefnunni Vor í verkefnastjórnun sem MPM námið og Verkefnastjórnunarfélagið stóðu fyrir á síðasta ári. Fulltrúar átta greina atvinnulífsins komu og héldu stuttar kynningar um þessar áskoranir. Í upphafi var fjallað almennt um stöðu verkefnastjórnunar í íslensku atvinnulífi. Hún er þegar orðin mikilvægt fagsvið og þriðjungi unninna vinnustunda í atvinnulífinu er varið til verkefnavinnu.

Það er býsna fróðlegt að skoða kynningar fulltrúa hinna ólíku atvinnugreina og án þess að endursegja í smaátriðum hvað fram kom skulu hér dregin fram helstu atriði úr máli hvers og eins. 

Dagur-verkefnastjornunar

·       Fulltrúi úr fjármálakerfinu sagði að þar væru framundan gríðarlegar breytingar, og þær væru drifnar áfram af tækniþróun og fleiru, eins og nýjum reglugerðum frá Evrópusambandinu. Viðskiptalíkön viðskiptabankanna eru að breytast og þeir þurfa  að auka verkefnaþroska sinn hratt og örugglega til að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd. 

·       Fulltrúi heilbrigðisgeirans áréttaði að heilbrigðisþjónusta væri afar flókin og allskonar verkefni væru þar unnin, framkvæmdaverkefni, hugbúnaðarverkefni og breytingaverkefni svo nokkuð sé nefnt. Verkefni í heilbrigðisgeiranum einkennast oftar en ekki af því að hagsmunaaðilar eru margir og flækjustig hátt, en aðföng eru takmörkuð og starfsfólk hefur takmarkaðan tíma til að taka þátt í verkefnum. Helstu áskoranir felast í að nýta tímann, auka virði og eyða sóun og í þessu skyni hafa menn nýtt sér straumlínustjórnun.

·       Fulltrúi háskólaumhverfis vitnaði í alþjóðlega rannsókn á efnahagslegu vægi verkefna sem sýndi í hnotskurn hversu gríðarlega miklu máli skilvirk stjórnun verkefna skiptir fyrir árangur fyrirtækjanna. Vitnað var í samlíkingu nemanda í MPM námi sem útskýrði ákvörðun sína um að velja meistaranám í verkefnastjórnun fremur en í almennri stjórnun með því að það væru miklu fleiri verkefni til að stjórna heldur en fyrirtæki.

·       Fulltrúi ráðgjafaþjónustu sagði að það væri einkenni þess geira atvinnulífsins að öll tekjuskapandi vinna færi fram í gegnum ráðgjöf og skipurit fyrirtækjanna væri flatt. Áskoranir felast helst í því að það flækir yfirsýn að hver starfsmaður vinnur í mörgum verkefnum samtímis og svarar því á sama tíma til margra yfirmanna. Verkefnin bítast um starfsmennina og upp kemur ágreiningur um forgangsröðun.

·       Fulltrúi fyrirtækja í nýsköpun talaði um að miklu skipti hvernig staðið væri að vali á verkefnum og hugsanlega væri kominn tími til að þróa nýja tegund verkfæra, ný vallíkön sem tryggja betri samstöðu um val nýsköpunarverkefna.

Dagur-verkefnastjornunar-II·       Fulltrúi ferðaþjónustunnar talaði um hinn gríðarlega vöxt þessarar atvinnugreinar á stuttum tíma, en vandi hennar snýst um hinn mikla vöxt, skort á heildstæðri hugsun og stefnumótun, litla framlegð og vöntun á áreiðanlegum gögnum til að byggja stefnumótun og ákvarðanir á.

·       Fulltrúi orkuframleiðslu og -dreifingar sagði að áskoranir væru ýmsar, til dæmis að halda utan um það hvernig verkefni eru valin og þeim stýrt í gegnum áfangahlið. Hann lagði einnig töluverða áherslu áskoranir sem varða samskipti kynslóðanna, ör kynslóðaskipti eru að eiga sér stað innan fyrirtækjanna í þessum geira. Nýjar kynslóðir vinna með öðrum hætti en þær eldri og það getur verið snúið að samræma vinnu fólks á ólíkum aldursskeiðum sem nálgast vandamálin með ólíkum hætti.

·       Fulltrúi úr stjórnsýslunni talaði um að innan hennar væru töluverð sóknarfæri að auka skilvirkni en áskoranir þar eru meðal annars hið sterka stigveldisskipulag, skortur á eftirfylgni verkefna, takmörkuð skilvirkni í verkefnateymum og eilíf togststreita milli áríðandi og mikilvægra viðfangsefna. Til framtíðar væri mikilvægt að auka áhuga stjórnenda og millistjórnenda á verkefnastjórnun og byggja upp þekkingu innan stjórnsýslunnar á verkefnastjórnun sem lykilstjórntæki.


Allir þátttakendur tóku þátt í umræðum um áskoranir atvinnulífsins, að loknum þessum fróðlegu framsöguerindum. Niðurstöður þeirra umræðna eru efni í annan bloggpistil. Ráðstefnan Vor í verkefnastjórnun verður næst haldin þann 11. maí næstkomandi í samstarfi MPM námsins og Verkefnastjórnunarfélagsins. Þar verður á ný skyggnst inn í framtíðina og áhugafólki um verkefnastjórnun er bent á að taka daginn frá!


Fara á umsóknarvef